c

Pistlar:

8. maí 2013 kl. 9:11

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Segðu mér sögu

Við fórum í göngutúr með fimm ára syni okkar í gær. Eftir að hafa klifrað í trjánum settumst við á trjástubba og hann leit á mig og bað mig að segja sér sögu. Ég brást að sjálfsögðu við og sagði honum sögu af álfadreng. Sögur gegna lykilhlutverki í þróun okkar manna. Þær eru mikilvægar til að við getum skilið okkur sjálf og einnig til að hver kynslóð geti skilað af sér menningar- og fjölskylduarfinum. Við Íslendingar erum stolt af þjóðararfi okkar og upplifum okkur í gegnum fornsögurnar. Þannig erum við meðvituð um þau sterku gildi sem koma fram í þeim sögum sem við lærum mann fram af manni.

Skáld og skemmtikraftar, leikritaritara, sjónvarpsséríur og fésbókin eru meðal annars þeir miðlar sem við upplifum samtíman í gegnum. Rannsóknir hafa sýnt að þeir leiðtogar sem eru snjallir í að segja sögur ná betri árangri í að tengjast starfsmönnum. Ekki síst ná þeir árangri í að setja fram framtíðarsýn sem aðrir fylgja og trúa á.

Ég er svo heppin að vera alin upp í fjölskyldu þar sem er rík sagnahefð. Í sveitinni voru sagðar margar sögur af samferðafólki og liðinni tíð. Sumir ættingar mínir eru snillingar í að segja sögu og herma eftir fólki. Amma var alin upp á Flateyri og hafði þann starfa að fara og hlusta á útvarpið hjá þeim sem áttu slíkt undratæki, sem þá voru fá í þorpinu. Þegar heim var komið þuldi hún upp það sem hún heyrði. Þannig þjálfaðist hún frá unga aldri upp í því að hafa sögur rétt eftir. Hún segir enn margar sögur þar sem tími rafmagnsleysi og þess tíma þar sem formæður og feður höfðu fátt annað til lyfta sér upp nema sögur. Sögur af hamförum og harðræði íslenskrar náttúru standa manni lifandi fyrir augum. Sögur af skemmtilegum atburðum og atburðir aldanna verða skýr eins og þeir hefðu gerst í gær. Ekki svo sjaldan hlóum við svo mikið að einhverri sögunni að amma sagðist vera að pissa á sig eftir hláturrokuna. Ég lærði það snemma að þeir sem sagðar voru sögur af voru þeir sem settu mark sitt á samfélag sitt. Bændur og búalið sem höfðu átt alveg ógleymanleg augnablik í gagnverki samfélag þess sem þá var. Þannig eru reglulega rifjaðar upp sögur af fólki sem löngu er gengið á vit feðra sinna en ég þekki vel vegna þess að það lifir enn í munnmælum. Ég lærði líka að það er hárfín lína að segja sögu af fólki af virðingu en ekki þannig að lítið væri gert úr því.

Sagan um álfadrenginn sem fór út í hin stóra heim og villtist og fann svo álfakóng sem prumpaði mikið eftir að hafa sofnað grátandi vakti lukku hjá drengnum. Hann horfði kankvís á mig spurði hvort að álfakóngurinn væri ekki pabbi sinn en það var eftir að álfakóngurinn bjargaði hinum villt álfadreng. Ég horfði á hann og var nokkuð ánægð með augnablikið því hann hafði strax lært að allar sögur eru um okkur sjálf. Lífsbaráttuna og leit okkar að fjársjóðnum við enda regnbogans.