c

Pistlar:

19. mars 2024 kl. 16:14

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Vitundarherferð og staðreyndir máls

Í dag hrinti stjórn Blaðamannafélags Íslands „vitundarherferð“ félagsins úr vör. Markmið hennar er að vekja fólk til vitundar um mikilvægi blaðamennsku fyrir samfélagið eða eins og segir í kynningu vegna þessa: „Blaðamenn draga saman upplýsingar, setja hlutina í samhengi og greiða úr óreiðunni. Þeir koma á framfæri ólíkum sjónarmiðum, setja fram staðreyndir og kanna sannleiksgildi þess sem sagt er.“ Það er stórt orð Hákot og stundum er sagt að ef lygi er sögð nógu oft verði hún að staðreynd.gaza Skoðum hvað við er að eiga. 

Svo vill til að sama dag vakti Morgunblaðið athygli á þeim tölulegu staðreyndum sem eru bornar á borð okkar á hverjum degi af átökunum fyrir botni Miðjarðarhafsins. Tölurnar kallar Andrés Magnússon, blaðamaður Morgunblaðsins, réttilega tölur dauðans á Gaza. Til þessa hafa heilbrigðisyfirvöld Hamas hryðjuverkasamtakanna á Gaza verið borin fyrir öllum tölum um fallna frá svæðinu og alþjóðlegar stofnanir notast við þær. Þessi „heilbrigðisyfirvöld“ virðast vera stjórnvaldið sem tekur saman tölfræðina nánast í rauntíma. Í upphafi átakanna voru nokkrar efasemdir um áreiðanleika þessara talna frá Hamas eins og var vikið að hér í pistli en þær efasemdaraddir hafa verið þaggaðar niður og nú virðast í það minnsta íslenskir fjölmiðlar birta þessar tölur undanbragðalaust. Skiptir litlu að tölfræðingar hafi frá upphafi haft sínar efasemdir eins og hefur meðal annars mátt sjá í greinum í læknaritinu Lancet.

Segir tölur Hamas ekki standast

Hugsanlega finnst mörgum ekki viðeigandi að draga þessar tölur dauðans í efa og má vera að einhverjir óttist að efasemdir dragi úr líkum á að þessum skelfilega ófriði ljúki. Lancet hefur verið mjög varfærið í öllum sínum ályktunum en það sama verður ekki sagt um Abraham J. Wyner, tölfræðiprófessor við Pennsylvaníuháskóla, en fyrri viku birtist grein í bandaríska tímaritinu The Tablet eftir hann. Prófessorinn rannsakaði þessa óhugnanlegu tölfræði og komst að þeirri niðurstöðu að hún gæti ómögulega verið rétt eins og rakið er ágætlega í Morgunblaðinu í dag.gaza1

Wyner bendir á að tölfræðin sjálf sýni að tölurnar geti ekki verið sannar og að baki þeim sé einhver aðferðafræði ótengd raunveruleikanum. Þannig sé áberandi hvernig heildarfjöldinn jókst nær fullkomlega línulega hvern einasta dag, sem sé einstaklega ólíklegt. Þvert á móti mætti búast við verulegum dagsveiflum. Hér verður ekki rakið í smáatriðum röksemdir Wyners en bent á grein Morgunblaðsins og grein hans má finna hér. Stutt leit með aðstoð Google sýnir að stærri miðlar, væntanlega þeir sem Blaðamannafélag Íslands var að vísa til og eiga að greiða úr óreiðunni, hafa ekki fjallað um skýrslu Wyner ennþá, hvað sem síðar verður. Morgunblaðið er fyrst innlendra miðla til að vekja athygli á henni og verður forvitnilegt að sjá hvaða tökum aðrir íslenskir miðlar taka á þessu máli. Það þarf ekki að taka fram að ísraelskir miðlar hafa vakið rækilega athygli á henni enda mikið áróðurstríð báðum megin víglínunnar.

Deyja Hamas-liðar líka?

