c

Pistlar:

16. mars 2014 kl. 12:44

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Bylting að ofan

Það verður að játast að það var titill bókarinnar sem dró pistlaskrifara að verki Vilborgar Auðar Ísleifsdóttur; Bylting að ofan. Stjórnskipunarsaga 16. aldar. Bókin kom út á síðasta ári hjá Hinu íslenska bókmenntafélag og byggir á doktorsritgerð Auðar með síðari viðauka. Hér er um að ræða yfirgripsmikið verk sem fjallar í stuttu máli um siðaskiptin og þær breytingar sem áttu sér stað á háttum þjóðarinnar í kjölfar þeirra. Þar er fátt undanskilið; trúarlíf, stjórnmálalíf, félagslíf og ekki síst efnahagslegt ástand landsins á þessum umbrotatímum. Það sem vekur fyrst forvitni er sú augljósa staðreynd að siðaskiptin (siðbreytingin eins og sumir segja og þar á meðal Vilborg) náði yfir mun lengra tímabil en flestir ætla. Að öllum líkindum hafa flestir Íslendingar lært Íslandssögu sína þannig að siðaskiptin hafi raungerst þegar Jón biskup Arason og synir hans, Ari og Björn, voru hálshöggnir án dóms í Skálholti 7. nóvember 1550. Réttarfarslegur grundvöllur aftökunnar var óljós en studdist við úrskurð hins nýja konungsvalds sem á þessum tíma var að auka völd sín og áhrif. Ekkert þjónaði þeim tilgangi betur en að gera andstæðinganna að höfuðlausum her í orðsins fylgstu merkingu um leið og nýr siður tók við. Það þarf ekki að taka fram að verk Vilborgar setur Jón í skýrara samhengi við ástand mála en áður hefur mátt finna.

Jón hefur verið hugleikinn íslenskum söguriturum og í það minnsta tvö skáldsöguleg verk komið út um ævi hans. Hann er því fyrirferðamikil persóna í Íslandssögunni. Vilborg dregur skýrt fram pólitískt líf Jóns og líklega verða það að teljast nýjar heimildir að hann skyldi leita suður í Evrópu til að fá liðstyrk í baráttu við konungsvald sem með nýjan sið að vopni hugðist umbreyta stjórnskipun landsins. Jón átti 9 börn og 6 náðu fullorðinsaldri. Hefur stundum verið haft að orði að stór hluti Íslendinga sé af honum kominn og vissulega var veldi hans mikið þegar það reis hæst. Þess merkilegra er hve skjótan endir það fékk.

Það sem vekur athygli eins og áður sagði er hve langt tímabil hér um ræðir, bæði fyrir og eftir hin opinberu siðaskipti sem birtust með aftöku Jóns og sona hans og yfirtöku hins nýja siðar. Ekki er ósanngjarnt að segja að þessi siðaskipti hafi tekið að minnsta kosti 100 ár, eða allt frá því Martin Lúther (1483-1546) hóf opinberlega andstöðu sína við páfadóminn 1517 og fram á 17. öld. Rit Vilborgar takmarkast hins vegar við styttra tímabil eða frá 1537 til 1565. Hún telur að á þeim tíma hafi orðið sú pólitíska kerfisbreyting sem skipti sköpun til að festa í sessi grundvallarbreytingar á stjórnskipulegri stöðu Íslands, á skipulagi kirkjunnar og skipan stjórnsýslu og eigna og efnahagsmála. Síðastnefnda atriðið er vitaskuld gríðarlega mikilvægt því segja má að alger umbylting hafi orðið á eignarstöðu fólks hér á landi. Á þann hátt að land, sem var þá uppspretta alls auðs, skipti um hendur auk þess sem fyrirkomulagi verslunar og viðskipta var gjörbylt. Forræði mála fluttist úr landi og staða landsmanna versnaði heldur við það.

jón arason

Fimm sjónarhorn

Vilborg skiptir greiningu sinni í fimm hluta:

Í fyrsta lagi fjallar hún um þá stjórnskipunarbreytingu sem átti sér stað þegar pólitískt kerfi miðalda var fellt úr gildi og kirkjuskipan og stjórnsýsla hins nýskapaða danska nútímaríkis tók við.

Í öðru lagi fjallar hún um pólitískt kerfi miðalda og það stjórnmálaástand sem hér ríkti í lok þess tíma. Þar er sérstaklega horft til valds biskups og konungs, valdaskiptingu þar á milli og efnahagsumsvifa.

Þriðji hlutinn er helgaður sjálfri siðbreytingunni hér á landi og hvernig hún verður nánast að stjórnskipunarplaggi. Í þeirri greiningu leitast Vilborg við að sýna pólitíska ,,strúktúra" á þessum tímamótum, sem einkenndust af vanmætti innanlands og fjarlægu konungsvaldi.

Fjórði hlutinn fjallar um þróun mála norðan lands á 5. áratug 16. aldar. Þar er Jón Arason í sviðsljósinu og leitast Vilborg við að skýra pólitískar, efnahagslegar og hernaðarlegar aðgerðir hans, sem bjarga áttu pólitísku kerfi miðalda og tryggja endurreisn kaþólsks siðar í Skálholtsbiskupsdæmi.

Í fimmta hluta ritsins er lýst umbreytingum á embættum, stofnunum, og hinum margvíslegu þáttum samfélagsins, áhrifum þeirra og viðtökum. Einnig gerir hún efnahagsmál og veðurfar að umræðuefni en hvoru tveggja voru miklir áhrifavaldar í íslensku samfélagi á þessum tíma.

Áhugaverðar heimildir og nýjar

Augljóst er að Vilborg hefur gott vald á heimildum sínum og það er styrkur rannsókna hennar að hún nær að setja atburði hér á landi í samhengi við atburði erlendis. Það er nálgun sem við sjáum stöðugt meira af í íslenskum sagnfræðirannsóknum eins og birtist í nýrri Landbúnaðarsögu Íslands eftir þá Árna Daníel Júlíusson og Jónas Jónsson. Vilborg leitar víða fanga í erlendum heimildum og skipta þýskar heimildir miklu máli en Vilborg hefur verið búsett í Þýskalandi síðustu áratugi. Hún hefur augljóslega haft víðtækan aðgang að skjalasöfnum og víða birtast nýjar og áhugaverðar heimildir.

Það er reyndar athyglisvert að Vilborg sér sig knúna til að skrifa sérstakan viðauka við doktorsrit sitt vegna fornleifarannsókna sem hófust á Skriðuklaustri upp úr árinu 2000. Rannsóknir þær sem þar hafa átt sér stað hafa haft gríðarleg áhrif  á vitneskju okkar um starfsemi klaustranna hér á landi og þá um leið mikilvægi þeirra fyrir líf landsmanna. Rannsóknirnar eru ein áskorun enn um að landsmenn efli fornleifarannsóknir en óhætt er að segja að mikið verk sé þar óunnið. Fyrir siðaskipti voru níu klaustur hér á landi og margt bendir til þess að þau hafi skipt talsvert meira máli fyrir líf og efnahag landsmanna en áður var talið. Það sýna rannsóknirnar á Skriðuklaustri glöggt. Vilborg dregur fram sterk rök fyrir því að það hafi verið talsvert áfall fyrir íslensk samfélag að starfsemi klaustranna hætti. Í lokaorðum sínum segir Vilborg:

,,Fornleifauppgröfturinn á Skriðu gefur tilefni til þess að endurmeta viðtekin viðhorf og túlkun á stofnunum íslensks miðaldasamfélags. Ástæða er til að hugleiða, að hvaða marki miðaldakirkjan tók að sér hlutverk ríkisvaldsins, þegar áhrif norska konungsveldisins í íslensku samfélagi tók að dvína á 14. og 15. öld. Þá er og ástæða til að endurmeta þær margendurteknu staðhæfingar, að kaþólska kirkjan hafi vart haft annað brýnna markmið en gegndarlausa auðsöfnun og hafi með kanónískum lagakrókum svipt íslenska auðmenn þeirra tíma fjárhagslegu bolmagni til að láta að sér kveða til efnahagslegra og pólitískra umsvifa.

Af framan sögðu má með góðum rökum álykta, að íslenska miðaldakirkjan hafði að einhverju leyti gengt hlutverki ríkisins og að kirkjulegar stofnanir, svo sem klaustur, hafi í áður óþekktum mæli borið uppi fátækraframfærslu og aðhlynningu við sjúka og stuðlað þannig að dreifingu lífsgæða og fjármagns út í íslenskt samfélag."

Þetta eru athyglisverðar niðurstöður og knýja á um ákveðið endurmat á þróun íslensks samfélags á þessum tíma. Hafa verður í huga að nokkuð er um liðið síðan Vilborg varði doktorsritgerð sína og íslenskir sagnfræðingar hafa haft tækifæri til að bregðast við þessum niðurstöðum. Augljóst er að Vilborg telur að rannsóknirnar á Skriðuklaustri staðfesti hennar ályktanir. Víst er að Ísland gekk í gegnum margvíslegar efnahagslegar breytingar við siðaskiptin, breytingar sem að sumu leyti hafa ekki verið fullkannaðar. Byltingin að ofan, eins og Vilborg kýs að lýsa siðaskiptunum, skapaði margvíslega erfiðleika sem landsmenn þurftu að líða fyrir. Hvort það er nokkuð ólíkt því sem gerist þegar byltingin kemur að neðan, skal ósagt látið, en átök og byltingar skapa oft fleiri vandamál en þau leysa eins og kemur skýrt fram í þessu ágæta riti Vilborgar.

 

Vilborg Auður Ísleifsdóttir

Bylting að ofan - Stjórnskipunarsaga 16. aldar 

Hið íslenska bókmenntafélag

Reykjavík, 2013.

412 bls.