c

Pistlar:

22. mars 2024 kl. 14:45

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Hið opinbera hlutafélag Íslands

Sú umræða sem farið hefur af stað vegna fyrirhugaðra kaupa Landsbankans á Tryggingamiðstöðinni hefur að mestu snúist um ferlið sjálft og hina pólitísku hlið þess. Þó með undirliggjandi umræðu um hver stefna ríkisins eigi að vera í atvinnurekstri og hve mikil umsvif ríkisins í atvinnulífinu eigi yfir höfuð að vera. Það er óumdeilt að þátttaka íslenska ríkisins í bankastarfsemi er óvenju mikil sem meðal annars kemur til vegna framkvæmda stöðuleikaskilyrðanna sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar innleiddi árið 2016. Þau fólu meðal annars í sér að eigendur Íslandsbanka neyddust til að afhenda ríkinu bankann til að standast skilyrðin. Að mörgu leyti einstök aðgerð, sem og allt það er féll undir stöðugleikaskilyrðin sem gerbreytti fjárhagsstöðu íslenska ríkisins. Það að við séum í aðstöðu til að rífast um eignarhald og einkavæðingu Íslandsbanka er þessum skilyrðum að þakka!bankar

Fyrir vikið varð íslenska ríkið mjög fyrirferðamikið á fjármálamarkaði eins og kemur fram í meðfylgjandi mynd frá Viðskiptaráði. Íslandsbanki er skráð fyrirtæki í kauphöllinni en Landsbankinn ekki. Margir hafa væntingar um að Landsbankinn verði skráður sem myndi hafa mikla þýðingu fyrir íslenskan hlutabréfamarkað, sérstaklega þegar horfur eru á að Marel hverfi af honum.

Eignahlutur upp á 931 milljarð

Íslenska ríkið er fyrirferðamikið í íslensku atvinnulífi, tölurnar tala sínu máli. Árið 2022 átti íslenska ríkið í 44 fyrirtækjum og námu heildareignir ríkisfyrirtækja um 4.460 milljörðum króna og eigið fé samtals um 1.076 milljörðum króna eins og kemur fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins. Eignarhlutur ríkisins í félögum nam um 931 milljörðum kr. og voru heildarstöðugildi í öllum ríkisfyrirtækjum á árinu 5.312. Þetta eru mikil umsvif og mikið utanumhald. Á hverjum tíma hlýtur ríkisvaldið að meta hvað það vill binda mikið fé í atvinnurekstri, auk þess sem gæta þarf að samkeppnissjónarmiðum. Ríkið hefur nokkurn arð af þessum eignum en hann kemur nánast allir frá fjármálafyrirtækjunum og Landsvirkjun.island ehf

Á árinu 2022 greiddu bankarnir 28,3 milljarða króna í arðgreiðslur til ríkisins en orkufyrirtækin greiddu ríkinu 21 milljarða króna en heildar arðgreiðslur voru 46,5 milljarðar. Af því sést að Landsbankinn og Landsvirkjun standa undir megninu af þeim arðgreiðslum sem ríkissjóður fær. Í tengslum við kaupin á Tryggingamiðstöðinni hefur vaknað umræða um að nær væri að Landsbankinn greiddi út þá fjármuni sem ætlaðir eru til kaupa á TM eða 28,6 milljarða króna. Það væri þá 150% hærra en arðgreiðsla bankans vegna ársins 2022 og hefur verið nefnt að ríkið gæti vel þegið slíka arðgreiðslu nú þegar það þarf að bera 20 milljarða kostnað af kjarasamningum næstu fjögur árin.


Landsbankinn hf. er stærsta fyrirtæki ríkisins hvað eignir varðar en eignir hans nema 1.787 milljörðum kr. Í lok árs 2022 var hlutdeild ríkisins í eigin fé bankans bókfærð á liðlega 278 milljarða króna.island ehf2

Keyptu Landsnet

Fyrirtæki í orkugeiranum mynda stærsta hluta eigin fjár fyrirtækja í eigu ríkisins eða tæplega 49% (453 milljarða kr.) en Landsvirkjun er þar langstærst með 326 milljarða eigið fé. Ríkið keypti á árinu 2022 93,2% hlut Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða í Landsneti og greiddi fyrir það 63 milljarða króna. Það var lítill ágreiningur við það en kaupin voru sögð vera í samræmi við Orkustefnu stjórnvalda frá 2020 og viljayfirlýsingu fyrrgreindra aðila þar um fyrri hluta árs 2021.

Yfir 5.300 ársstörf eru hjá ríkisfyrirtækjum eins og áður sagði. Fjölmennasti vinnustaðurinn árið 2022 var Isavia með 1.249 stöðugildi sem er um 23% af heildarstöðugildum ríkisfyrirtækja.