c

Pistlar:

18. júní 2017 kl. 9:54

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Daglegar áskoranir

Dagar, vikur og mánuðir þjóta áfram með ógnarhraða og brátt verður árið hálfnað. Ég er því að endurskoða þær áskoranir sem ég setti mér í upphafi árs. Þetta árið ákvað ég að kalla það sem ég ætlaði mér að ná árangri í áskoranir, en ekki markmið og það hefur gengið nokkuð vel að haka við listann. Ég er búin að fara í raddþjálfun, þótt ég hafi kannski ekki stundað æfingarnar eftir hana nógu vel, en bíllinn hefur þó reynst mjög góður æfingastaður. Ég hef líka staðið við þá áskorun að skrifa bók og ljúka við hana á tilsettum tíma. Vinnulag mitt er nefnilega þannig að fyrst ákveð ég skiladag og byrja svo að skrifa.

Um hvítasunnuna gekk ég á Ásfjall. Til að auka þekkingu mína hef ég skráð mig á nokkur námskeið þetta árið á netinu og þeim fylgir sú áskorun að stunda námið daglega, alla daga vikunnar.  Eitthvað fleira hefur verið hakað af listanum, en ég fyllti hann ekki alveg út í upphafi árs, því ég vissi að ég myndi fara yfir hann nokkrum sinnum á þessum tólf mánuðum, svo að í lok árs hefði mér tekist að mæta 66 mælanlegum áskorunum.

Þar sem markmiðin kallast áskoranir þetta árið, hef ég velti þeim nokkuð fyrir mér og komist að raun um að þær daglegu séu mun meira krefjandi, en til dæmis sú áskorun að ákveða að kaupa miða á tilboði hjá WOW og fara ein til Ísrael, af því mig hefur langað þangað síðan ég var um tvítugt og ekki fengið neinn til að koma með mér. Kjörið tækifæri til að drífa sig og hætta að bíða eftir öðrum.

ÞÆR DAGLEGU MEST KREFJANDI
Undir daglegu áskoranirnar falla hjá mér hlutir eins og að vakna alltaf á ákveðnum tíma, að fara daglega í gönguferð eða stunda aðra líkamsrækt og að muna að taka bætiefnin bæði kvölds og morgna, ekki bara á morgnana. Daglegu áskoranirnar eru auðvitað mun fleiri, en það eru einmitt þær sem leiða til langtíma árangurs. Stundum finnst okkur allt í lagi að sleppa þeim af því að við erum svo upptekin í vinnunni eða það eru vinir í heimsókn, eða eitthvað annað að gerast sem yfirtekur tíma okkar og við gleymum að sinna okkur sjálfum.

Og ekki halda að ég þekki þetta ekki allt saman af eigin raun. Þegar ég var að ljúka við síðustu yfirferð eftir prófarkalestur á nýjustu bókinni minni HREINN LÍFSSTÍLL sat ég að langt fram undir miðnætti, til að hönnuðirinn gæti byrjað að brjóta um textann næsta morgun. Um hálftólfleytið sendi ég svo póst á prófarkalesarann til að bera undir hana þýðingu á einu orði úr heimildum sem ég var með. Ég átti nú ekki von á svari fyrr en næsta morgun, en í ljós kom að hún var enn vakandi. Í póstinum sem hún sendi mér til baka stóð: “Ég er hrædd um að frúin fái ekki tveggja tíma svefn fyrir miðnætti þetta kvöldið.” Það var auðvitað alveg rétt hjá henni, en hún var að vísa til þess að í bókinni kemur sú hvatning fram.

Ég gat ekki varist brosi og afsökun mín var sú að í neyðartilvikum mætti víkja út frá þeirri góðu reglu – en ef neyðartilvikin verða mörg er hætt á að allar daglegar áskoranir fari út í veður og vind. 

HREINN LÍFSSTÍLL fer í forsölu á tilboðsverði eftir rúma viku. Þeir sem eru á póstlistanum mínum fá besta tilboðsverðið.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira