Af hverju heldur fólk framhjá?

Ágústa Ósk Óskarsdóttir.
Ágústa Ósk Óskarsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er svo margt sem getur talist vera ástæða fyrir því að einstaklingur heldur framhjá maka sínum. Ástæðurnar geta í raun verið jafn margar og einstaklingarnir. Allir geta misstigið sig á lífsleiðinni og allir geta bætt fyrir brot sín ef viljinn er fyrir hendi. Þrátt fyrir að ástæður geti verið ótalmargar þá eru nokkrar algengari en aðrar og rannsakendur nefna þær oft í umfjöllun um þetta efni,“ segir Ágústa Ósk Óskarsdóttir í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu en hún skrifaði BA ritgerð í Háskóla Ísland um hvort parasambönd ættu líf eftir framhjáhald. 

„Fyrst skal litið á hvað í persónulegu mynstri einstaklings er algengt að sjá hjá þeim sem halda framhjá. Þeir einstaklingar sem eiga erfitt með að eiga í djúpum samskiptum við aðra, þeir sem verða hugsjúkir um hluti, þeir sem hafa litla samvisku og eiga erfitt með að setja sig í spor annarra eru líklegri en aðrir til að halda framhjá.  Hið sama á við um þá sem leita eftir mikilli spennu og áhættu hvað varðar fjármál, lagamál og líkamlega útrás.

Fólk sem haldið er þunglyndi og kvíða er fremur í áhættuhópi og einnig þeir sem eru óöryggir með sjálfa sig og leita að utanaðkomandi aðdáun,“ segir Ágústa og bætir við: 

„Þeir sem eru með óraunhæfa mynd af sambandi og verða því oft fyrir vonbrigðum leita frekar út fyrir sambandið til að finna hinn fullkomna maka. Einstaklingar með hegðunarvanda, mikið skap og tilfinningalega erfiðleika eru jafnframt líklegri en aðrir til að halda framhjá maka sínum.

Þeir sem eru siðblindir eiga auðvelt með að halda framhjá og þeir finna jafnframt ekkert fyrir afleiðingum þess. Fólk sem haldið er spennu-, kynlífs- og ástarfíkn er mun líklegra en aðrir til þess að halda framhjá.“

Ágústa Ósk bendir á að í samböndum þar sem sé skortur á innileika sé meiri framhjáhaldshætta. 

„Í raun hafa flest allar þessar ástæður einn samnefnara; skort á innilegu ástarsambandi við maka sem inniheldur nánd og opin samskipti. Af þessum sökum á makinn auðveldara með að aftengja sig og skortir þess vegna yfirsýn yfir skaðann sem mun verða af gjörðum hans.

Ef litið er til félagslegra ástæðna þá er „vinnustaðaframhjáhald” mjög algengt. Þessi tegund framhjáhalds er þess eðlis að ástarsamband þróast út frá vinasambandi. Með vinnustaðaframhjáhaldi er bæði átt við fólk á sama vinnustað eða fólk sem kynnist í kringum vinnuna, gæti einnig átt við þá sem vinna langtímum erlendis. Sambandið byrjar sakleysislega, einn og einn hádegisverðarfundur eða fólk vinnur nokkrum sinnum lengri vinnutíma saman. Svo er farið að spjalla um allt og ekkert, sem sagt ekki bara um vinnutengda hluti, deila persónulegum málum og fyrr en varir finnst fólki eins og það hafi fundið sálufélaga hvort í öðru. Sumir hugsa kannski á þessum tímapunkti að það sé í raun ekkert óeðlilegt að eiga vin af gagnstæðu kyni og deila þessum hlutum með hinum aðilanum. Það er reyndar rétt svo framarlega sem makinn veit um þennan vin eða þessa fundi. Þannig getur þú, lesandi góður, séð nú þegar hvort einhver í þínu lífi gæti síðar meir orðið ógn við samband þitt, því úr þessum vináttusamböndum geta þróast ástarsambönd og þá kemur það oft aftan að fólki. Þetta er mjög lúmskt og alveg þess virði að varast ef manni er annt um hjónaband sitt.“

Hún bendir á að stundum sé ekki næg fullnægja í hjónabandinu.  

„Önnur félagsleg ástæða er að fullnægja er lítil í hjónabandinu, bæði andlega og líkamlega. Þau pör sem rífast mikið og skjóta kaldhæðnislega hvort á annað í tíma og ótíma eru viðkvæmari fyrir utanaðkomandi aðilum inn í samband sitt. Oft er annar aðilinn eða jafnvel báðir komnir með nóg og óafvitandi byrjaðir að leita annað. Sumir í þessum aðstæðum halda framhjá til að hafa útgönguleið út úr sambandinu. Aðrir verða hreinlega ástfangnir og í stað þess að ganga hreint til verks gagnvart maka sínum þreifa þeir fyrir sér með hinum aðilanum áður en þeir enda hjónabandið. Ef fólk endar svo hjónabönd sín og byrjar saman eiga þessi pör oft í erfiðleikum með traustið frá upphafi. Þessi hugsun ,,hún/hann hélt framhjá fyrrverandi maka, af hverju ætti hún/hann ekki að halda framhjá mér?” gerir sambandið viðkvæmt og oft á tíðum mjög erfitt.

Ein algeng ástæða þess að fólk heldur fram hjá er MÖGULEIKINN á því. Þetta á til dæmis við um viðskiptaferðir. „One night stand” á sér oft stað í þessum aðstæðum, fólk er að fá sér að drekka og skemmta sér, svo er daður og makinn fjarri. Í þessum aðstæðum myndast oft kynferðisleg spenna hjá fólki sem annars myndi ekki undir „venjulegum” kringumstæðum halda framhjá en af því að möguleikinn er fyrir hendi þá misstígur það sig.

Enn ein ástæða þess að fólk heldur fram hjá er að haldið hefur verið fram hjá þeim. Það er margt sem spilar inn í þessar aðstæður, t.d höfnunin sem einstaklingur verður fyrir við framhjáhald maka sem er yfirþyrmandi og leita sumir í huggun og samþykki annarsstaðar. Einnig vilja sumir hefna sín, leifa makanum að þjást eins og þeir hafa þurft að þjást. Svo eru það enn aðrir sem vilja reyna að upplifa og skilja hvað það var sem hinn aðilinn upplifði við framhjáhaldið og hvað það var að gefa honum.“

Nútímatækni eins og snjallsímar eru kannski ekki mjög hjálpleg þeim sem vilja halda sig á mottunni. 

„Netið og farsímar með ýmis konar snjallforritum hafa bæst við sem ógnun við sambönd. Með þessum tækjum gefast einstaklingum tækifæri til að stofna til sambanda utan hjónabandsins. Rannsakendur hafa komist að því að netið er sá vettvangur sem langflestir nota til að leita sér að kynlífsfélaga. Með tilkomu internetsins hefur meira borið á tilfinningalegu framhjáhaldi og reynist oft erfiðara að vinna úr slíku framhjáhaldi heldur en einnar nætur gamni þar sem hjartað er komið í spilið og sambandið snertir hið innra í manneskjunni.

Þessi listi er auðvitað ekki tæmandi og geta ástæður verið aðrar en nefndar hafa verið hér að ofan. En varðandi áframhaldandi vinnu í kjölfar framhjáhalds er eitt það mikilvægasta að gerandinn átti sig á hvaða ástæða varð til þess að hann tók þessa ákvörðun. Með því móti getur hann forðast að lenda í sömu aðstæðum aftur, unnið traust makans og komið út úr þessu sem heilbrigðari einstaklingur.““

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál