c

Pistlar:

30. júlí 2015 kl. 16:09

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Béin 3

bréneÉg dró fram gamlan pistil sem ég skrifaði fyrir löngu síðan og breytti honum aðeins, en það er aðallega vegna þess að ég er að fara á GLS ráðstefnu í Chigaco þar sem þessi frábæri fræðimaður og mannvinur verður með fyrirlestur. Hlakka mikið til að hlusta á hana og fleiri stórkostlega spekinga þar.

En hún Brene Brown Ph. D er bandarískur fræðimaður, rithöfundur og opinber ræðumaður sem ég hef fengið mikið dálæti á, og ég verð að segja að ég hreinlega elska verkin hennar… Hún starfar í dag sem rannsóknarprófessor við Háskólann í Houston Graduate College við félagsráðgjöf.

Í meira en áratug hefur hún tekið þátt í rannsóknum á viðkvæmni (vulnarability) hugrekki, áræðanleika, samúð og skömm. Hún hefur vakið verðskuldaða athygli og nú síðast hjá ekki ómerkari manneskju en sjálfri Oprah Winfrey!

Bé-in þrjú… Be loved… Belong… Be brave (Að vera elskaður, að tilheyra og að vera hugrakkur) er það sem BrenE segir að séu grunnþarfir okkar varðandi félagslega vellíðan.

Hún talar um að við ættum að leyfa okkur að dvelja í viðkvæmninni eða berskjöldun og leyfa okkur það að vera ekki alltaf fullkomin, að það sé allt í lagi að við séum stundum viðkvæm og svolítið hrædd… En svo segir hún líka: En við erum líka hugrökk oft á tíðum og eigum alltaf skilið að vera elskuð og að fá að tilheyra.

Við þörfnumst þess öll að vera elskuð og að tilheyra minni og stærri einingum í samfélaginu… og við þörfnumst fallegra tenginga við annað fólk, það eru þessi tengsl sem gefa okkur tilgang í líf okkar og tilveru en skortur á þeim valda okkur undantekningalaust vanlíðan og eða sorg.

Það virðist vera að við mennirnir skiptumst lauslega í tvo hópa samkvæmt rannsóknum Brené.

Fyrri hópurinn telur sig þurfa að vinna sér inn kærleikann með einhverjum hætti á meðan seinni hópurinn telur að hann eigi bara skilið ást og umhyggju og að fá að tilheyra (ég tilheyri greinilega þessum seinni) Þessi seinni hópur á ekkert betra eða farsælla líf en hinir sem telja sig þurfa að vinna sér inn ástina og tilheyrsluna, en þeim tekst með einhverjum hætti að halda í sjáfvirðið í gegnum öldudali lífsins.

En hvað er það sem gerir það að verkum að þessum seinni hóp tekst að halda í sjálfsvirðið og finnst þeir bara eiga skilið að fá kærleika og að tilheyra?

Þetta viðhorf er áunnið, og verður til vegna þess að þessi hópur skilur að það eru ákveðnir hlutir sem þurfa að hafa forgang hvern dag. Þeir sem teljast til þess hóps sem Brené talar um vita að það eru atriði eins og það að lifa í hugrekki, samhyggð og sambandi við annað fólk sem gefur lífinu gildi sitt. Þeir vita einnig að þeir þurfa að fá að dvelja í viðkvæmni sinni og eða að koma til dyranna nákvæmlega eins og þeir eru klæddir hverju sinni.

Öllum þessum kenningum Brené er ég svo gjörsamlega sammála og ég upplifi að eftir því sem ég er tilbúnari til að deila með öðrum því hversu afar ófullkomin mannvera ég er, og hversu mörg og mikil mistök ég geri á lærdómsleið minni um lífið, þá finnst mér fólk tilbúnara til að tengjast mér, treysta, og ég upplifi sterkar kærleika þeirra, samhygð og velvilja  til mín, og ég til þeirra…

Ég veit ekki hvernig það er með þig sem þetta lest en… Ég elska fólk, það er bara þannig. Ég elska að vita sem mest um annað fólk, hvernig því líður, hvað það er að framkvæma, hvað er gott og hvað er slæmt í lífum þeirra. Ég elska að hlæja, hugga, borða og eiga samfélag með öðrum mannverum. Við erum nefnilega flest bara svo yndisleg þrátt fyrir alla gallana okkar.

Sumir eiga erfitt með að skilja þetta í fari mínu sem er í fínu lagi, ég veit hvað drífur mig áfram.  Ég elska fólk.  Og ég eins og aðrir þarf að fá kærleika frá öðrum mannverum, það finn ég að gefur mér vellíðan og tilgang. Auðvitað er yndislegt þegar ég fæ kærleikann til baka frá þeim sem ég gef hann til en það skiptir þó ekki alltaf máli.. Og ég þrái auðvita meiri kærleika frá sumum en öðrum, eins og gefur að skilja.

Við þráum öll að þeir sem við elskum heitt eins og, maki, börn, barnabörn og vinir eigi það sama í hjarta sér og það sem við eigum til þeirra, og það er bara eðlilegt. En hvort sem ég fæ kærleika á sama hátt frá þessum aðilum eða ekki, þá á eiga þeir minn kærleika, og það að mestu skilyrðislausan í dag.

því að hjarta mitt er einfaldlega þakklátt fyrir að upplifa þann kærleika sem þar er til að miðla. Svo verum nú dugleg að leyfa okkur sjálfum og þeim sem við umgöngumst að finna vel fyrir þessum þremur B-um, að finna að þeir tilheyri okkur, að þeir séu elskaðir og látum þá finna fyrir stuðningi okkar þegar þeir taka skrefin inn í hugrekkið.

Þar til næst elskurnar

xoxo

ykkar Linda

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira