c

Pistlar:

14. desember 2014 kl. 14:14

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Jólakonfektið í ár

img_6400.jpgÉg hef ekki gert konfekt fyrir jólin í mörg ár og líka alveg sleppt því að baka. Mér hefur ekki fundist taka því, en svo fór ég að gera hrákökur í haust eftir uppskrift sem ég fann á vefnum. Ég þarf alltaf að gera nokkrar tilraunir þegar ég fylgi nýjum uppskriftum til að ná fram mínu bragði. Mér datt í hug að hrákökugrunnurinn væri líka góður í konfekt og eftir 3ju tilraun endaði ég með kókoskúlur sem hreinlega renna út innan fjölskyldunnar. Uppskriftin er svona:

  • 2/3 bollar valhnetukjarnar, malaðir í matvinnsluvél
  • 2/3 bollar pecanhnetukjarnar, malaðir í matvinnsluvél
  • ½ bolli hreint kakó
  • 2 matskeiðar af Raw Cacoa Nibs (kakónibbum)
  • 1 bolli döðlur, brytja þær í svona 4 bita hverja, set í skál og helli sjóðandi vatni yfir og læt liggja í svona 30 mínútur (baka yfirleitt eina köku á meðan)
  • ¾ teskeið fínt himalaya-salt
  • 2 ½ teskeið vanilludropar (eða mauk innan úr vanillustöng)
  • 2 kúfaðar teskeiðar af kókosolíu, lífrænni frá Biona
  • 20 dropar stevia

Malið hnetukjarnana í smáum skömmtum og setjið í skál. Bætið kakói, kakónibbum og salti við. Setjið kókosolíu, vanilludropa og stevíu í skál og blandið létt saman. Sigtið vatnið af döðlunum og maukið þær í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Bætið döðlum og kókosolíublöndunni út í þurrefnin og hnoðið vel saman.Ég nota einnota hanska því blandan verður svolítið blaut og þess vegna betri.

Búið til litlar kúlur og veltið þeim upp úr kókosmjöli, raðið gjarnan á bökunarpappír í box og setjið í frysti án loks. Lokin hafa tilhneigingu til að verða svo stíf þegar þau frosna, svo ég smeygi boxunum bara í plastpoka meðan kúlurnar eru að frjósa. Þegar þær hafa náð því er gott að setja þær í plastpoka með rennilás, því þá er svo auðvelt að ná sér í eina og eina – eða fleiri þegar það á við.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira