c

Pistlar:

5. apríl 2019 kl. 9:58

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Skráði sig næstum í sambúð með ömmu

Ástin er eitt sterkasta afl veraldar því með henni er hægt að flytja fjöll og dali eins og þeir vita sem hafa orðið ástfangnir.

Hér í blaðinu eru fjölmörg viðtöl við ástfangið fólk sem ákvað að ganga lífsins veg saman. Það er hægt að ganga í hjónaband á ótal vegu og er engin ein leið rétt. Sumir kjósa að tjalda öllu til en aðrir vilja hafa brúðkaupið sitt lágstemmt.

En hvers vegna er hjónabandið svona mikilvægt? Hjónabandið er ekki bara merki um að ástin sé sterk og fólk vilji ganga lífsins veg saman í blíðu og stríðu. Réttindi fólks í hjónabandi eru allt önnur en fólks í sambúð. Það er mjög órómantískt að ræða praktíska hluti hjónabandsins en það er hins vegar mikilvægt að fólk sé upplýst um réttarstöðu sína. Þótt hér séu skilnaðir ekki til umræðu má samt nefna að það er mun auðveldara að skilja ef fólk er í hjónabandi en eingöngu í sambúð. Það er að segja ef um praktíska hluti er að ræða eins og eignaskiptingu. Það gilda reyndar engar reglur eða lög um tilfinningar enda eru þær órökréttar á köflum.

Á dögunum ákvað ég að stíga það skref að hefja sambúð með manninum mínum. Það er alls ekki í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að auðvelt er að gera mistök í tölvunni. Í dag er hægt að gera nánast allt í gegnum netið nema skilja við maka sinn. Fólk getur víst ekki skilið nema panta tíma hjá sýslumanni og fólk þarf helst að mæta þangað saman. Þú getur hins vegar skráð þig í sambúð í gegnum netið. Á dögunum tók maðurinn það að sér að skrá okkur í sambúð. Í öllum asanum fletti hann upp Mörtu Maríu Jónasdóttur og var næstum því búinn að ýta á takkann til að samþykkja þegar hann áttaði sig á því að kennitalan passaði ekki við hans framtíðareiginkonu. Þá kom í ljós að hann var einu skrefi frá því að skrá sig í sambúð með ömmu minni og alnöfnu sem er að verða 90 ára. Eins og gefur að skilja hefur þetta verið uppspretta mikils gríns. Amma er náttúrlega mun betri kvenkostur en sú sem hér skrifar, en það er önnur saga.

Reyndar getur fólk ekki skráð sig í sambúð með hverjum sem er á netinu því hinn aðilinn þarf að samþykkja gjörninginn. Það er hins vegar hægt að gera alls konar á vef Þjóðskrár án teljandi vandræða eins og skipta um nafn eða skrá lögheimili sitt heima hjá greifum bæjarins. Það partítrix hefur verið notað áður og ratað í fréttir.

Ef þú ert að skipuleggja brúðkaup eða hyggst finna draumamakann þá eru fjölmargar góðar hugmyndir í Brúðkaupsblaðinu enda sýna sögurnar að allt getur gerst þegar ástin er annars vegar. Og ástin bankar upp á þegar við erum upptekin við að leita ekki að henni. Svo er ágætt að hafa það í huga að grasið vex ekki hraðar þótt togað sé í það og líka að grasið er yfirleitt ekki grænna hinum megin við lækinn. Því gleymum við stundum í amstri dagsins.