c

Pistlar:

8. september 2014 kl. 22:10

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Samkeppni og hæfni þjóða

Það er tvennt sem þarf að hafa í huga þegar samkeppnishæfni Íslands er metin. Hvoru tveggja þættir sem landsmenn geta lítið gert við. Annars vegar staðsetning landsins sem gerir flutnings- og samskiptakostnað alltaf dýrari. Hins vegar fámenni þjóðarinnar í til þess að gera stóru landi. Þar af leiðandi verður alltaf kostnaðarsamara að bjóða upp á sambærileg lífsskilyrði og í þéttbýlli löndum. Um þessi atriði verður tæpast deilt og þátttaka í ríkjasamböndum breytir þar engu um; landið verður áfram einangrað og fámennt. Á móti koma væntanlega ýmis önnur verðmæti sem margir kunna að meta, svo sem sterk tengsl við náttúruna, samkennd fámennrar þjóðar, víðerni og hreint og ómengað umhverfi.

Fyrir stuttu kom skýrsla frá World Economic Forum (WEF) um samkeppnishæfni þjóða. Þetta er önnur skýrslan á þessu ári um þetta efni og hefur Ísland verið þátttakandi í báðum skýrslunum. Í skýrslu WEF var Ísland í 30.sæti og hafði hækkað sig um eitt sæti frá fyrra ári. Í skýrslu svissneska viðskiptaháskólans IMD var Ísland í 25. sæti og hafði hækkað sig um 4. sæti. Greint var frá niðurstöðu hennar í vor.

samkepp

Hlutlægir og huglægir mælikvarðar

Aðferðarfræði þessara kannana er talsvert ólík. Könnun IMD er gerð í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands. Þar vigta hagtölur (absolut tölur) 2/3 og könnun um 1/3. Semsagt hlutlægir mælikvarðar annars vegar og huglægir hins vegar. Þessu er öfugt farið í könnun WEF, sem er gerð í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands, sem meðal annars aðstoðar við gagnaöflun. Hjá WEF vigta hagtölur um 1/3 og könnun um 2/3. Huglægi þátturinn hefur þar mun meira vægi.

Haft var samband við 85 stjórnendur hjá WEF en eins og áður sagði vigta ummæli þeirra 2/3 í könnuninni. IMD talar við 60 þátttakendur. WEF leggur þar af leiðandi mikið upp úr samtalshlutanum og hefur látið Gallup gera úttekt á gæðum hans.

Hjá WEF eru 113 liðir skoðaðir og 334 hjá IMD. Þar af leiðir að IMD er með mun fleiri breytur þó meira sé treyst á hagtölur eins og áður var rakið. Einnig eru gögn sótt með ólíkum hætti. WEF notast við alþjóðleg gögn, frá Eurostat og AGS en IMD sækir gögn beint frá Hagstofunni.

Þá er vigtun undirþátta ólík. Hjá IMD eru 4 meginþættir vigtaðir eins en WEF er með 3 þætti sem vigta mismunandi. Eins og áður sagði þá er samkeppnishæfni metin með tvenns konar aðferðum; annars vegar með hlutlægum mælikvörðum sem auðvelt er að reikna út og hins vegar með huglægum spurningum sem lagðar eru fyrir stjórnendur fyrirtækja.

Það er mjög athygli vert að Ísland kemur hlutfallslega mun verr út úr þeim þáttum sem rekja má til huglægra svara stjórnenda en þeim áþreifanlegu. Ísland skrapar botninn í mörgum þessara mælikvarða þar sem stjórnendur í löndunum 60 gefa sínu landi einkunn svo vitnað sé til könnunar IMD. Margt er kúnstugt í þessum svörum stjórnenda, svo sem að gagnsæi í stjórnsýslu sé meira í kínverska alþýðulýðveldinu en á Íslandi! Gera má ráð fyrir að þessi sjónarmið stjórnenda vigti enn þyngra í könnun WEF eða hve alvarlega taka menn niðurstöðu um að bankakerfið hér sé lakara en í Afríku?

Af þessu má draga tvær ályktanir, fyrir utan þá augljósu að taka verði slíkum rannsóknum með fyrirvara. Önnur er sú að áfallið sem þjóðin varð fyrir í kjölfar bankahrunsins breytti ofmati á stöðu fjármálageirans fyrir krísuna í almennt vanmat á stöðu Íslands eftir krísuna. Við fórum frá því að vera með eitt frjálsasta fjármálakerfi heims yfir í að búa við fjármagnshöft. Í staðinn fyrir að allt væri frábært varð allt hræðilegt! Þekkjum við það ekki öll af umræðunni eftir hrun? Hitt er að allt frá efnahagshruninu hefur markvisst verið unnið að því að tala land og þjóð niður. Slíkt er síður gert í útlöndum en virðist orðið að samkvæmisleik hér heima. Sjálfstæði þjóðarinnar sé marklítið og okkur sé best borgið undir annarra stjórn. Ósjálfstæðisbaráttan hefur fengið byr undir báða vængi.

Öngstræti umræðunnar

Leiðarahöfundur Fréttablaðsins síðasta föstudag túlkaði niðurstöðu WEF sem svo að Ísland sé þriðja heims ríki. Þegar listinn yfir samkeppnishæfni er skoðaður sést að 148 þjóðir eru metnar. Ef þjóðin í 30. sæti er þriðja heims ríki - má þá ekki ætla með sömu rökum að 80% þjóða heims séu þriðja heims ríki? Er Ísland kannski efst þriðja heims þjóða á listanum? Eða eru kannski aðrar þriðja heims þjóðir fyrir ofan Ísland á listanum?

Öllum könnunum af þessu tagi ber að taka með varúð, hvort sem Ísland skorar vel eða illa. Það er ekkert að því að því að vinna með samanburð af þessu tagi og reyna að meta hvar skóinn kreppir og hvar er verið að gera vel. Uppleggið hjá leiðarahöfundi var hins vegar ekki með öllu heiðarlegt gagnvart niðurstöðu könnunarinnar og gefur villandi mynd af því sem verið var að skoða. Þá er augljóst að lítil tilraun er gerð til að meta aðferðafræði að baki og í leit að upplýstri umræðu er leiðarinn öngstræti.

Viðfangsefnin framundan

 

Ég ætla í lokin að varpa fram fimm stærstu viðfangsefnum Íslands, en úrlausn þeirra mun ráða miklu um útkomuna að ári liðnu. Menn geta svo metið hve óyfirstíganleg þau eru.

1. Flýta afnámi hafta

2. Styðja við efnahagslegan stöðugleika með aukinni samfélagslegri sátt

3. Greiða fyrir bæði innlendri og erlendri fjárfestingu

4. Draga úr opinberum skuldum með rekstrarumbótum

5. Opna fyrir alþjóðaviðskipti til að auka framleiðni í innlendum atvinnugreinum  

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.