c

Pistlar:

30. apríl 2016 kl. 13:57

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Hvernig tifar þín líkamskukka?

li_769_kamsklukka-01.jpgÍ bók okkar Candida Sveppasýking, fjölluðum við Hallgrímur heitinn Magnússon læknir, um líkamsklukkuna og hvernig við þurfum að hjálpa líkamanum að tifa í takt við hana. Hér kemur útdráttur úr bókinni, sem kennir þér aðeins á þessa klukku.

Þeir sem aðhyllast kenningar náttúrulækninga skipta sólarhringnum niður í þrjú tímabil, með tilliti til þarfa líkamans. Því er afar mikilvægt ef við ætlum að ná árangri að huga að því á hvaða tíma sólarhringsins fæðunnar er neytt. Best er að neyta hennar á tímum sem eru í samræmi við þá ferla sem eru í gangi í líkamsklukkunni.

Fyrsta tímabil líkamans stendur frá klukkan 4 á nóttunni til klukkan 12 á hádegi, en þá er líkaminn að hreinsa og gera við sig. Á þeim tíma ætti einungis að neyta fæðu sem hjálpar líkamanum við það. Í þeim flokki er fæða sem inniheldur mikinn vökva, vítamín og steinefni, en það er fæða eins og ávextir og ýmsar tegundir grænmetis. Við neyslu ávaxta ber að hafa í huga að þeirra á alltaf að neyta á tóman maga, því í þeim er töluvert magn af sykri. Ef þeir eru hafðir í eftirrétt á eftir stórri máltíð er mikil hætta á að þeir verði gerjun að bráð og viðhaldi þannig candida sveppnum í meltingarfærunum. Sé þeirra hins vegar neytt á tóman maga fara þeir í gegnum magann á um það bil hálftíma. Þaðan fara þeir inn í skeifugörnina, þar sem líkaminn tekur upp efnin úr þeim og getur strax nýtt sér þau.

Annað tímabil líkamans stendur frá klukkan 12 á hádegi til klukkan 20 að kvöldi. Á þessu tímabili er ráðlegt að neyta stærstu máltíðar dagsins, helst um hádegið og borða léttan mat að kvöldinu, því að þá er starfsemi líkamans komin í hægagang og hann á erfiðara með að vinna úr matnum. Ef við neytum stórrar máltíðar á kvöldin verðum við minna södd og aukum líkurnar á að borða yfir okkur. Það er mjög slæmt fyrir líkamann almennt, en þó einkum og sér í lagi ef við erum í meðferð gegn candida sveppasýkingu.

Samsetning fæðunnar er alltaf mikilvæg. Forðast ber að neyta í sömu máltíð fæðu sem rík er af eggjahvítuefnum, en það er fæða eins og kjöt, fiskur, egg og mjólkurmatur, og fæðu sem er auðug af kolvetnum eins og rótargrænmeti og kornmeti. Líkaminn beitir mismunandi meltingarvökvum við meltingu á þessum fæðutegundum og hvor meltingarvökvinn um sig eyðir hinum. Við það stöðvast fæðan í maganum og þá byrjar maturinn að gerjast og rotna. Á meðfylgjandi korti er hægt að sjá hvaða fæðuflokka er best að borða saman og hvaða fæðuflokka á að forðast að borða í sömu máltíð.

Þriðja tímabil líkamans er síðan frá klukkan 20 á kvöldin til klukkan 4 á nóttunni. Á því tímabili er líkaminn að nýta sér þá orku og þau vítamín sem hann hefur fengið í gegnum matinn og er jafnframt að undirbúa hreinsi- og viðgerðartímabilið. Þegar við neytum stórrar máltíðar seint á kvöldin kemur það í veg fyrir að líkaminn vinni eðlilega. Hann verður að einbeita sér að því að vinna úr matnum sem við vorum að borða og tæma magann. Þar af leiðandi getur hann ekki sinnt þeirri vinnu sem hann á að vinna á nýtingartímabilinu.

Það leiðir til dæmis til þess að lifrin getur ekki búið til nægilegar fjölsykrunga fyrir líkamann, svo hann geti starfað eðlilega að morgni við hreinsun sína og viðgerðir. Og þar sem eitt leiðir af öðru leiðir það síðan til þess að við sækjum í að neyta fæðu sem inniheldur sykur eða efni sem eru fljótgerjuð þegar við vöknum á morgnana, til að geta hafið vinnu dagsins, því við erum slöpp og ómöguleg af sykurskorti. Með þessu neysluferli hindrum við einnig að líkaminn geti stundað hreinsi- og viðgerðarvinnuna.

