c

Pistlar:

11. desember 2023 kl. 13:09

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Stundin þar sem orrustan stöðvaðist

Í huga okkar flestra eru jólin hátíð gleðinnar, pakkanna, konfektsins og fjölskylduhittinganna, og það er dásamlegt til þess að hugsa að við sem erum af minni kynslóð og þeim sem yngri erum höfum haft tækifæri á því að setja jólin í þetta samhengi í huga okkar. 

Jólin hafa þó ekki alltaf þessa merkingu í hugum manna, þó svo sannarlega hafi verið reynt að skapa anda þeirra í hinum ýmsu aðstæðum, jafnvel í aðstæðum sem ekkert okkar getur ímyndað sér hvernig er að upplifa.

Þekkt er sagan af ungum stríðandi hermönnum á vesturbakkanum í fyrri heimstyrjöldinni eða árið 1914 sem lögðu niður vopn sín til að skiptast á jólakveðjum, spila fótbolta og syngja saman jólalagið okkar Heims um ból. Hermennirnir sem voru frá Þýskalandi, Frakklandi og Bretlandi sýndu þar með þann sanna jólaanda sem sameinar ólíka aðila, andann sem boðar frið og samhug fyrir alla sama hvaðan þeir koma og hvað svo sem þeir hafa gert, þar sem við verðum sem einn maður í okkar jarðneska reynsluheimi. 

Í mínum huga er það kristaltært að þessi sanna jólasaga sýnir mátt þessarar hátíðar og þess anda sem hún boðar, þó að ekki megi lengur tala um afmælisbarnið sem við heiðrum þennan dag.

Sumir vilja bara sleppa jólunum og færa fyrir því þau rök að afmælisdrengurinn hafi alls ekki fæðst þennan dag, og að líklega hafi hann fæðst í kringum 17 apríl og því sé ekkert að marka þetta. Eins segja þeir að þetta hafi verið heiðin hátíð sem hinir Kristnu hafi stolið sem er jú rétt, en fyrir mér er það algjört aukaatriði því að hvað er fallegra en að heiðra afmælisbarnið með hækkandi sól.

Aðalatriðið er að við látum aldrei af hendi hátíð sem boðar frið, gleði, samveru og allt það sem gott telst við mannlífið.

Ég hef lært það á mínum 63 árum að fátt er jafn dýrmætt og það að halda upp á hvert ár sem ég fæ á þessari jörðu því að það er ekki sjálfgefið að fá að lifa enn eitt árið og því ber að þakka og gleðjast á þeim tímamótum.

Það að halda upp á afmæli Jesú sem er tákn fyrir allt það sem gott finnst í mannlegu samhengi eins og jafnrétti, kærleika, frið og fyrirgefningu er auðvitað sjálfsagt, sama á hvaða árstíð við gerum það, þó að mér finnist nú ósköp gott að lífga upp á skammdegið með þessari hátíð ljóss og friðar.

Hátíðina megum við amk aldrei láta frá okkur hvar sem við stöndum í trú okkar og skoðunum á Jesúbarninu því að það myndast ákveðin orka á þessum tíma.

Sameiningar og kærleiksorkan sem myndast á þessum tíma kennir okkur að við séum öll eitt í alheimi hér og við finnum til sameiningar, samkenndar og kærleika gagnvart hverju öðru og jafnvel gagnvart þeim sem við berjumst við eins og sagan hér að framan segir okkur. Ekki veitir af því að minna okkur á það í dag þar sem þúsundir láta lífið í tilgangslausum ógnarstríðum efnahagskerfa og valdasjúkra stjórnenda heimsins sem láta sér standa á sama um mannlegt líf og tilveru og sýna þar með eðli þess illa sem finna má í mannlegu eðli sem er andstæðan við það sem hátíð ljóss og friðar  boðar. 

Á þessum tíma ársins erum við gjafmild sem aldrei fyrr og styðjum við þá sem minna eiga en við sjálf, og getum ekki hugsað okkur að nágrannar okkar hafi ekki mat á borðum sínum eða pakka handa börnum sínum. Er ekki dásamlegt að við skulum opna hjörtu okkar með þessum hætti þó að það sé aðeins í nokkra daga á ári? þessir dagar gætu svo innilega minnt okkur á hvað það er sem við þurfum að gera til að skapa himnaríki á jörðu, svo einfalt í eðli sínu en þó svo erfitt að framkvæma 365 daga á ári þar sem okkar eigið ego rekst á okkur í tíma og ótíma.

