c

Pistlar:

24. desember 2014 kl. 16:48

Sif Jóhannsdóttir (gullrikid.blog.is)

Gleðileg jól frá Griswold fjölskyldunni

jolajola.jpg

Ég vaknaði í smá jólafýlu. Það er ekki vegna skorts á jólastemmningu. Nei, hér er allt morandi í stemmara. Smákökusortirnar orðnar einar sjö, jólatréð í stofunni stendur og stjörnuna glampar á,jólaísinn í frystinum, frómasinn í ísskápnum (allur í kekkjum, smá Griswold stund í eldhúsinu í gær), gjafir innpakkaðar, í hverju horni og allt eins og það á að vera. Eða næstum því. Fýlan stafar af því að nú, í annað sinn um ævina, held ég jól án mömmu og pabba. Ég er 34 ára og bara einu sinni áður verið foreldralaus um jólin. Það voru jólin 2006, mamma, pabbi og litli bróðir ákváðu að verja jólum í New York og þrátt fyrir grátur og gnístan tanna þá gáfu þau sig ekki og flugu á brott. Kærastinn reddaði málunum. Sem ég sat meyr yfir jólagjöfunum þá dró hann fram hring og bað mín. Búmm. Jólin sem áður höfðu dramatískan stimpil urðu að ævintýrastund. En það er ekki séns að hann nái að græja þessi jól með sama hætti. Við erum löngu hætt að vera trúlofuð og búin að gifta okkur. Þannig að framundan eru jól án mömmu og pabba.

En það er ekki það versta. Ég missi líka af uppáhalds jólastundinni minni. Hún er ekki tengd gjöfum eða stórveislum. Upp úr hádegi á aðfangadag hrúgumst við öll, mamma, pabbi, stóri bróðir, ég og litli bróðir inn í einn bíl. Kirkjugarðaleiðangur. Heimsækjum þá sem við söknum. Ömmuna og afana þrjá og fleiri sem við söknum. Þetta er fyrir mér hin helga stund jólanna! Það eru fastir liðir: Litli bróðir er neyddur af eldri systkinum til að sitja í miðjunni. Hann gafst upp fyrir löngu að tuða yfir því. Stóri bróðir prumpar einum fúlum. Einum virkilega rotnum. Við opnum alla glugga og gerum grín að honum alla leið upp í Grafarvog. Pabbi og stóri bróðir þrátta um bestu leiðina þar sem er minnst umferð. Mamma jesúsar sig. Stóri bróðir tuðar yfir því að hans tillaga að bestu leiðinni hafi ekki verið þegin og segir svo "ég sagði ykkur það" þegar við sitjum föst einhversstaðar. Mamma stressar sig á jólaverkunum sem er ólokið. Ég klíp litla bróður. Stóri bróðir klípur litla bróður. Hann reynir að klípa okkur til baka. Við rífumst yfir því að það megi ekki keyra að leiðunum í Fossvogi. Ég kem með tillögur að afsökunum fyrir því að fá að keyra (aðeins fyrir háaldraða og fatlaða), en enginn hlustar á mig svo ég þusa alla leiðina niður að leiði afa míns. Ef það er snjór, þá hendum við snjóboltum hvert í annað. Það er alltaf rok, svo það tekur heila eilífð að kveikja á kertunum svo við stöndum þétt í hnapp utan um þann sem kveikir í von um heimagert skjól. Og svona heldur þetta áfram. Steininn tekur úr þegar mamma tilkynnir óvænt gjafastopp. Stóri bróðir þusar. Ég pressa á pabba að viðhalda gömlu góðu hefðina sem við höfðum í gjafarúnti Aðfangadags, að koma við á Bæjarins bestu og hita mallann upp  með einni með öllu. Þá fær stóri bróðir flog. Hann hefur nefninlega tekið upp þann fáránlega sið að halda tvö boð á Aðfangadag og á von á einhverju liði í osta og pulsur og vill frekar maula það en pullu með okkur. Við gólum á hann. Ég vinn og fæ pulluna mína. Stóri bróðir sýnir andúð sína með því að vera sá eini sem fær sér ekki pulsu.Og loks, þegar allir hafa fengið útrás, litli bró er kominn með tonn af marblettum og pabbi er búinn að hóta að keyra með okkur út í skurð (þó án sígarettunnar sem var fastur liður í bílferðum fortíðarinnar, áður en fólk fattaði þetta með óbeinu reykingarnar) kem ég heim, tilbúin í jólabaðið.

national-lampoons-217x325.jpgOg í ár þá keyra þau þennan rúnt án mín. Litli bróðir fær gluggasæti og ætli það verði nokkuð úr þessari einu með öllu án frekjuskjóðunnar mín?

Tengdó eru reyndar í heimsókn. Spurning hvort ég geti troðið þeim í bílinn og tekið smá jólaleikrit. Verst hvað mágur minn tekur illa við klipi, ekki í sömu þjálfun og litli bróðir.

Óska ykkur öllum gleðilegra jóla. Takk fyrir samfylgdina á árinu sem er að líða.

Jólakveðja frá Griswold.

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir

Sif Jóhannsdóttir er 34 ára húsfrú í Los Angeles þótt hún verði alltaf Vesturbæingur í hjarta sínu. Í fyrra lífi starfaði hún hjá Forlaginu sem verkefnastjóri útgáfu enda eru bækur hennar helsta áhugamál. Nú sinnir hún dætrunum tveimur og heimilinu í fullu starfi í sól og sumaryl. Nýja starfið er ansi krefjandi sem veldur því að hún lætur sig stöðugt dreyma um starfsframa, nám eða hvað sem er utan heimilis. Hún byrjaði að blogga í aðdraganda flutninganna til að halda utan um þær breytingar sem voru að eiga sér stað í lífi hennar.

Meira