c

Pistlar:

5. desember 2016 kl. 11:36

Árelía Eydís Guðmundsdóttir (arelia.blog.is)

Skegg og englaryk

"Ef maður sér mann með skegg þá eru vinir hans líka með skegg", sagði sonur minn hugsandi þar sem við sátum og borðuðum skyndibita a la desember "of mikið að gera til að elda..". Vel athugað hjá mínum í ljósi þess að rannsóknir sína að við erum líklega summan af vinskap okkar. Ef svo má að orði komast.

Við erum hjarðdýr og þeir sem ekki tilheyra hjörðinni lifa ekki lengi. Þess vegna látum við vaxa skegg þegar vinir okkar gera það eða ef við erum af kvenkyni, gerum alla brjálaða í jólaundirbúningi. Eða þannig!

Í vinahópum verður til bæði stuðningur og viðmið um hvernig á að lifa lífinu. Við foreldrar sem erum með unglinga á heimilinu liggum á bæn og vonum að sá félagsskapur sé uppbyggilegur og til þess fallinn að lifa af testrósterón og extrógen sveiflur unglingsáranna. Á miðjum aldri þegar við förum í gegnum annað kynþroskaskeiðið þá er alveg jafn mikilvægt að hafa stuðning þegar lífið verður til þess að maður vill reyta hár sitt og skegg (þó maður sé kona).

Bestu vinirnar, að mínu mati, eru þeir sem reglulega gera eitthvað kreisí. Eitthvað sem hristir upp í manni. Líka þeir sem eru sannir sjálfum sér og ekki að þykjast svo ég tali nú ekki um að geta gefið af sér af óbilgirni. Þeir sem þora og þeir sem þola ekki niðurrif og þeir sem eru sólgnir í lífið og lífsgleðina. Sama hvað gengur á. Líka þeir sem hrasa og eiga bágt og þykjast ekki. Vinir sem geta víkkað sjóndeildarhringinn, geta verið norðurstjarnan þegar maður ekki sér hana og norðurljós á myrkum kvöldum. Þeir sem vilja ná árangri í lífi og starfi.

Kvenorkan ólgar eins og iður jarðar þegar konur koma saman á aðventunni og systralagið skín af okkur. Því jólin og aðventan er það sem skiptir okkur máli, samvera, fjölskyldan, fegurðin og ekki síst blingið og glitrandi skrautið. Þá er nú gaman að vera ekki með skegg og geta bara sameinast um að gera eithvað kreisí og helst með englaryki.