Nokkrir jólaspillar gætu komið á móti mér og sagt að jólin séu sko ekkert annað en stress og fólk sem fyllist kaupæði á þessum tíma og að allt sé þetta pjátur og óþarfi og það eigi að leggja af þessa hátíð. Vissulega er það pæling útaf fyrir sig, þó að ég sé bara alls ekki sammála þessum viðhorfum. 

Jú við reynum að gefa gjafir af efnum eða vanefnum okkar og við kaupum mat sem gleður bragðlaukana, og ef ég tala fyrir mig þá skal húsið einnig vera hreint og vel skreytt til að hátíðin sé eins vel haldin og hægt er. Það gleður anda minn og vonandi þeirra sem inn á mitt heimili koma á þessum tíma. Og jú það fylgir því stress að vasast í undirbúningnum, en það er jákvætt stress og minningarnar sem verða eftir í hugum okkar margra eru virði smá aukins cortisols í nokkra daga á ári.

Ég geri mér fulla grein fyrir því að jólin eru ekki öllum gleðileg og að lífið hefur úthlutað til margra stórum og erfiðum verkefnum þetta árið sem önnur, og að þeir aðilar sem þau verkefni fengu þurfa þar af leiðandi meira á okkur að halda nú fyrir og um hátíðina sjálfa en endranær.

Við ættum að gera það sem er á valdi okkar til að létta þeim þennan tíma og að innifela þá í athöfnum okkar og gleðistundum, veita þeim einnig þá aðstoð sem kemur sér best fyrir þá og þeirra aðstæður sem ég veit að við auðvitað gerum flest ef tök eru á. Ég hef sjálf átt erfið jól og veit vel að þau geta gert mann meyran og sorgmæddan, og mörg tár sem geta fallið vegna þess að við kannski grátum það sem áður var gleði okkar eða við finnum fyrir vanmætti fátæktar okkar og aðstæðna. 

Þó er það svo merkilegt að jafnvel á þessum sáru erfiðu stundum finnum við fyrir jólaandanum innst inni þó að logi hans sé kannski af skornum skammti á meðan við vinnum úr verkefnum okkar. 

Reynum að heiðra anda jólanna og afmælisbarnið með einhverjum hætti þrátt fyrir en ekki vegna þess að allt sé svo fullkomið og gott í lífi okkar elskurnar og hér fyrir neðan eru nokkrar hugmyndir sem geta gefið okkur smá jólaneista í sálu okkar ef við framkvæmum þær.  

Hér koma svo mínar hugmyndir:

1. Skreytum heimilið og höfum börnin okkar eða barnabörn með í því og jafnvel stórfjölskylduna alla!

2. Bökum saman smákökur og steikjum laufabrauð.

3. Horfum saman á jólamyndir og spilum (það eru svo mörg skemmtileg spil til í dag).

4. Borðum saman sem oftast með fjölskyldu og vinum.(Má vera Pálínuboð).

5. Skrifum fallegar orðsendingar til þeirra sem eiga pláss í hjarta okkar og segjum þeim hvað það er sem við kunnum að meta við þá.

6. Aðstoðum hjálparstofnanir við að gleðja þá sem eiga um sárt að binda, það gefur okkur meiri vellíðan í hjarta okkar en við getum ímyndað okkur.

7. Finnum í okkur jólaandann sjálfan og notum hann til að gera heiminn að betri stað - þessi tími er fullkominn til þess að æfa sig í samkenndinni.

8. Hrósum þeim sem eru útkeyrðir af álagi í verslununum og brosum til þeirra (og setjum kerrurnar á réttan stað eftir notkun)

9. Gefum okkur tíma í sögustund þar sem við deilum upplifun okkar á jólum fjölskyldunnar fyrr og nú, og komum fram með skemmtilegar sögur af þeim í leiðinni. 

10. Höfum stund þar sem við hittum alla fjölskyldumeðlimi fjær og nær með aðstoð internetsins.

10. Að lokum þá snýst þetta allt saman um að eiga gæða, gleði og kærleiksstundir þar sem við gefum af okkur ást, frið og samveru sem í leiðinni skapa minningar sem lifa með okkur um ókominn tíma.

Óska ykkur öllum gleðilegra og hamingjuríkra jóla elskurnar, og munum að í öllum aðstæðum getur andi jólanna birst eins og hann gerði hjá ungu hermönnunum í sögunni að framan þrátt fyrir erfiðleika ársins og atburða þess í okkar persónulega lífi.

Kærleiks og friðarkveðja,

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lífsþjálfi/samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira