10 fæðutegundir sem borða má eftir síðasta söludag

Það má vel maula kex þrátt fyrir að það sé …
Það má vel maula kex þrátt fyrir að það sé komið fram yfir síðasta söludag. Mynd / Wikipedia

Matarsóun er algerlega glórulaust vandamál, en tölur segja að í vestrænum ríkjum lendi allt að þriðjungur matvæla í ruslinu. Ýmislegt má gera til að sporna við þessari þróun, líkt og að nýta mat sem er í góðu lagi, þrátt fyrir að hann sé kominn fram yfir síðasta söludag.

Á vef Daily Telegraph er að finna lista yfir 10 matvörur sem er vel má neyta, þrátt fyrir að „best fyrir“ dagsetning þeirra sé runnin upp.

Mjólk

Gerilsneydd mjólk geymist mun lengur ef hún er geymd á köldum stað. Prufaðu að geyma mjólkina aftast í ísskápnum í stað þess að geyma hana í hurðinni.

Ef mjólkin hefur súrnað getur þú notað hana til að gera pönnukökur, eða lummur.

Egg

Egg má nota í allt að 3-5 vikur eftir síðasta söludag. Þó verður að geyma eggin köldum stað, en hitinn má ekki fara yfir 5 gráður.

Sykraður matur

Allt sem inniheldur mikinn sykur, svo sem sultur og hunang er óhætt að borða löngu eftir síðasta söludag. Hunang rennur í raun og veru ekki út, en í því geta myndast kristallar sem sumum finnast ólystugir.

Súrsaður matur, svo sem súrkál og kimchi

Óhætt er að borða súrsaðan mat eftir síðasta söludag, það sama á við um mat sem hefur verið þurrkaður og saltaður.

Kartöfluflögur

Kartöfluflögur eru mjög saltar, mikið unnar og því er óhætt að borða þær allt að þremur vikum eftir að „best fyrir“ dagsetningin rennur upp.

Flögurnar gætu þó orðið linar með tímanum.

Kexkökur

Kex er mikið unnin matvara sem geymist lengi. Þeirra má njóta í allt að tvo mánuði eftir að þær renna út.

Ef kexkökurnar eru linar getur verið sniðugt að skella þeim í bakaraofninn í smá stund þar til þær verða stökkar og fínar á ný.

Þurrkað pasta

Ef þurrkað, ósoðið pasta er haft í loftþéttum umbúðum geymist það út í hið óendanlega.

Brauð

Geymdu brauðið í frysti og það endist von úr viti.

Dósamatur

Þú getur aukið endingartíma niðursuðudósa með því að geyma þær á köldum og dimmum stað.

Salat í poka

Svo lengi sem salatið þitt er ekki orðið myglað (visnað og myglað er ekki það sama) getur þú hresst það við undir bunu af köldu vatni.

Kjöt

Svo lengi sem kjöt hefur verið geymt við réttar aðstæður má nota það tveimur dögum eftir „best fyrir“ dagsetninguna. Gott er að lykta af kjötinu til að finna hvort einhver óþefur er af því.

Ostur

Þéttan ost, svo sem Cheddar, má vel borða eftir síðasta söludag. Ef mygla er farin að myndast á yfirborðinu má skera hana burt og nýta afganginn af ostinum. Það sama er ekki að segja um mjúka osta, svo sem Camenbert. Ekki skal leggja slíka osta sér til munns eftir að þeir hafa runnið út.

Einnig skal hafa í huga að munur er á merkingunum „síðasti söludagur“, „best fyrir“ og „notist fyrir“.

Ekki skal borða mat eftir að „notist fyrir“ dagsetningin er runnin upp. Jafnvel þótt hann virðist vera í lagi. Slíkar merkingar er einkum að finna á matvælum sem hafa takmarkað geymsluþol, svo sem kjöt, fisk og ýmiskonar salöt.

„Best fyrir“ merkingin, líkt og nafnið gefur til kynna, er ekki mælikvarði á það hvort maturinn sé ónýtur eða óheilsusamlegur. Dagsetningin gefur til kynna að bragðgæði eða áferð matvörunnar geti hafa breyst.

„Síðasti söludagur“ er merking sem ætluð er starfsfólki verslana. Þrátt fyrir að matur sé kominn fram yfir síðasta söludag getur vel verið að hann sé í fínasta lagi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert