c

Pistlar:

20. febrúar 2017 kl. 17:07

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hagvöxtur á Íslandi i hæstu hæðum

Hagstofa Íslands greinir frá því í nýrri og endurskoðaðri þjóðhagsspá sinni að landsframleiðsla á Íslandi hafi aukist um 5,9% á árinu 2016. Er það umtalsvert meiri vöxtur en stofnunin gerði ráð fyrir í spá sinni í nóvember síðastliðnum. Þá var gert ráð fyrir að landsframleiðslan myndi aukast um 4,8% yfir árið. Tölurnar sem útreikningar Hagstofunnar byggjast á ná til þriðja ársfjórðungs 2016. Í ljósi reynslunnar má jafnvel leyfa sér að ætla að hagvöxtur síðasta árs reynist enn meiri þegar upp verður staðið. Varðandi spá fyrir nýhafið ár verður að hafa í huga að þar er ekki tekið tillit til nýs loðnukvóta.

Það kemur ekki á óvart að óvíða finnst annar eins hagvöxtur og er nú á Íslandi. Samkvæmt spá OECD frá því í nóvember var gert ráð fyrir að hagvöxtur á heimsvísu yrði 2,9% árið 2016. Innan OECD var spáð 1,7% hagvexti, sama hagvexti og spáð var innan evrusvæðisins og í Þýskalandi. Í Bandaríkjunum var spáð 1,5% hagvexti og 2% í Bretlandi. OECD segir heiminn vera fastan í litlum hagvexti (low-growth trap).

Aðrar hagtölur jákvæðar

En það er ekki nóg með að hagvöxtur sé óvenju mikill hér á Íslandi. Aðrar hagtölur eru einnig jákvæðar. Verðbólga er áfram undir verðbólguviðmiði Seðlabankans og hefur ekki verið það svo lengi samfellt áður. Atvinnuleysi mælist vart og störfum fjölgaði um 12 þúsund milli ára. Kaupmáttur eykst jafnt og stöðugt og ekki síst kaupmáttur í erlendri mynt þar sem krónan hefur styrkst mikið undanfarið. Í janú­ar nam er­lend greiðslu­korta­velta 17 millj­örðum króna sam­an­borið við 12 millj­arða í sama mánuði í fyrra. Um er að ræða tæp­lega helm­ings­aukn­ingu.hagvöxtur

En víkjum aftur að hagvextinum en ágæt umfjöllun var um þetta í laugardagsblaði Morgunblaðsins, þaðan sem meðfylgjandi graf kemur. „Mikil umsvif eru í íslenskum þjóðarbúskap um þessar mundir en neysla, fjárfesting og utanríkisverslun hafa verið í örum vexti undanfarin misseri,“ segir meðal annars í samantekt yfir hina endurskoðuðu spá. Fjárfesting í hagkerfinu er talin hafa vaxið um 22,7%, einni prósentu meira en gert var ráð fyrir í nóvember. Hins vegar er nú talið að einkaneysla hafi aukist um slétt 7% eða 0,1 prósentustigi minna en talið var undir lok síðasta árs. Þá er talið að útflutningur hafi aukist um 9,5% frá árinu 2015 en fyrri spá gerði hins vegar ráð fyrir að vöxturinn á því sviði hefði numið 7,5%. Á hann fyrst og fremst rætur að rekja til mikilla aukinna umsvifa í þjónustuútflutningi.

Nú gerir Hagstofan ráð fyrir því að hagvöxtur á yfirstandandi ári verði 4,3% en í nóvember hljóðaði spáin upp á 4,4%. Það yrði þá sjöunda hagvaxtarárið í röð. Á árunum 2018 til 2022 telur stofnunin að landsframleiðslan muni vaxa á bilinu 2,5-3% á ári hverju. „Í þjóðhagsspá er reiknað með að hagvöxtur í viðskiptaríkjum Íslands verði að jafnaði um 1,8% í ár og um 1,9% árið 2018 og á svipuðu reiki út spátímann,“ segir í tilkynningu frá stofnuninni. Er þar auk þess bent á að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi uppfært spá sína í janúar og það sé spáð svipuðum hagvexti í heiminum og áður. Þó telur sjóðurinn að hagvöxtur í þróuðum ríkjum verði helst til meiri en áður var spáð en spáin hefur hins vegar verið lækkuð nokkuð fyrir nokkur nýmarkaðsríki.  

Minni vöxtur útflutnings

Hagstofan gerir ráð fyrir því að útflutningur muni á þessu ári aukast um 5,4%, samanborið við 9,5% í fyrra. Verður hann sem fyrr drifinn áfram af auknum umsvifum í ferðaþjónustu. Á móti mun vega samdráttur í útflutningi sjávarafurða. Gefur stofnunin sem skýringu að minni loðnukvóti hafi nú verið gefinn út en þar virðist ekki tillit tekið til nýrrar ákvörðunar sjávarútvegsráðherra um úthlutun heildarafla íslenskra skipa upp á tæp 200 þúsund tonn, sem er nærri tvöfalt meira en í fyrra og gæti gefið 17 til 20 milljarða í útflutningsverðmæti en vertíðin fer vel af stað. Árin 2018-2019 gerir Hagstofan ráð fyrir rúmlega 4% vexti útflutnings.

Kraftur í innflutningi

Í ár er gert ráð fyrir því að innflutningur muni vaxa um 9,9%. Þá er gert ráð fyrir að innflutningur skipa og flugvéla verði meiri á árinu en gert var ráð fyrir í spá stofnunarinnar í nóvember. Þá er gert ráð fyrir að afgangur vöru og þjónustu verði 4,1% af vergri landsframleiðslu og er það meiri afgangur en gert var ráð fyrir í fyrrnefndri haustspá. Má breytinguna helst rekja til batnandi viðskiptakjara og meiri útflutnings.

Þá er gert ráð fyrir að afgangurinn verði tæplega 4-5% af vergri landsframleiðslu á spátímanum til 2022 og að viðskiptajöfnuður muni verða jákvæður um 2,7-3,6% af vergri landsframleiðslu.


Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.