Bakaði draumatertuna fyrir brúðkaupið

Heiðdís Haukdal og Sigurður Már Hannesson á brúðkaupsdaginn sinn.
Heiðdís Haukdal og Sigurður Már Hannesson á brúðkaupsdaginn sinn. Þormar Vignir Gunnarsson

Hjónakornin Heiðdís Haukdal Reynisdóttir og Sigurður Már Hannesson gengu í það heilaga í fyrrasumar, nánar tiltekið á 10 ára sambandsafmælinu sínu. Skötuhjúin slógu upp heljarinnar veislu en Heiðdís bakaði brúðartertuna sjálf með aðstoð frænku sinnar, Sylvíu Haukdal Brynjarsdóttur. 

Ljósmynd/Sylvía Haukdal
Stöllurnar hafa báðar einstaklega gaman af því að baka, en Heiðdís segist einnig hafa sparað á því að sjá sjálf um tertuna.

„Ég hef mikinn áhuga á því að baka og finnst það ofsalega skemmtilegt. Ég talaði við frænku mína, sem er alger kökusnillingur, og við ákváðum að gera þetta í sameiningu. Ég bakaði botnana, en hún setti kökuna saman og sá um að skreyta hana,“ segir Heiðdís, og bætir við að með þessu móti hafi hún getað haft kökuna nákvæmlega eins og hana dreymdi um.

Toppurinn á kökunni var guðdómlegur.
Toppurinn á kökunni var guðdómlegur. Ljósmynd/Þormar Vignir Gunnarsson

En fylgdi bakstrinum aukið álag?

„Það er náttúrlega allt stressandi í kringum brúðkaupsundirbúninginn, en þetta gekk þó smurt. Ég lét þetta bara ganga upp, einfaldlega vegna þess að þetta var svo gaman. Þetta var að vísu tímafrekt en kakan kom stórkostlega út,“ segir Heiðdís, og bætir við að hún hafi valið að baka eftirlætis súkkulaðibotnana sína, en smjörkrem ásamt karamellu- og súkkulaði-ganache hafi verið á milli botnanna. Tertan var síðan hjúpuð með sykurmassa.

Kakan í vinnslu.
Kakan í vinnslu. Ljósmynd/Sylvía Haukdal

„Hún var sjúklega góð. Stundum eru kökur fallegar en vondar. Ég var því einstaklega ánægð með að geta gert köku sem ég vissi að væri rosalega góð, en líka mjög falleg,“ segir Heiðdís og bætir við að hún sjái ekkert því til fyrirstöðu að brúðhjónin sjái sjálf um baksturinn.

„Algerlega, sérstaklega ef fólk fær hjálp frá fjölskyldu eða vinum. Maður þarf bara að skipuleggja sig vel, þetta tekur nefnilega alltaf lengri tíma en maður býst við. Við byrjuðum til að mynda að búa til blómin nokkrum vikum fyrir brúðkaupið, því þau skemmast ekki. Ég bakaði botnana einnig viku fyrir brúðkaupið, því þá má frysta. Með góðu skipulagi er þetta vel hægt. Svo var þetta ótrúlega skemmtileg samverustund og gaf okkur frænkunum ástæðu til að hittast.“

Kakan tilbúin.
Kakan tilbúin. Ljósmynd/Þormar Vignir Gunnarsson
Ljósmynd/Þormar Vignir Gunnarsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert