Ilmandi og kryddað graskerskaffi

Katrín Björk kynntist graskerskaffinu þegar hún var úti í New …
Katrín Björk kynntist graskerskaffinu þegar hún var úti í New York. Ljósmynd/www.modernwifestyle.com/

Ljósmyndarinn og matarbloggarinn Katrín Björk heldur úti blogginu Modern Wifestyle en þar deilir hún uppskriftum að girnilegum mat og drykk og birtir glæsilegar ljósmyndir sem hún tekur.

Katrín deildi með lesendum Sunnudagsmoggans uppskrift að graskerskaffi en graskerskaffinu kynntist hún í New York. Graskerskaffi er auðveldara að búa til en maður heldur að sögn Katrínar en þessi tiltekna uppskrift varð til eftir nokkrar tilraunir.

Graskerskaffi

Graskersmauk

1. Skerðu graskerið í tvennt og fjarlægðu fræin.

2. Skerðu graskerið í hæfilega bita og settu þá með hýðinu á á bökunarplötu.

3. Bakaðu í 200°C heitum ofni í um 30 mínútur þar til hýðið er dökkt og aldinkjötið mjúkt. 

4. Þegar það er nógu kalt til að meðhöndla ætti að vera auðvelt að flysja graskerið eða skafa kjötið úr skelinni. 

5. Hentu hýðinu.

6. Maukaðu graskerið í matvinnsluvél eða blandara, settu það svo í gegnum fíngatað sigti. 

7. Núna ættirðu að vera með silkimjúkt graskersmauk sem hægt er að frysta og nota síðar í graskersböku eða annað góðgæti. 

Kaffið

  • 2 msk graskersmauk
  • 1/4 tsk kanill
  • 1/4 tsk engiferkrydd
  • 1/8 tsk múskat
  • 1 msk maltsíróp eða púðursykur
  • 1/4 tsk vanilludropar
  • 2 dl mjólk
  • 2 skot espresso
  • þeyttur rjómi (ef vill)

1. Hitaðu graskersmauk, krydd og sykur í potti þar til þykkt og klístrað.

2. Hrærðu mjólk og vanilludropa saman við. Gættu þess að mjólkin sjóði ekki. Ef þú vilt hafa mjólkina freyðandi er hægt að setja hana örstutt í blandara eða þeyta hana með handþeytara.

3. Lagaðu kaffið, helltu graskersmjólk út í og toppaðu með þeyttum rjóma. Uppskriftin er fyrir tvo. 

Þetta er ansi girnilegt.
Þetta er ansi girnilegt. Ljósmynd/www.modernwifestyle.com/
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert