c

Pistlar:

21. apríl 2014 kl. 10:42

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Finndu miðjuna í neonlituðum "hotpants"

Uppáhaldskristilega hátíðin mín er að ganga í garð – sjálfir páskarnir. Ólíkt jólunum þá koma páskarnir alltaf notalega á óvart enda gerir fólk almennt engar sérstakar kröfur til páskanna. Það er ekki með væntingar um að fá eitthvað sjúklega dýrt og fínt frá ástinni og heimilið þarf ekki að vera fullkomið. Flestir sætta sig við eina grein í vasa með nokkrum vesælum eggjum á og í versta falli nokkrar páskaliljur á stangli.

Ég veit ekki um neinn sem dressar sig sérstaklega upp fyrir páskana, lætur klippa fjölskylduna, kaupir páskagjafir eða er búinn að ákveða það með margra vikna fyrirvara hvað matreitt verður. Nema náttúrlega hinir ofurskipulögðu sem borða alltaf það sama á páskadag og annan í páskum. Páskarnir eru tími til að njóta, vera afslappaður og svo væri ekki verra ef maður myndi finna miðjuna...(svona í eitt skipti fyrir öll).

Eftir sérlega mikla vinnutörn sé ég það í hillingum að slappa af, gera ekkert heldur vera svolítið eins og 12 ára. Í eigin heimi og áhyggjulaus. Á einhverjum tímapunkti í þarsíðustu viku var ég orðin svo stressuð út af vinnu (og kaótísku einkalífi) að ég var komin með öran hjartslátt. Þegar ég ræddi það við móðursystur mína sagði hún að ég yrði að finna leið til að slaka á og sagði svo: „Þú veist að fólk fær enga aðvörun þegar það fer yfir um. Það getur bara snappað allt í einu.“

Það var því allt sett á fullt við að reyna að slappa af, tæma hugann, leggja gerviþarfir til hliðar og einbeita sér að andardrættinum – anda inn – anda út. Eftir þrotlausa vinnu í að reyna að slaka á verð ég að játa að núllstillingin gengur ágætlega en ég hef örlitlar áhyggjur af einu.

Það sem raskar áætluninni um að finna miðjuna er spenningur einkasonanna tveggja fyrir páskunum. Monsurnar tvær (synir mínir) eru sérstaklega búnar að óska eftir því að fá risavaxin páskaegg og þeir vilja leita að þeim. Það eina sem ég hef gert fyrir þessa páska, fyrir utan náttúrlega að kaupa í matinn, er að fjárfesta í gulum skrifstofumiðum sem dreift verður um húsið í hinum ógurlega ratleik sem mun teygja anga sína yfir á lóð nágrannans og ég veit ekki hvað. Þessi ratleikur er svolítið að eyðileggja fyrir mér leitina að miðjunni því ef ég þekki mína menn þá verður sá yngri vaknaður fyrir klukkan sjö á páskadag í geðveiku stuði. Hann mun því drösla langþreyttri móður sinni á fætur sem mun að öllum líkindum vera hálfvönkuð í leitinni ógurlegu að súkkulaðieggjunum.

Ef monsurnar finna eggin, verða þau svo borðuð uppi í hvítu rúmfötunum mínum sem munu láta verulega á sjá eftir þessa aðför...sem veldur smá spennu.

Kraftlyftingaþjálfarinn minn spurði mig í vikunni hvort ég ætlaði nokkuð að fá mér páskaegg. Ég horfði á hann með undrunarsvip og sagðist að sjálfsögðu ætla að fá mér. Í lífinu skiptir nefnilega mjög miklu máli að hafa góða stemningu í forgrunni og það að borða páskaegg uppi í rúmi á páskadag er liður í því. Þótt páskaegg séu kannski ekki það alhollasta sem hægt er að borða hef ég enga trú á að smá súkkulaði fari með mig í gröfina og ég muni hljóta varanlega skaða af.

Þar sem páskanna verður notið í Reykjavík City finnst mér mikilvægt að það komi fram að klæðnaður hátíðarinnar hefur nú þegar verið valinn. Um er að ræða neonlitaðar „hot-pants“, hlýrabol og hlébarðasokka. Í þessum klæðnaði er mjög gott að liggja undir sæng og horfa á sjónvarpið og svo þrengir dressið ekki að þegar búið er að offylla magann af harðri fitu...Stundum er bara nauðsynlegt að klæða sig eftir veðri, vindum og aðstæðum innandyra.