Pörun líffæranna

Hin margra alda gamla kínverska læknisfræði gerir ráð fyrir að líffæri þau sem tengja svokallaðar orkubrautir líkamans hámarki starfsemi sína á ákveðnum tímum sólarhrings. Einnig gerir hún ráð fyrir að líffærin séu pöruð; það er að á milli þeirra ríki svokölluð yin-kvenorka og yang-karlorka. Þannig hjálpa líffærin hvort öðru, annað líffærið er með yin- og hitt líffærið með yang-orku. Eins og sjá má á listanum yfir pörun líffæranna og helsta starfstímabil þeirra að ristillinn starfar best milli klukkan fimm og sjö á morgnana, en hann er eitt helsta hreinsilíffæri líkamans. Lungun gegna einnig því hlutverki að vera hreinsilíffæri og eru því pöruð á móti ristlinum. Eftir að ristillinn hefur hámarkað starfsemi sína milli klukkan fimm og sjö á morgnana er líkamanum því eðlilegt að tæma sig fljótlega eftir að við vöknum að morgni. Það getur ekki talist æskilegt að við dröslumst með óhreinindin sem ristillinn hefur unnið úr innan í okkur til lengdar. Gerist það má líkja því við uppvaskið. Hugsum okkur að í hvert skipti sem við ætluðum að þvo leirtauið myndum við byrja á því að hleypa óhreinindunum frá síðasta uppvaski inn í vaskinn og fara svo að þvo diskana.

Hámarksstarfstími líffæranna og pörun þeirra samkvæmt kínverska kerfinu:

Líffæri

Tími sólarhrings

Hjálparlíffæri

Vefur

Skynfæri

Lungu

3–5

Ristill

Húð

Nef

Ristill

5–7

Lungu

Húð

Nef

Magi

7–9

Milta

Fita, vöðvar

Munnur

Milta

9–11

Magi

Bandvefur

Munnur

Hjarta

11–13

Smáþarmar

Blóð, æðar

Tunga

Smáþarmar

13–15

Hjarta

Blóð, æðar

Tunga

Þvagblaðra

15–17

Nýru

Bein, liðir

Eyru

Nýru

17–19

Þvagblaðra

Bein, liðir

Eyru

Gollurshús

19–21

Þríhiti

Blóð, æðar

Tunga

Þríhiti

21–23

Gollurshús

Blóð, æðar

Tunga

Gallblaðra

23–01

Lifur

Vöðvar, liðir

Augu

Lifur

01–03

Gallblaðra

Vöðvar, liðir

Augu

Tímabilið á eftir ristiltímabilinu nær í raun allt frá klukkan sjö til klukkan ellefu, því það er tímabil maga og milta. Samkvæmt austurlensku læknisfræðinni hefur slímið aðsetur sitt í maganum, en það slím sem líkaminn myndar er mjög eggjahvíturíkt og brotnar niður í maganum með hjálp saltsýru og annarra efnahvata sem myndast í maganum. Þegar eggjahvítan hefur brotnað niður fer hún yfir í miltað, en miltað gegnir mikilvægu hlutverki í sambandi við framleiðslu á blóði, samkvæmt austurlensku læknisfræðinni. Þegar við borðum mikinn morgunmat eyðileggjum við þessa starfsemi í maganum og miltanu. Mikil slímsöfnun verður í líkamanum, blóðið þykknar við það að blóðflögurnar loða of mikið saman og missa eiginleika sinn til að flæða eins vel um líkamann og næra vefi hans og líffæri.

Tímabilið frá klukkan ellefu að morgni og til klukkan þrjú eftir hádegi tengist starfsemi hjartans og smáþarmanna. Smáþarmarnir taka á móti matnum og halda áfram að brjóta hann niður. Þaðan fer næringin með blóðinu gegnum lifur til hjartans. Hjartað dælir síðan næringarefnunum út um líkamann til þeirra líffæra sem þurfa á þeim að halda. Þegar tímabili þessara tveggja líffæra er að ljúka hefur myndast mikill vökvi í líkamanum og niðurbrotsefni sem hafa haldið áfram að brjóta fæðuna niður. Þá tekur við tímabil nýrnanna og blöðrunnar. Þau líffæri sjá um að skila vökva og óhreinindum úr líkamanum.

Frá því klukkan sjö og til ellefu að kvöldi er tímabil gollurshúss sem er utan um hjartað og þríhita, en þessar tvær orkubrautir flytja þá orku sem við höfum fengið í líkamann yfir daginn og ekki þurft að nota til þeirra líffæra sem á henni þurfa að halda eða þá til brjósthols-, kviðarhols- eða æxlunarlíffæranna.

Frá klukkan ellefu að kvöldi og til klukkan þrjú að nóttu er tími lifrar og gallblöðru. Þá hefst lokahreinsun eftir daginn en jafnframt nýting umframorkunnar ef einhver er, til að búa til glýkógen. Glýkógen eru sykrungar sem lifrin tengir saman til að geta síðan brotið þá í sundur í glúkósa, þegar líkaminn þarf að brenna sykurinn til að fá orku, til dæmis í morgunsárið. Vert er að geta þess að óróleiki í börnum að morgni dags er ekki vegna sykurskorts heldur yfirleitt vegna fráhvarfseinkenna, til dæmis frá mjólkurneyslu.

Þegar þessi tímahringur líffæranna er skoðaður sjáum við að það er engin furða þótt fólk sé slappt og veikt í dag, þar sem flestir brjóta öll grundvallaratriði hans.

Úr Candida sveppasýking © Hallgrímur Þ. Magnússon og Guðrún Bergmann, 2011.

Á námskeiðunum HREINT MATARÆÐI er m.a. unnið að því að koma jafnvægi á líkamsklukkuna.

 

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira