c

Pistlar:

14. september 2012 kl. 15:48

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

EFTA-dómstóllinn: Veikur dómstóll með stórt mál

EFTA-dómstóllinn tekur fyrir mál Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) gagnvart Íslandi á þriðjudaginn kemur, Icesave-málið svokallaða. Ekki er óeðlilegt að nokkur athygli beinist að dómstólnum sjálfum þar sem hann hefur ekki áður haft jafn þýðingarmikið mál gagnvart Íslandi. Sumir telja jafnvel að þetta sé stærsta mál sem fyrir EFTA-dómstóllinn hefur komið.

Vilja fjölga dómurum

Í dómnum sitja þrír dómarar og þykir mörgum sem það veiki hann. Í upphafi var dómstóllinn skipaður sjö dómurum en samhliða fækkun innan EFTA hefur dómurum fækkað, fyrst niður í fimm og síðar þrjá eins og hann er skipaður núna. Umræða hefur verið um að styrkja dómstólinn og fjölga dómurum á ný upp í fimm. Lagði dómstóllinn sjálfur fram tillögu um það fyrir ári síðan. Þá var óskað eftir heimild til að kalla til varadómara í stærri málum. Er ekki að efa að slík heimild hefði verið notuð í þessu máli ef hún væri fyrir hendi og það hefði aukið á trúverðugleika dómsins.

Það er ekkert leyndarmál að afstaða Norðmanna til dómstólsins veldur því að heimildin hefur ekki fengist. Um allangt skeið hefur norska stjórnsýslan og sérstaklega norska utanríkisráðuneytið haft horn í síðu EFTA-dómstóllsins. Þeir hafa dregið að svara þessum tillögum, meðal annars með vísun til þess að bíða þurfi eftir niðurstöðu í viðræðum Íslands og Evrópusambandsins. Það er því beðið eftir þeirri niðurstöðu á fleiri stöðum en hér. Innan dómstólsins sjálfs þykir þetta fyrirsláttur hjá Norðmönnum sem tengist því hvernig þeir skilgreina sig gagnvart EFTA-dómstólnum og ESA. Augljóst er að Norðmenn hafa engan sérstakan áhuga á þessum stofnunum. Að hluta til stafar það af því að þeir hafa ekki fengið forystusæti innan ESA um skeið en þeir hafa yfirleitt verið þar í forystu.

Ekki framkvæmt hæfnismat á dómurum

Í norskum fjölmiðlum hefur iðulega mátt lesa efasemdir um ESA og eftirlitsstofnunin gagnrýnd fyrir að mál dragist á langinn, hún sé máttlaus og jafnvel megi efast um gagnsemi hennar lengur. Norðmenn hafa séð EFTA-dómstólnum fyrir nægum fjármunum en sumum finnst skorta á að þeir sendi þangað sína bestu lögfræðinga. Norska stjórnsýslan hefur haft það viðhorf að allt eins megi leiða málefni til lykta fyrir dómstólum heima fyrir. Því hefur skipun norskra dómara hjá ESA tengst framgangsmáta innan norsku utanríkisþjónustunnar. Þá hafa Norðmenn staðið í vegi fyrir að hæfnismat verði framkvæmt á nýjum dómurum. Allt þetta veikir dómsstólinn.