„Finnst vont að láta njósna um mig“

Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar Frábær eftir fertugt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Trúir þú því að líf þitt sé alfarið þitt einkamál? Og finnst þér þú kannski ná að halda öllu þínu algjörlega út af fyrir þig? Það er vissulega ósköp notalegt að trúa því og ég myndi svo mjög gjarnan vilja það. En það er bara svo fjarri sannleikanum. Sérstaklega ef þú ert virkur í netheimum þá geturðu gleymt því að svo sé. Því líf okkar, sem förum daglega á netið, er síður en svo sem lokuð bók,“ segir Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar „Frábær eftir fertugt“ í sínum nýjasta pistli á Smartlandi Mörtu Maríu. 

„Í mínum huga er einkalífið afar dýrmætt og ég hef nákvæmlega engan áhuga á því að láta fylgjast með mér og njósna um mig. En í dag er það ekki möguleiki. Kannski ef ég væri ekki á facebook eða myndi aldrei „gúggla“ þá gæti það gengið en það er samt mjög hæpið. Mjög, mjög hæpið. Þú kemst nefnilega hvergi undan tækninni og því að fylgst sé með þér. Út um allt eru myndavélar sem fylgjast með okkur, við borgum vörur með kreditkorti og þannig er líka fylgst með okkur. Svo eru það símarnir okkar sem flestir eru með staðsetningarbúnað, og margir halda því líka fram að með myndavélunum í fartölvunum okkar sé hægt að fylgjast með okkur. Við erum því í raun og veru hvergi óhult fyrir því að með okkur sé fylgst.“

Jóna Ósk hefur velt þessu töluvert fyrir sér upp á síðkastið. 

„Ég verð að segja að þegar ég virkilega áttaði mig á því hversu mikið er fylgst með öllu sem ég geri þá varð mér hálfillt. Nýjasta fréttin um óprúttna aðila sem tókst að hakka sig inn í öryggismyndavélar á heimilum fólks út um allan heim var ekki til þess fallin að róa mig. En það sem kannski helst hefur fyllt mælinn hjá mér undanfarið er röð atvika þar sem ég hef verið að „gúggla“ eitthvað og farið svo inn á facebook stuttu seinna og viti menn; dúkka ekki upp hjá mér auglýsingar nátengdar því sem ég var að „gúggla“. Þetta hefur reyndar gerst með fleiri síður en facebook. Mér finnst þetta hrikalega óþægileg tilfinning. Og nei, ég er ekki orðin vænisjúk – þetta eru augljósar staðreyndir.

Oft velti ég því líka fyrir mér, þegar myndir af mér fara á netið, hvort einhver þarna úti komi kannski til með að nota þær í vafasömum tilgangi. Fyrr á þessu ári sá ég nefnilega þátt í Bandaríkjunum sem situr enn í mér. Ung og flott stúlka hafði sett þessa fínu mynd af sér á facebook-síðuna sína. Einhver óprúttinn aðili hafði síðan tekið myndina og notað hana sem sína eigin. Þessi sami aðili hafði leikið á nokkra unga karlmenn sem af fúsum og frjálsum vilja sendu þessari flottu ungu konu, að þeir héldu, fullt af peningum til að hjálpa henni í erfiðum veikindum. Hún var jú kærastan þeirra, eða svo héldu þeir allir þótt enginn þeirra hefði hitt hana og aðeins væri um netsamband að ræða. En ánægðir voru þeir með þessa kærustu sína, sem þegar upp var staðið reyndist vera töluvert eldri kona og ekkert sérstaklega flott og hugguleg.“

Það fer fyrir brjóstið á Jónu Ósk þegar ungar stelpur setja djarfar myndir af sér á netið. 

„Þetta er svo sannarlega langt frá því að vera eina dæmið um slíkt og öll getum við átt þetta á hættu. Þess vegna fer það fyrir brjóstið á mér þegar ungar stúlkur setja djarfar og ögrandi myndir af sér fáklæddum á netið. Þær hafa ekki hugmynd um hvar myndirnar þeirra geta endað. Og hvað gengur þessum stúlkum eiginlega til?

Eins mikið og ég dáist að möguleikum veraldarvefsins og nýrri tækni þá hræðist ég hvort tveggja um leið. Vissulega auðveldar þetta okkur margt en tæknin hefur samt líka getið af sér tól sem fær okkur til að eyða tímanum í tóma vitleysu. Og þetta tól fylgist líka með okkur, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Þegar ég reyni að vera einstaklega jákvæð út í þetta allt hugsa ég um þessa hluti sem öryggistæki. Myndavélarnar sem fylgjast með okkur geta nefnilega líka komið upp um glæpamenn og ef ég myndi einhvern tímann týnast eða ef mér yrði rænt þá gæti þessi sama tækni líklega hjálpað til við að finna mig út frá kreditkortafærslum, tölvunotkun og öllum þessum myndavélum. En af hverju ætti ég svo sem að týnast og hver hefði eiginlega áhuga á því að ræna mér? Ætli ég sé kannski búin að horfa á allt of mikið af sjónvarpsþáttum þar sem samsæriskenningum er haldið á lofti?“

Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar, Frábær eftir fertugt.
Jóna Ósk Pétursdóttir höfundur bókarinnar, Frábær eftir fertugt. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál