c

Pistlar:

29. september 2016 kl. 14:13

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Taktur hjartans

ho_769_pur-i_769_-tre_769_-b_1293241.pngNú er komið haust og lífið að komast í skorður. Ég lagði af stað inn í haustið með skýrar fyrirætlanir um að leyfa sumarhvíldinni að fylgja mér inn í veturinn og að muna nú að láta ekki streituna ná tökum á mér. Það hefur gengið ágætlega hingað til en það gerist ekki alveg af sjálfu sér. Ég þarf að minna sjálfa mig á og taka mér stundir til að endurnærast bæði þegar lífið flæðir áreynslulaust og líka þegar álagið verður meira. Það gefur mér ekki bara frí frá amstrinu heldur líka innblástur og svör við spurningum mínum. Og þannig byggi ég líka upp sterkt ónæmiskerfi gagnvart neikvæðni og vantrú á sjálfa mig.

Það koma alltaf dagar sem ég gleymi mér og þar sem mér tekst ekki að halda í kyrrðina og lífskraftinn. Til dæmis ef ég er illa sofin eða hef ekki sinnt sjálfri mér - þá fer ég jafnvel að samsama mig með álaginu og finnast ég vera undir þrýstingi - að þetta og hitt verði að gerast strax - jafnvel þó ég sé í raun of þreytt eða úr takti við sjálfa mig til þess. Þá eiga neikvæðar hugsanir greiðari aðgang að mér og þá hætti ég að sjá og hugsa skýrt.

Hæfilegt magn af streitu er af hinu góða. Hún gefur okkur skýran fókus og hæfni til að bregðast við. En þegar streitan tekur völdin þá verður lífið svo bragðlaust og hugurinn lokast fyrir möguleikum og fegurð lífsins. Og þá er mjög auðvelt að missa móðinn. 

Þess vegna er svo mikilvægt að vera með stuðningsnet fyrir hamingjuna.

Mínar helstu endurnæringarleiðir eru jóga, hugleiðsla, gönguferðir í náttúrunni og sund. Og mér finnst mikilvægt að vera hluti af hóp sem styður mig. Að fara reglulega eitthvert þar sem ég sæki mér innblástur og að hafa það innbyggt í stundaskrána mína.

Þegar álagið er mikið þá þarf ég að geta sótt í eitthvað sem virkar hratt og örugglega. Þar finnst mér öndunaræfingar vera alveg ómissandi "endurlífgunartæki". Stutt stund,jafnvel bara þrjár til fimm mínútur af jafnvægisgefandi öndunaræfingum geta haft ótrúlega mikið að segja.

Jógaiðkun og hugleiðsla hafa á lengri tíma gefið mér mjög dýrmæta hluti - eins og meiri lífsorku og lífsgleði, bætt samskipti við mína nánustu og jákvæðara lífsviðhorf. Ég hef líka undanfarið verið að sjá mikilvægi þess að setja mér markmið og vera þannig í takti við það sem hjartað mitt dreymir og tilbúin að taka á móti framtíðinni þegar hún kemur.

Því er það ekki einmitt taktur hjartans sem gefur okkur líf?

Við í Andartaki erum að flytja okkur um set og verðum með námskeiðin okkar í Bústaðakirkju í vetur. Allir velkomnir!

Guðrún - Darshan

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira