Tilvalið til að prófa með kaffinu

Eldhússystur

Systurnar Tobba og Stína halda úti matarblogginu Eldhússystur en markmið þeirra er að setja inn eina nýja uppskrift í viku á bloggið.  Hér er góð uppskrift frá þeim Eldhússystrum af litlum marsípan- og sítrónusnúðum með glassúr. Sniðugt er að baka snúðana og eiga í frysti fyrir helgina þegar gesti ber að garði. 

Þetta þarf í deigið fyrir snúðana:

  • 25 g ferskt ger eða 2,5 tsk þurrger
  • 125 g smjör
  • 5 dl mjólk
  • ½ tsk salt
  • 1,25 dl sykur
  • 2 egg
  • 15 dl hveiti

Aðferð:

Bræðið smjörið í potti, hellið mjólkinni undir og hitið að ca. 37°c.
Myljið ferska gerið út í mjólkina og leysið upp (ef þið notið þurrger, blandið því þá beint út í hveitið). 
Bætið salti, sykri og eggi út í vökvann. 
Bæti hveiti út í vökvann í nokkrum skömmtum og hnoðið vel. 
Geymið örlítið hveiti þangað til deigið er flatt út. 
Látið deigið hefa sig í ca. 45 mínútur eða þar til það hefur tvöfaldað sig.

Svo gerið þið fyllingu í snúðana:

  • 300 gr marsípan
  • 150 gr smjör, við stofuhita
  • Rifinn börkur af einni sítrónu
  • 4 msk sítrónusafi

Fyllingin er búin til með því að rífa niður marsípanið og blandið saman við smjörið, sítrónubörkinn og sítrónusafann.

Svo blandið þið deiginu við fyllinguna á þennan hátt:

Skiptið deiginu í 2 jafna hluta. Fletjið hvorn hluta út fyrir sig í ferhyrningin og smyrjið fyllingunni á. Rúllið deiginu upp og skerið hvora lengju fyrir sig í ca. 18 bita. Setjið snúðana á ofnplötu klædda með bökunarpappír. Látið snúðana hefa sig í ca. 30 mínútur og stillið ofninn á 250°c.

Sláið í sundur eggið, penslið snúðana með egginu og stráið möndluspæni yfir. Bakið í miðjum ofni í 8 – 10 mínútur.

Að lokum er glassúrinn settur ofan á snúðana:

  • 2 dl flórsykur
  • 2 msk sítrónusafi

Blandið saman flórsykri og sítrónusaft. Setjið glassúrinn á snúðana þegar þeir eru orðnir kaldir.

Eldhússystur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert