Þetta vissir þú örugglega ekki um örbylgjuofninn þinn

Örbylgjuofninn er mörgum ómissandi.
Örbylgjuofninn er mörgum ómissandi.

Örbylgjuofninn er mikið þarfaþing, en hann má nota í svo ótalmargt annað en að hita upp matarleifar og örbylgjupopp.

Vefsíðan Prevention tók saman nokkur ráð sem gott er að kunna skil á.

Mýktu púðursykurinn

Gleymdir þú að loka púðursykrinum og er hann nú grjótharður? Gleymdu brauðskorpunum, því mun auðveldara, svo ég tali nú ekki um fljótlegra, er að redda þessu í örbylgjuofninum.

Það sem þú þarft er ílát úr gleri, munnþurrka og lítil undirskál. Að sjálfsögðu þurfa ílátin að þola það að vera sett í örbylgjuofn.

Þú setur púðursykurinn í ílátið og bleytir munnþurrkuna með vatni. Þú vilt ekki að munnþurrkan sé rennandi blaut og þess vegna er gott að kreista úr henni umframvökvann.

Því næst setur þú munnþurrkuna á topp púðursykursins og lokar ílátinu með undirskál, eða öðru loki, og skellir þessu í örbylgjuna í 20 sekúndur á hæsta hita.

Að þessu loknu ættir þú ekki að eiga í neinum vandræðum með að hræra upp í púðursykrinum sem er líkast til orðinn lungamjúkur.

Þurrkaðu kryddjurtir

Átt þú allt of mikið af ferskum kryddjurtum sem liggja undir skemmdum? Ef þú kýst að þurrka þær, í stað þess að frysta, getur þú auðveldlega brúkað örbylgjuofn til verksins.

Svona ferð þú að:

Skolaðu og þerraðu jurtirnar og fjarlægðu svo stilkana.

Raðaðu einföldu lagi af jurtum á þerripappír.

Skelltu kryddjurtunum í örbylgjuna í 20 sekúndur. Ef þær eru ekki orðnar þurrar skaltu endurtaka leikinn þar til réttri áferð hefur verið náð.

Malaðu þær niður og settu í loftþéttar umbúðir. Kryddið geymist í allt að þrjá mánuði.

Afhýddu hvítlaukinn

Ef þú nennir ómögulega að flysja hvítlaukinn, eða vilt einfaldlega losna við hvítlaukslyktina af höndunum, er snjallt að nota örbylgjuofninn í verkið.

Eins og í ofangreindum ráðum þarft þú blauta munnþurrku, eða þerripappír.

Þú einfaldlega vefur hvítlauksgeirunum í pappírinn og hendir inn í örbylgjuofninn í 15-20 sekúndur. Því næst nuddar þú einfaldlega hýðið af, án þess að fjarlægja laukinn.

Eftir örskot ætti hann að vera alveg kviknakinn.

Síðan má auðvitað skella hvítlauksgeirunum í loftþéttar umbúðir til að nota síðar.

Eldaðu kínóa

Hefur þú ekki tíma til að elda kínóa, eða ertu kannski ekki með aðgang að eldavél? Þú getur einfaldlega matreitt þessa ofurhollu korntegund í örbylgjuofninum, og það tekur aðeins örskot.

Byrjaðu á því að skola kornið, líkt og þú myndir gera undir venjulegum kringumstæðum. Því næst setur þú einn hluta af kínóa, á móti tveimur hlutum af vatni, í skál sem þolir að fara í örbylgjuofn. Mundu að þú þarft að nota lok, eða disk, til að loka skálinni.

Síðan skellir þú þessu í örbylgjuofninn í 6 mínútur. Að 6 mínútum liðnum tekur þú skálina út og hrærir örlítið í korninu, setur lokið aftur á og hendir í örbylgjuofninn í 2 mínútur í viðbót.

Þegar þú hefur hitað kornið í 8 mínútur tekur þú skálina út og leyfir því að standa í 5 mínútur.

Hver segir svo að örbylgjuofnar séu ekki til margra hluta nytsamlegir?

Kínóa með brokkolíi er sérlega ljúffengur réttur. Auðveldlega má stytta …
Kínóa með brokkolíi er sérlega ljúffengur réttur. Auðveldlega má stytta sér leið með því að nota örbylgjuofn. mbl.is/Marta María
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert