Marengsbomba með Daim kremi

Þessi er súpergrinileg.
Þessi er súpergrinileg. Ljósmynd/Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir
„Það var svo gott að vakna í rólegheitum með Ingibjörgu Rósu minni í morgun en undanfarna daga höfum við verið á fullu að koma okkur út í vinnu og til dagmömmunnar, morgnarnir eru þess vegna ekkert svo rólegir á þessu heimili á virkum dögum. Helgarfríin eru kærkomin og við mæðgur byrjuðum á því að baka marengsköku handa ömmu Stínu. Ágætis morgunverk, á meðan marengsinn var í ofninum fórum við í göngutúr og í búðina að kaupa ávexti og rjóma. Amma Stína elskar Daim og marengskökur, hún gerði alltaf heimsins bestu Daim ísköku þegar við vorum yngri. Ég þarf endilega að finna þá uppskrift og deili henni þá að sjálfsögðu með ykkur. Það er gaman að baka fyrir fólkið sitt og áttum við ljúfa stund með henni og öðrum fjölskyldumeðlimum í dag,“ segir Eva Laufey Kjaran Hermannsdóttir matarbloggari og þáttastjórnandi á Stöð 2 á bloggsíðu sinni. 
Botnar:
  • 4 Brúnegg, aðskilin 
  • 200 g sykur 
  • 3 dl mulið kornflex
  • 1 tsk vanilla extract 
  • 1/2 tsk lyftiduft
Aðferð: 
  1. Hitið ofninn í 120°C. (blástur)
  2. Stífþeytið eggjahvíturnar og bætið sykrinum smám saman út í. 
  3. Handhrærið kornflexinu út í ásamt lyftidufti og vanillu.
  4. Smyrjið marensinum í hring á smjörspappírsklædda ofnplötu (þurfið tvær plötur fyrir 2 botna) og bakið í klukkustund. 

Fylling og krem 

  • 400 ml rjómi
  • 1 eggjarauða
  • 1 msk flórsykur
  • 100 g Daim súkkulaði 
  • jarðarber
  • vínber
Aðferð:
  1. Þeytið rjóma, bætið eggjarauðunni og flórsykrinum saman við þegar hann er léttþeyttur og þeytið áfram þar til kremið hefur blandast vel saman. 
  2. Skerið niður jarðaber og vínber, bætið ávöxtunum út í rjómann með sleikju og daim súkkulaðinu. 
Krem
  • 1 dl rjómi 
  • 2 lítil Daim súkkulaði 
  • 50 g dökkt súkkulaði
  1. Blandið öllu saman og hitið við vægan hita í potti, hrærið í á meðan. Ef ykkur finnst kremið of þunnt þá bætið þið meiri súkkulaði saman við. Kælið og hellið yfir kökuna. Skreytið kökuna gjarnan með ferskum berjum. 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert