Fyrstu vonbrigðin í sambandi tengd fæðingu

Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.
Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi.

„Að verða, að vera, að trúa. Það er ferli að verða foreldri. Margir halda að á fæðingardaginn verði maður foreldri. Meðganga endar. Barn er fætt. Þannig er það, er það ekki rétt? Nei, rangt! Samfélagið er ekki undirbúið nema að nokkru leyti. Vinir og fjölskylda kunna að spyrja réttu spurninganna þegar barn fæðist. Þau spyrja um fæðingarþyngdina. Klukkan hvað fæddist hann? Hvað er hún löng? Hverjum er hún líkust? Er hann heilbrigður? Var fæðingin eins og þú bjóst við? Myndir eru teknar af miklum móð og fréttirnar fluttar. Nýtt barn er komið í heiminn og lífið blasir við. Tár blika á kinn, menn fallast í faðma og tilfinningarnar flæða fram,“ segir Ólafur Grétar Gunnarsson fjölskyldu- og hjónaráðgjafi hjá níu mánuðum. 

Ólafur Grétar segir að nýir foreldrar komist fljótlega að því að breytingin taki meira en einn dag. 

„Rannsóknir sýna að foreldrahlutverkið er afar margslungið. Fyrsta grundvallarbreytingin sem við tökum eftir er að dætur verða mæður, synir verða feður og kornabörn verða börnin okkar og foreldrar okkar verða ömmur og afar. Hringrás lífsins heldur áfram. Reynslan hefur sýnt okkur, kynslóð fram af kynslóð, við hverju má búast. 

En mörg pör eru lengi að átta sig á breytingunni sem verður á lífi þeirra við barnsfæðingu. Ólíkt því sem fjölmiðlar gefa oft til kynna verða breytingarnar ekki á svipstundu heldur tekur ferlið langan tíma. Margir telja einnig að hið sama gildi um það að tileinka sér foreldrahlutverkið. Það er síbreytilegt ferli sem er í stöðugri þróun. Reynslan kennir okkur smátt og smátt og nýir foreldrar læra gjarnan af fyrirmyndum. Við fylgjumst með vinum okkar og ættingjum, samstarfsfólki og jafnvel ókunnugu fólki í almenningsgörðum, í strætó eða á veitingahúsum og það hjálpar okkur að verða betri foreldrar,“ segir hann. 

Í þessu ferli finna margir nýir foreldrar fyrir því að enginn ráðleggur þeim neitt um að maður geti orðið óttasleginn eða fundist maður vera illa undirbúinn, ekki vita nóg eða vera að bugast.

„Sjaldan er minnst á að mæður og feður geti orðið niðurdregin og að það muni líklega koma niður á kynlífinu. Þess í stað eru gefin ráð um vörur og þægindaauka. Barnsfæðing veldur grundvallarbreytingu á samböndum. Sigrún Júlíusdóttir prófessor í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands og formaður stjórnar Rannsóknarstofnunar í barna og fjölskylduvernd (RBF) hefur verið ötul í að vekja athygli á mikilvægi þess að pör undirbúi sig saman undir það að breytast frá því að verða tvö ein; í þrjá einstaklinga. Að auki stefndur RBF fyrir námskeiði eftir John og Julie Gottman fyrir verðandi og nýorðna foreldra og um þau segir Sigrún: Þessi námskeið hafa það meginmarkmið að efla parsambandið á þeirri grunnforsendu, sem þekkt er úr rannsóknum og tölfræði, að hættan á skilnaði er einna mest á fyrstu þremur árunum eftir fæðingu fyrsta barns.“

Í viðtali í Morgunblaðinu í umfjöllun um námskeiðið sagði hún að hún hefði tekið eftir því í meðferðarvinnu sinni með pörum sem höfðu verið saman í 20-30 ár að algengt væri að þau myndu fyrst eftir vonbrigðum í sambandinu tengdum fæðingu fyrsta barnsins eða á fyrsta skeiðinu í lífi þess.  

„Foreldrahlutverkinu getur fylgt aukin þreyta, minna mótstöðuafl gegn sjúkdómum, líkamleg óþægindi í kjölfar meðgöngu og fæðingar, breyting á líkama, minnkuð kynlöngun ásamt fyrrnefndum breytingum á skapi, depurð, kvíða og geðlægð. Mikilvægt er að hafa í huga að reynsla einstaklinga af því að verða foreldrar er jafn fjölbreytt og þeir eru margir. Áhrif breytinganna eru mismunandi frá manni til manns. Sum pör verða nánari en nokkru sinni fyrr en mörgum pörum finnst þau fjarlægjast hvort annað. Vináttan dýpkar hjá sumum en önnur verða eins og afskiptalitlir kunningjar.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands um tíðni sambandsslita hjá pörum er hún mest þegar börn eru á aldrinum 0-3 ára. Hér á landi er sjaldgæft að fólk gifti sig fyrir barneignir og algengt að fólk sé mjög ungt þegar það eignast barn. Þessir þættir geta aukið líkur á sambandsslitum til muna. Því er undirbúningur sambandsins fyrir barneignir mjög mikilvægur og gæti dregið úr hárri tíðni sambandsslita. Með auknum skilningi og verkfærum í að takast á við álagið og ágreininginn má gera ráð að sambandið eigi betra tækifæri. Auðvitað er ekki hægt að undirbúa sig að fullu fyrir foreldrahlutverkið en það má benda á Gottman-námskeið RBF. Um eitt hundrað fagaðilar hér á landi hafa sótt sérstök námskeið eða þjálfun hjá Gottman-hjónunum. Með því að sækja slíkt námskeið eða pararáðgjöf má segja að parið sé að gefa sambandinu betra tækifæri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál