Rjómaostsmuffins

Súkkulaðimuffins með rjómaostakremi.
Súkkulaðimuffins með rjómaostakremi. Ljósmynd/Gulur Rauður Grænn og Salt

Berglind heldur úti matarblogginu Gulur rauður grænn og salt og birti um helgina uppskrift að súkkulaðimuffins með rjómaostsfyllingu á bloggi sínu

Uppskriftin er ótrúlega einföld, fyrst er súkkulaðideig sett í muffinsform, rjómaostskrem sett yfir og því skellt í ofn. Þegar muffinskökurnar eru komnar úr ofninum er rjómaostsglassúr settur á. 

Súkkulaðimuffins með rjómaostsfyllingu ca. 12 stk.
Súkkulaðimuffins
200 g Kornax-hveiti
125 g sykur
40 g kakó, t.d. frá Nóa og Síríusi
1/2 tsk natron
½ dl olía
1½ tsk hvítvínsedik
½ tsk vanilluextract

Rjómaostsfylling
150 g rjómaostur
60 g sykur
1 egg
½ tsk vanilludropar
hnífsoddur salt
100 g Nóa og Síríus-súkkulaðidropar

Rjómaostsglassúr
300 g flórsykur
20 g ósaltað smjör
125 g rjómaostur (við stofuhita)

Gerið súkkulaðimuffins með því að blanda saman hveiti, sykri, kakói og natroni. Í aðra skál hrærið þið saman olíu, ediki og vanilludropum ásamt 1½ dl af vatni. Hellið því rólega út í hveitiblönduna og þeytið á meðan. Látið í muffinsform og fyllið ca 2/3 af forminu.

Þeytið rjómaost, sykur, egg, vanillu og salt saman þar til það er orðið jafnt og loftkennt. Bætið við súkkulaðidropunum varlega með sleif. Setjið um matskeið af ostafyllingunni ofan á kökublönduna og bakið í 170°C heitum ofni í sirka 20 mínútur, eða þar til ostafyllingin hefur fengið jafnan gullinn lit. Varist að baka þær of lengi því þá verður fyllingin þurr.

Takið kökurnar út og leyfið þeim kólna smávegis í forminu. Takið þær svo úr formunum og leyfið þeim að kólna alveg.

Gerið rjómaostsglassúrinn með því að hræra saman flórsykur og smjör. Bætið rjómaosti saman við og hrærið í um þrjár mínútur eða þar til blandan er orðin létt og ljós.

Þegar kökurnar eru orðnar kaldar smyrjið þá glassúrnum á og skreytið með því að sigta smákakó yfir.

Gott er að eiga góð muffinsform fyrir bökunina.
Gott er að eiga góð muffinsform fyrir bökunina. Ljósmynd/Gulur Rauður Grænn og Salt
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert