Kryddjurtahúðað lambalæri á grillið

Lamb er vinsælt í Suður-Frakklandi og þar eru gjarnan notaðar ferskar kryddjurtir til að hjúpa lambið. Ef við ætlum að grilla lamb með þeim hætti er best að úrbeina lambið, forgrilla og elda síðan áfram á óbeinum hita til að tryggja að kryddhjúpurinn brenni ekki.

Það er best að nota lambalæri og fyrsta skrefið er að úrbeina það. Það er lítið mál að úrbeina læri og starfsfólkið í kjötborðinu er líka yfirleitt reiðubúið að gera það fyrir viðskiptavini.

Í kryddhjúpinn þarf eftirfarandi:

  • heimatilbúið brauðrasp af ca 5 brauðsneiðum
  • vænt búnt af flatlaufa steinselju
  • klípu af þurrkuðu timjan og/eða rósmarín
  • 3-4 hvítlauksgeira
  • sjávarsalt og pipar

Byrijð á því að rista brauðið á grind í ofni þar til að það er orðið stökkt og hefur tekið á sig góðan lit. Myljið brauðsneiðarnar í matvinnsluvél. Setjið steinselju, krydd, hvítlauk og salt í matvinnsluvélina og maukið saman við.

Penslið úrbeinað lambalærið með ólífuolíu og grillið í um 10-15 mínútur á hvorri hlið. Takið af grillinu, leyfið því að kólna aðeins og veltið þá upp úr raspblöndunni þannig að hún hjúpi lærið allt.

Slökkvið á 1-2 brennurunum (eða ýtið kolum til hliðar ef þið eruð með kolagrill) og grillið lærið áfram í um 20-30 mínútur á óbeinum hita. Tími ræðst af stærð læris og hvað þið vilið það mikið eldað. Passið vel upp á að hjúpurinn brenni ekki.

Takið af grillinu. Leyfið kjötinu að jafna sig í um tíu mínútur og berið þá fram.

Með lærinu passar frábærlega að hafa fyllta tómata að hætti Provence-búa en uppskrift af þeim er hér.Notið sama kryddrasp og lambið er hjúpað með til að fylla tómatana. Ef þið hafði tómatana er því nauðsynlegt að gera aðeins meira af raspinu.

Þessu til viðbótar er tilvalið að hafa Pestó kartöflusalat með en uppskriftin af því er hér.

Hér þarf gott suður-franskt rauðvín eins og Tautavel  eða jafnvel Bordeaux-vín á borð við Brio.

Uppskrift: vinotek.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert