c

Pistlar:

6. apríl 2015 kl. 15:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Kýpur afléttir höftum

Stjórn­völd á Kýp­ur hafa aflétt öll­um gjald­eyr­is­höft­um sem sett voru í land­inu í fjár­málakrepp­unni sem dundi yfir landið í upphafi árs 2013. Þá var bönkum á Kýpur lokað í einni svipan og greiðslukerfi landsins lamaðist í framhaldinu. Eðlilega er þetta tengt við ástandið hér á landi en hafa verður í huga að aldrei gerðist neitt slíkt hér enda tókst að halda greiðslukerfinu landsins opnu þannig að almenningur hafði aðgang að fjármunum sínum á öllum stundum. Íslensk kreditkort voru meira að segja nothæf erlendis þó varla hafi verið ráðlegt að nota þau nema í neyð.

Bankarnir á Kýpur opnuðu hins vegar ekki aftur fyrir en að nokkrum vikum liðnum og þá voru öryggisverðir settir við öll útibú til að koma í veg fyrir óeirðir en ástandið var mjög eldfimt. Fólk fékk aðeins að taka út lágmarksupphæðir (300 evrur) sem miðuðust við framfærslu fólks. Fyrstu vikurnar var því mjög lamandi ástand á Kýpur. Um leið unnu Evrópusambandið  og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn að því að finna lausn málinu í samvinnu við innlend stjórnvöld. Að lokum var samþykkt að lána Kýpurbúum 10 milljarða evra og bankakerfið var endurskipulagt. Vonir stóðu til þess að greiðsluhaftaástandið myndi standa stutt á Kýpur, í fyrstu var talað um viku, svo mánuð og að lokum mánuði. Fyrstu áætlanir AGS gengu út á að aflétta þeim í byrjun árs 2014. Það gekk ekki eftir en nú er vonandi komin hreyfing á hlutina, ríflega tveimur árum eftir að höftin voru sett á. Greiðsluhöftunum var aflétt að hluta í janú­ar. Í upphafi var sett þak á milli­færsl­ur íbúa lands­ins á út­lenda banka­stofn­an­ir upp á 20 þúsund evr­ur á mánuði og 10 þúsund evra þak á það fjár­magn sem ferðamenn mega taka með sér út úr landi.

Þar sem við Íslendingar erum nú að fást við að aflétta okkar höftum er eðlilegt að menn skoði hlutina í samhengi. Kýp­ur er eina evru­ríkið sem kom á gjald­eyr­is­höft­um vegna fjár­málakrepp­unn­ar en höft­in voru eins og áður sagði sett til þess að forða áhlaupi á banka lands­ins. Segja má að ástandið hafi skapast vegna þess að Kýpurbúar upplifðu bankahrun eftir að hafa leyft bankakerfinu að vaxa úr hömlu.kypur

Höft ekki sama og höft

Það er eðlilegt að Íslendingar horfi til atburðarásarinnar á Kýpur en hér hafa gjald­eyr­is­höft verið form­lega við lýði frá því í nóv­em­ber 2008. Þó er ólíku saman að jafna, þar var um að ræða bankakreppu, á Íslandi er verið að glíma við að tryggja fjármálastöðugleika. Í venjulegu tali er talað um gjaldeyrishöft eða fjármagnshöft (e. capital controls) en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn skilgreinir ástandið með ólíkum hætti og heldur nákvæmar.  Hér á landi er talað um fjármagnshöft (e. capital controls) en á Kýpur hefur verið talað um greiðsluhöft (e. payment restrictions) sem ná til greiðslur innanlands sem utan.  Hugsanlega er réttast að tala um gjaldmiðilshöft fremur en gjaldeyrishöft þegar ástandinu á Kýpur er líst. Það kemur til af því að það var einfaldlega bannað að taka gjaldmiðilinn (evru) út til nota innanlands.

Kýp­ur fékk eins og áður sagði 10 millj­arða evra lán frá Evr­ópu­sam­band­inu og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum eft­ir að stærstu bank­ar lands­ins fóru nán­ast í þrot í mars 2013. Helsta skýr­ing­in á bágri stöðu bank­anna voru fjár­fest­ing­ar þeirra í Grikklandi, bæði í einkageiranum en ekki síður í grískum ríkisskuldabréfum sem í mörgum tilfellum reyndust skelfilegar fjárfestingar. Því til viðbótar var erlent eignarhald að skapaði vandamál en Rússar höfðu komist til mikilla ítaka í kýpverska bankakerfinu og áttu að stórum hluta ein stærsta banka landsins sem hrundi með þeim afleiðingum að hluthafar töpuðu sínu. Afdrif Laiki Bank voru þau að honum var skipt í tvennt, góðan og vondan banka í mars 2013. Góði bankinn og innlán undir 100.000 evrum runnu inn í Kýpurbanka (Bank of Cyprus) og hefur hann notið stuðnings stjórnvalda. Þeir sem áttu innlán yfir 100.000 evrur hafa orðið að treysta á uppgjörið á vonda bankanum til að fá fé sitt til baka.

Á meðan á þessu ástandi hefur varað hefur samdráttur í landsframleiðslu orðið verulegur og atvinnuleysi var farið að nálgast 20% á tímabili. Nú vonast menn til þess að efnahagur Kýpur sé að taka við sér aftur en við Íslendingar hljótum að fylgjast spenntir með því hvernig til tekst með losun haftanna.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.