Eitt það sem hlýtur að hafa vakið athygli frá upphafi, að í tölum heilbrigðisyfirvalda Hamas hefur aldrei komið fram hvort einhverjir Hamas-liðar deyja líka en að þeim hefur aðgerðum Ísraelshers einkum verið beint. Áætlanir um styrk Hamas eru vandasamar segir í úttekt hins ástralska Financial Review frá 14. mars síðastliðnum. Þeir vitna í mat ísraelsku leyniþjónustunnar um að meira en 18 af 24 herfylkingum Hamas hafi verið leystar upp sem skipulagðar bardagasveitir og um helmingur af 40.000 bardagamönnum þeirra hefur annað hvort verið drepinn eða særðir. Virkir bardagamenn Hamas eru nú einungis í litlum skærusveitum sem séu ekki mjög öflugar en geti komið fram til að skjóta eldflaugum og nota handsprengjur eða koma fyrir sprengibúnaði. Hamas hefur hins vegar sagt að þeir hafi aðeins misst 6.000 bardagamenn þó þess sjái ekki stað í sundurliðun fallinna.gaza3

Hver sem fjöldi þeirra er, sjá bandarískir leyniþjónustumenn fyrir að Hamas geti haldið áfram „langvarandi vopnaðri andspyrnu um ókomin ár“, með því að nota neðanjarðar jarðganganet sitt til að „fela, endurheimta styrk og koma ísraelskum hersveitum á óvart“. „Er Hamas enn til hernaðarlega? Já,“ sagði háttsettur embættismaður í ísraelska hernum. „Er það skipulagt? Nei. Við munum halda áfram að taka þau algjörlega í sundur,“ segir í úttekt Financial Review.

Það háa hlutfall barna og kvenna sem birtist í tölum Hamas hefur skiljanlega gengið fram af flestum, en það hefði líka átt að vekja grunsemdir segir Wyner; hlutfallið er miklu hærra en í fyrri átökum á Gaza. Á móti má benda á að átökin hafa aldrei áður verið með þessum hætti á svæðinu. Andrés Magnússon bendir á að rannsóknarblaðamaðurinn Salo Aizenberg, sem mjög hefur fjallað um gyðingahatur, hafi áður gert meint ósamræmi í tölum Hamas að umfjöllunarefni og bent á að væru þessar tölur réttar, gæfi það til kynna að Ísraelsher hefði varla nokkurn Hamas-liða fellt. Eða tölurnar væru ómarktækar ef ekki beinlínis falsaðar.

Tölfræði eða trúgirni

Í fréttaskýringu Morgunblaðsins er rifjað upp að lengi vel vildi Hamas ekki gangast við því að aðrir en óbreyttir borgarar féllu fyrir Ísraelsmönnum. Um miðjan febrúar hafi þeir þó játað að um 6.000 vígamenn Hamas lægju í valnum, sem þá er meira en 20% þeirra sem sagðir voru hafa fallið. „Það kemur engan veginn heim og saman við að 70% hinna föllnu séu konur og börn, því það gæfi til kynna að engir karlar í hópi óbreyttra borgara – öfugt við konur og börn – yrðu fyrir barðinu á Ísraelsher. Nú eða hitt, að nánast hver einasti karlmaður á Gasasvæðinu sé virkur vígamaður Hamas. Hvort tveggja er fjarstæðukennt,“ segir í fréttaskýringu Morgunblaðsins.

Jake Wallis Simons, pistlahöfundur hjá breska blaðinu The Telegraph, gerir þessar tölur að umfjöllunarefni í pistli sínum í blaðinu 16. mars. Hann bendir á að George Orwell hafi árið 1945 skilgreint eitt af einkennum gyðingahaturs sem „hæfni til að trúa sögum sem gætu ekki verið sannar“. „Sem leiðir okkur fyrir sjónir hvernig Hamas meðhöndlar upplýsingar og ljósvakamiðlar, hjálparsamtök, alþjóðastofnanir og leiðtogar heimsins hafa tekið rangfærslum þeirra sem fagnaðarerindi. Í síðustu viku varð ljóst að þessi trúgirni þeirra gæti hafa leitt til glæps gegn raunveruleikanum,“ skrifar Jake Wallis Simons. Baráttukonan Ayaan Hirsi Ali deilir pistli hans á X (áður Twitter) og tekur undir með honum. Þess má geta að lífverðir gæta hennar allan sólarhringinn vegna morðhótanna íslamista.

Á samfélagsmiðlum og fjölmiðlum eru miklar deilur um ágæti tölfræði Wyner þó engin deili um að allt of margt fólk deyr á Gaza, þar á meðal fjölmiðlamenn. En áfram er deilt um tölfræði og nú er spurningin hvort unnt sé að greiða úr óreiðunni eins og vitundarvakning stjórnar Blaðamannafélags Íslands gengur út á.