c

Pistlar:

12. febrúar 2017 kl. 21:32

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Aukið öryggi sjómanna

Fyrirferðamikill forstjóri sagði í Vikulokunum í Ríkisútvarpinu í gær að sjómenn ættu að fá hærra kaup vegna þess hve margir sjómenn hefðu farist við Íslandsstrendur í gegnum tíðina. Það er einkennileg röksemd. Nær væri að segja að öryggi sjómanna ætti að vera á oddinum vegna þess hve margir sjómenn hafa slasast eða beðið bana í gegnum tíðina. Sem betur fer hefur þar orðið mikil breyting eins og rakið hefur verið hér áður en árið 2008 urðu þau merku tímamót að í fyrsta skipti drukknaði engin sjómaður á íslensku fiskiskipi.sjos2

Í lok síðustu aldar voru 25% allra slysa á Íslandi vegna slysa á sjómönnum, enda þótt þeir væru aðeins um 5% þeirra sem störfuðu á íslenskum vinnumarkaði. Nánast öll banaslys og mikill meirihluti annarra slysa áttu sér þá stað á fiskiskipum. Þarna var mikið verk að vinna og því  einstaklega ánægjulegt að sjá í gögnum frá Sjúkratryggingum Íslands að almennt virðist slysum um borð í skipum fara fækkandi á Íslandi. Samkvæmt gögnum frá árunum 1987 til 2015 voru fæst vinnuslys sjómanna tilkynnt á árinu 2014, 201 talsins, og næstfæst á árinu 2015 en þá voru þau 219. Á heimasíðu Síldarvinnslunnar á Neskaupsstað má sjá upplýsingar um að á uppsjávarskipinu glæsilega, Beiti NK, hefur ekkert vinnuslys orðið þrjú síðastliðin ár. Augljóst er að sjávarútvegurinn hefur gert stórátak í þessum málum.

Sjálfsagt eru nokkrar skýringar á þessu en engum blöðum er um það að fletta að kvótakerfið gerði það að verkum að útgerðum var kleyft að stýra sókn sinni miklu betur og þörfin fyrir að sækja sjóinn í hvaða veðri sem er hvarf. Um leið stækkuðu skipin og sérhæfing sjómanna jókst. Nýliðum fækkaði, sjómennskan varð smám saman að meira fagi þar sem hver og einn um borð hafði skilning og þekkingu á sínu starfi og þeim hættum sem því fylgdi. Um leið og skipin bötnuðu voru öryggismálin tekin fastari tökum. Slysavarnaskóli sjómanna, sem stofnaður var árið 1985, hefur gengt stóru hlutverki við að bæta þekkingu sjómanna.

Slysarannsóknir efldar

Árið 2013 voru samþykkt lög um rannsókn samgönguslysa. Með lögunum er starfsemi Rannsóknarnefndar flugslysa, Rannsóknarnefndar sjóslysa og Rannsóknarnefndar umferðarslysa sameinuð í eina rannsóknarnefnd. Markmið laganna var að fækka slysum og auka öryggi í samgöngum með því að efla og bæta slysarannsóknir. Rannsókn samkvæmt lögunum skal eingöngu miða að því að leiða í ljós orsakir samgönguslysa og samgönguatvika, en ekki að skipta sök eða ábyrgð, með það að markmiði að draga úr hættu á sams konar slysum og atvikum og afleiðingum sambærilegra slysa segir í fyrstu grein laganna.

Nú liggur fyrir skýrsla vegna síðasta árs. Þar kemur fram að skráðum málum fækkar á milli áranna 2015-2016 um 19% og er árið 2016 um 31% undir meðaltali áranna frá 2006 til 2015. Fækkun er í öllum málaflokkum að meðaltali að banaslysum undanskyldum sem voru tvö á árinu og eru því miður það sem upp úr stendur. Eigi að síður voru skráð slys á fólki á árinu 2016 um 8% undir meðaltali áranna á undan og ber að fagna því.

Vinnuslysum fjölgar

Þróunin til sjós er á skjön við það sem er í landi því á sama tíma berast upplýsingar um að vinnuslysum hafi fjölgað jafnt og stöðugt frá árinu 2010 og er tíðni þeirra meiri nú heldur en í síðustu uppsveiflu. Árið 2015 barst Vinnueftirlitinu metfjöldi tilkynninga um vinnuslys eða yfir 2.000 tilkynningar, borið saman við 1.926 árið 2007. Sé litið til Slysaskrár Íslands er tíðnin meiri. Á milli 2011 og 2015 bárust heilbrigðisstofnunum að meðaltali 5.400 vinnuslysamál á ári. Það svarar til um 15 vinnuslysa á dag sem er auðvitað áhyggjuefni þó þetta sé einnig til marks um að umsvif í þjóðfélaginu hafi aukist mikið.

En augljóslega eru mörg fyrirtæki að gera betur. Í umfjöllun á heimasíðu Síldarvinnslunnar má lesa að á undanförnu hefur verið lögð mjög aukin áhersla á öryggismál og er árangurinn greinilegur á öllum starfsstöðvum fyrirtækisins. Í ársbyrjun 2016 var ráðinn öryggisstjóri og samkvæmt nýrri starfsmannastefnu fyrirtækisins, sem tók að fullu gildi um nýliðin áramót, verða öryggisnefndir starfandi á hverri starfsstöð og öryggisráð mun síðan hafa yfirumsjón með öryggismálunum og framkvæmd þeirrar öryggisstefnu sem mótuð hefur verið. Öryggisstjóri mun starfa með öryggisráðinu og verða öryggisnefndunum til halds og trausts. Auðvitað bera yfirmenn hverrar starfsstöðvar mikla ábyrgð í þessum efnum en einnig verður lagt allt kapp á að kynna öryggisreglur fyrir starfsmönnum og þar er nýliðafræðsla einkar mikilvæg.

Með því að gefa öryggismálunum aukinn gaum hefur tekist að fækka slysum til mikilla muna og að sjálfsögðu er stefnt að því að árið 2017 verði slysalaust ár á starfsstöðvunum. Þetta eru metnaðarfull markmið hjá Síldarvinnslunni en í landvinnslunni (fiskiðjuveri og fiskimjölsverksmiðjum) hefur þróun slysatíðni verið í mjög rétta átt. Árið 2012 voru 18 vinnuslys á þessum starfsstöðvum, þau voru 13 á árinu 2014 en einungis 5 á árinu 2016. Sama er að segja um þróunina hjá skipum fyrirtækisins. Á árinu 2012 voru 4 vinnuslys á skipunum, þau voru 7 á árinu 2014 en einungis 3 á síðasta ári. Athygli vekur að mörg slysanna hafa átt sér stað þegar verið er að binda skipin eða þegar þau liggja í höfn.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.