Ítalskur hátíðarkjúklingur

Þótt að rautt kjöt tengist oft okkar hátíðarhefðum á það sama ekki við alls staðar. Á Ítalíu er t.d. algengt að bera á borð fisk eða kjúklingarétti í tengslum við kristilegar hátíðir á borð við jól og páska. Hér er ítölsk uppskrift að hátíðarlegum kjúkling. Í upprunalegu uppskriftinni er notað þurrt Marsala, sem að er styrkt vín frá Sikiley. Þess í stað notum við blöndu úr þurru sérrí og hvítvíni. Það væri líka hægt að nota þurrt hvítt Vermouth ásamt hvítvíni.

  • 1 heill kjúklingur
  • 500 g pasta, t.d. Tagliatelle eða Fettucine
  • kryddjurtir/krydd, t.d. rósmarín og estragon
  • 250 g sveppir
  • 250 g Mascarone-ostur
  • 1 laukur, saxaður
  • 3-4 vænir hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 2 dl þurrt sherry (fino)
  • 1 dl hvítvín
  • 2 msk Dijon-sinnep
  • lúka af saxaðri, ferskri, flatlaufa steinselju
  • ólífuolía
  • salt og pipar

Skerið kjúklinginn í “butterfly” með því að fjarlægja hryggjarbreinið. (Leiðbeiningar um hvernig maður butterfly-verkar kjúkling sjáið þið með því að smella hér). Saltið hann vel og kryddið báðum megin og kryddið með kryddjurtum, eða kryddi, t.d. rósmarín og estragon.

Það er líka að sjálfsögðu hægt að nota kjúkling sem að er hreinlega bútaður niður með öðrum hætti.

Hitið olíu á pönnu sem að má fara í ofn. Steikið kjúklinginn í um tvær til þrjár mínútur á hvorri hlið. Setjið inn í 200 gráðu heitan ofn og látið bringurnar snúa upp. Eldið í um 30-40 mínútur, það fer eftir þyngd fuglsins hvað hann er lengi að eldast.

Takið nú kjúklinginn af pönnunni og geymið, passið að allur safinn af honum leki á pönnuna. Setjið nú pönnuna aftur á eldavélina og mýkið laukinn á henni í nokkrar mínútur. Bætið næst hvítlauk og sveppum út á og steikið þar til að sveppirnir eru orðnir mjúkir.

Hellið víninu á pönnuna og sjóðið niður um helming.

Bætið sinnepinu við og hrærið vel saman. Setjði næst Mascarponeostin á pönnuna og hrærið á meðan hann er að bráðna og blandast saman við sósuna.

Bætið safanum sem hefur runnið af kjúklingnum saman við. Bætið saxaðri steinselju saman við.

Berið fram kjúklinginn, pasta og sósuna.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert