c

Pistlar:

8. apríl 2014 kl. 23:28

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Umræða um sjávarútveg

Lengst af virtust flestir landsmenn hafa sterk tengsl við sjávarútveginn, með þeim hætti að skilja út á hvað atvinnugreinin gekk og um leið mikilvægi hennar fyrir efnahag landsins. Meira að segja landkrabbar frá Selfossi, eins og sá er þetta ritar, fengu tækifæri til að spreyta sig í fiskvinnslu sumarlangt. Mikil vinna og uppgrip á þeim tíma hentuðu skólafólki vel. Að ekki sé horft fram hjá þeim forréttindum að fá að kynnast því fólki sem við sjávarútveg vinnur og deila kjörum með því um stund. Merkilegast af öllu var að komast á togara en því miður gafst pistlaskrifara aldrei tækifæri til þess. Allt var þetta þó barátta, erfið vinna og óvissa einkenndi greinina á þessum tíma, í lok áttunda áratugar síðustu aldar. Rekstrarskilyrðin í sjávarútvegi voru með þeim hætti að ríkisvaldið varð að grípa inní með reglubundnu millibili, oftast með gengisfellingum en stundum með sértækum aðgerðum. Það var ekki fyrr en með kvótakerfinu sem greinin varð sjálfbær. Hagræðingin sem fylgdi kvótakerfinu skapaði þann sjávarútveg sem við þekkjum hér á Íslandi í dag. Líklega er óhætt að fullyrða að hvergi sé sjávarútvegur rekinn með jafn hagkvæmum hætti.

sjavarútvegur

,,Miðborgarmeinloka"

En nú ber svo við að flestir virðast telja rekstrarstöðu sjávarútvegsins gefna staðreynd. Að allt sé þar með kyrrum kjörum í áhættulausum rekstri og sægreifarnir hafi þetta allt í hendi sér. Já, sægreifarnir, sem hafa leyst útvegsmennina eða útvegsbændur af hólmi. Óhætt er að fullyrða að fá orð hafa jafn mikið áróðursgildi eins og orðið sægreifi. Þegar sjávarútveginum var ekki lengur stýrt af útgerðarmönnum heldur sægreifum var áróðurstríðið tapað. Áróðursstríði, já er nokkuð annað hægt að kalla það þegar fastalið Austurvallar útvarpar linnulítið sömu ummælum eins og Páll Magnússon útvarpsstjóri gerði að umræðuefni í ágætri grein í Morgunblaðinu á laugardaginn.  

Páll fjallar um það sem hann kallar réttilega ,,miðborgarmeinloka" - að það séu bara „sægreifar" sem njóti arðsins af auðlindum í sjónum en ekki „íslensk alþýða". ,,Þessum málflutningi fylgja gjarnan þau hughrif, ef það er þá ekki sagt beinum orðum, að útgerðarmenn séu upp til hópa blóðugir arðræningjar og samtök þeirra skipulagður bófaflokkur. Fyrir þann sem er alinn upp í námunda við allskonar útgerð og útgerðarmenn er þetta ótrúlega alhæfingasamur og yfirborðslegur málflutningur," segir Páll í grein sinni. Til að skýra málið lætur Páll fylgja með dæmisögu af fjölskylduútgerð í Vestmannaeyjum sem er hans heimabyggð. Viðbrögðin við skrifum Páls vekja að sjálfsögðu undrun en koma ekki á óvart. Svo virðist sem hann hafi þarna farið út fyrir hina ,,lögmætu" umræðuhefð sem búið er að skammta sjávarútveginum hér á landi. Að hann hafi ánetjast ,,brauðmolahagfræði" eða eitthvað þaðan af verra. Hvernig má það vera að jafn augljós sannindi eins og það þegar bent er á verðmætasköpun í sjávarútvegi skuli kveikja slík viðbrögð?

Markaðsdrifin matvælaframleiðsla

Lítum aðeins á rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Það sem skiptir mestu, fyrir utan sjálft fiskveiðistjórnunarkerfið, er það öfluga markaðsstarf sem íslenskur sjávarútvegur stundar. Það starf byggir á gæðum þar sem varan, vinnslan og afhendingaröryggi eru grundvallaratriði. Að afhenda vöruna í samræmi við síbreytilegar þarfir neytenda skapar verðmæti í íslenskum sjávarútvegi. Það var því upplýsandi að hlusta á ræðu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra og stofnanda Samherja, á síðasta ársfundi Samtaka atvinnulífsins en hann fór fram í síðustu viku. Þorsteinn minnti rækilega á að samkeppni í framleiðslu matvæla úr sjó er gríðarlega hörð og lögmálin eru allt önnur en Austurvöllur telur.

Samherji er í dag alþjóðlegt matvælaframleiðslufyrirtæki sem lítur allt öðrum lögmálum en útgerðarfyrirtæki fyrri tíma. Starfsemi fyrirtækisins nær yfir mörg lönd og hlutverk félagsins er að markaðssetja, selja og dreifa matvælum af bestu gerð sem víðast, allt eftir því sem lögmál markaðarins segja. Fyrir slíkt fyrirtæki skiptir stöðugleiki mestu, hvort sem það er á framleiðsluhliðinni, í sölu eða þeim hluta rekstrarins sem fellur undir ríkið, svo sem skattar, gjöld og fjármagnsumhverfi. Samherji þarf á hverjum degi að standa skil á ótal viðskiptasamningum og þar eins og annars staðar þarf að gjalda óvissu dýru verði. Ef ekki er hægt að afhenda þá vöru sem búið er að lofa á réttum tíma lækkar verðið. Um leið er samkeppnin við önnur lönd, aðrar fiskitegundir og aðrar matvörur stöðugt að harðna. Samgöngur í matvælaframleiðslu þróast og breytast hratt. Sá kostnaður verður íslenskum framleiðendum ávallt mótdrægur. Þrátt fyrir það hefur fyrirkomulag fiskveiða gert Íslendinga fremsta í heiminum á sviði sjávarútvegs, með markaðsdrifna virðiskeðju og verðmætasköpun sem engin önnur atvinnugrein á Íslandi keppir við.

Skilningsleysið á markaðslögmálum sjávarútvegsins er útbreytt. Þorsteinn Már var harðorður í garð lífeyrissjóða á ársfundinum. Hann benti á að alþjóðleg stórfyrirtæki í sjávarútvegi ættu öll sín vörumerki sem þau stæðu vörð um enda vissu þau að þar væri fjárfestingin. Íslendingar hefðu einnig átt gott vörumerki í sjávarútvegi sem hefði verið Icelandic en það hafi verið selt og gagnrýndi Þorsteinn i lífeyrissjóðina harðlega fyrir söluna á vörumerkinu en hafa verður í huga að Icelandic var eigu Framtakssjóðs Íslands, sem er í eigu lífeyrissjóðanna. Þorsteinn Már líkti þessu við sölu á Icelandair, öðru þekktu vörumerki, en líklega teldu flesir fráleitt að selja það úr landi.

Auðlindadrifin umræða

Það er hægt að fullyrða að íslenskur sjávarútvegur í dag sé fyrst og fremst markaðsdrifinn á meðan hann er enn auðlindadrifinn í mörgum löndum. Umræðan um sjávarútveg hér á landi byggist hins vegar á að auðlindin skipti öllu og því með réttu hægt að segja að það sé auðlindadrifin umræða með slagorðakenndu ívafi. Það gerir rekstrarskilyrði erfið ef stór hluti landsmanna lítur svo á að greinin sé fyrst og fremst skattandlag, ofurhagnaður greinarinnar kalli á ofurskattlagningu. Vitaskuld er það ekki svo, greinin berst við það eins og aðrar greinar að fá arðsemi á fjárfestinguna.


Óhjákvæmilegur fylgifiskur þessarar umræðu er sá að greinin fær ekki að þróast með eðlilegum hætti. Á meðan margir hafa talað fyrir því að auka verðmætasköpun sjávarfangs umtalsvert og setja þannig nýjar stoðir undir efnahag landsins virðast aðrir telja að sjávarútvegurinn eigi ekki að fá að þróast þannig, þess í stað beri honum að greiða auðlindaskatt af áður óþekktri stærðargráðu auk annarra skatta sem sjávarútvegurinn greiðir eins og önnur fyrirtæki í landinu. Þeir sem tala fyrir slíku verða að koma með sterkari rök fyrir máli sínu en við höfum séð til þessa.