c

Pistlar:

23. september 2016 kl. 9:40

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Að skúra undan ríku börnunum

ThinkstockPhotos-469956400Þegar fólk er spurt hvað heimili geri fyrir það þá er svarið gjarnan að heimilið sé griðastaður. Staður þar sem fólk fær að vera í friði og getur látið eins og því sýnist. Ég ætla nú ekki að telja upp alla kreisí hlutina sem hægt er að gera inni á heimilum enda eru áhugamál fólks misjöfn.

Frá því ég flutti að heiman hefur heimilið verið mitt áhugamál og ég hef fengið mikla útrás fyrir sköpunargleðina með því að færa til húsgögn og breyta. Þessu brasi öllu hefur fylgt mikil stemmning, gleði og hamingja. Stundum hef ég reyndar eytt óþarflega miklum tíma í svona bras og oft og tíðum fór meiri tími í að græja og gera inni á heimilinu en að njóta þess að slappa af og hangsa heima hjá sér. En af því ég er alveg að verða 40 ára þá veit ég líka að ég hefði ekki viljað hafa þetta neitt öðruvísi.

Ég man vel hvað það var dásamleg tilfinning að spóka sig um einn heima hjá sér og geta gert allt sem manni sýndist. Engir foreldrar að stoppa góðar hugmyndir og enginn leiðinlegur kærasti með sérþarfir og of sterkar skoðanir.

Ég lenti þó fljótlega á vegg því það getur verið svolítið erfitt að vera fullorðin(n). Unglingur getur látið eins og unglingur og barn getur látið eins og barn, en þegar ung kona kaupir sér fasteign þarf hún að standa sig. Fólk verður fullorðið þegar það neyðist til að standa á eigin fótum og það er alveg ótrúlegt hvað rætist úr fólki við þessar aðstæður.

Þegar ég keypti íbúðina fékk ég tvö mjög góð ráð frá sigldari vinkonum mínum. Önnur sagði mér að maður mætti aldrei skulda Íbúðalánasjóði í meira en þrjá mánuði því þá færi allt í vesen og hin ráðlagði mér að fá mér þjónustufulltrúa og vera með reikningana í greiðsluþjónustu. Ég passaði þetta tvennt þó að ég játi alveg að það hafi komið ansi hraustleg krepputímabil inn á milli. Þegar kreppti að fékk ég mér aukavinnu og meiri aukavinnu.

Ég til dæmis skúraði skítinn undan börnum ríkra og frægra í 101 á leikskóla nokkrum og fékk mikið af góðum hugmyndum á meðan.

Á meðan ég skúraði og þreif puttaför í 50 sm hæð frá gólfi hugsaði ég allan tímann hvað ég gæti gert til þess að sleppa úr þessari prísund. Hugsaði stíft hvernig ég gæti orðið mér út um peninga á heiðarlegan hátt með því að gera eitthvað skemmtilegt. Sumir eru mjög góðir í að þrífa og njóta sín við þá iðju en ég hef einhvern veginn aldrei verið í powerinu mínu á því sviði (ég er betri í að drasla til).

Árin í kringum tvítugt eru mótunarár og á þessum árum lærði ég að hjóla í hlutina án þess að vera kannski búin að hugsa þá til enda. Og það er allt í lagi. Ég myndi kannski ekki gera þetta svona í dag en einhvern veginn náði maður að synda í land. Ég lærði líka að finna leiðir til að láta draumana rætast þótt blankheitin væru töluverð. Ég lærði til dæmis að mála veggi og lakka og mun alltaf geta skipti um lit á veggjunum meðan ég hef líkamlega heilsu.

Vandamálið er bara að þegar fólk er alveg að verða 40 ára þá hættir því til að skipuleggja hlutina of vel. Þegar fólk er búið að gera kostnaðaráætlun og skipuleggja verk gæti því dottið í hug, ef það er með virkara hægra heilahvel, að fara kannski bara frekar í frí en að skipta um innihurðir. Og það er líka allt í lagi. Þegar öllu er á botninn hvolft skiptir mestu máli að hver fái bara að vera eins og hann er – svo framarlega sem hann skaðar ekki aðra.