Pasta með beikoni og baunum

Beikon, grænar baunir, sítróna og steinselja eru uppistaðan í þessari pastasósu og rjóminn gefur henni góða mýkt. Það er ekki hægt að fá ferskar grænar baunir í búðum hér og því notum við frosnar grænar baunir (peas) í þessari uppskrift.

  • 500 g pasta, t.d. Penne
  • 100 g beikon, skorið í bita
  • 1 laukur, saxaður
  • 4-5 hvítlauksgeirar, saxaðir fínt
  • 1 sítróna, börkur rifinn og safinn pressaður
  • 2,5 dl rjómi
  • 2 dl grænar baunir
  • 1 væn lúka af fínt saxaðri flatlaufa steinselju
  • smjör
  • salt og pipar

Sjóðið pasta skv. leiðbeiningum.

Byrjið á því að hita góða klípu af smjöri á pönnu. Mýkið lauk og beikon í smjörinu í um 5 mínútur þar til að laukurinn er orðinn mjúkur og gullinn. Bætið þá hvítlauknum saman við og veltið áfram um á pönnunni í 2-3 mínútur.

Bætið næst rjómanum, rifna sítrónuberkinum og baununum saman við ásamt safa úr 1/2 sítrónu. Látið malla í smá stund á vægum hita þar til að sósan fer aðeins að þykkna aðeins. Bragðið til með salti og pipar.

Þegar pastað er tilbúið er vatninu hellt frá og pastanu bætt saman við sósuna á pönnunni, það má alveg koma smá vökvi með. Bætið steinseljunni líka út á pönnuna, hrærið vel saman og berið fram með rifnum parmesanosti.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert