Lax í austurlenskri kókoskarrýsósu

Kókosmjólk og Red Curry paste mynda góða sósu með suðaustur-asískum blæ í þessari uppskrift með laxi.

  • 800 g lax
  • 2 dósir kókosmjólk
  • 3 msk Red Curry Paste
  • 1-2 tsk taílensk fiskisósa
  • safi úr 1 lime
  • 1 búnt vorlaukur, saxað
  • 1 væn lúka fínsaxaður kóríander
  • kirsuberjatómatar (eða aðrir litlir tómatar)
  • 2-3 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
  • olía

Byrjið á því að roðfletta laxaflakið og skera í bita. Hitið olíu og mýkið fínsaxaðan hvítlaukinn í 1-2 mínútur. Bætið Red Curry paste saman við og annarri dósinni af kókosmjólk. Blandið vel saman. Þegar blandan er byrjuð að malla á pönnunni eru laxabitarnir settir á pönnunni. Látið þá eldast í kókosblöndunni í 2-3 mínútur og snúið þá við og látið malla áfram í 2-3 mínútur í viðbót. Takið laxabitana upp úr og geymið.

Setjið nú afganginn af kókosmjólkinni á pönnuna ásamt saxaða vorlauknum og kirsuberjatómötum, fiskisósu og limesafa. Látið malla undir loki á vægum hita þar til að sósan fer að þykkna og safinn úr tómötunum hefur blandast vel saman við, ca 10 mínútur.

Takið lokið af pönnunni og bætið söxuðum kóríander saman við. Setjið laxabitana aftur á pönnuna og látið þá hitna í gegn.

Berið fram með hrísgrjónum. Ferskt, spænskt hvítvín með s.s. Vinea Verdejo frá Rueda-héraðinu.

Fleiri uppskriftir fyrir lax finnið þið með því að smella hér.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert