c

Pistlar:

3. júní 2011 kl. 3:07

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Nokkrar mýtur um öldrun

trends-healthEkki er svo langt síðan að flestir, þar með taldir vísindamenn, voru sannfærðir um að líffræðileg áhrif aldurs væru óumflýjanleg. Hægt væri að hafa það ágætt fram á miðjan aldur en eftir það færi fólk að tapa vöðvamassa, líkamshæð og orku – og svo auðvitað bíllyklunum. Nýjar rannsóknir sýna hins vegar að hægt er að forðast mikið af því sem áður átti að vera svo óumflýjanlegt við öldrun. Vöðvarnir þurfa ekki að rýrna og þú þarft hvorki að skreppa saman né hægja á þér. Lykillinn að því að eldast vel, fullur orku felst í einu orði: HREYFINGU! Jafnvel lámarkshreyfing og líkamsrækt geta dregið úr öldrun.

MÝTA 1 – Vöðvar þínir rýrna
Einungis ef þú leyfir þeim það. Margir tapa vöðvamassa eftir fertugt, vegna þess að með aldrinum geta  vöðvar orðið undirlagðir af hvatberum sem starfa illa, en þeirra hlutverk er að breyta fæðu og súrefni í orku fyrir líkamann. Kanadískir vísindamenn hafa komist að raun um að þeir sem komnir eru yfir fertugt og stunda einhverja tegund af líkamsrækt geta verið með jafngóða hvatbera og þeir sem eru á tvítugsaldri.

MÝTA 2 – Minnið tapast
Rannsóknir taugavísindamanna hafa sýnt fram á að hægt er að þjálfa heilann og styrkja hann, sama á hvaða aldri fólk er. Sýnt hefur verið fram á að hlaup hafa góð áhrif á heilann. Þeir sem ekki hafa áhuga á að hlaupa geta fengið sér 40 mínútna röska gönguferð svona þrisvar í viku, en sú hreyfing virðist nægileg til að örva heilann.

MÝTA 3 – Beinin skreppa saman – svo og þú
Hið raunverulega er að beinþynning þarf ekki að eiga sér stað. Hreyfingarleysi er ein helsta ógnun við sterk bein, svo ef þú vilt styrkja beinin þín getur þú meðal annars gert það með því að fara í röskar gönguferðir og svo auðvitað með því að taka inn góð bætiefni.

MÝTA 4 – Hafirðu ekki stundað líkamsrækt er of seint að byrja á henni núna
Sannleikurinn er sá að það er aldrei of seint að byrja að þjálfa líkamann og hvers kyns líkamsrækt dregur úr öldrun hans. Rannsóknir bæði í Bandaríkjunum og Evrópu hafa leitt í ljós að nánast hvaða hreyfing sem er, á hvaða aldri sem er, hjálpar til að vernda „telomeres“ – litlu hetturnar á endum krómósómana á endum hverrar frumu líkamans. Þegar frumurnar skipta sér, styttast þessar hettur og þegar þær verða of stuttar, hætta frumurnar að skipta sér og deyja. Hið góða er að rannsóknir hafa leitt í ljós að nánast hvaða æfingarkerfi sem er örvar líftíma frumanna – og getur lengt líf okkar og gæði þess.

Þýtt og endursagt úr grein Gretchen Reynolds, sem ritstýrir dálkum um heilsumál í New York Times.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira