Hvernig þekkir þú raðfanta?

Brynja Bragadóttir.
Brynja Bragadóttir.

„Í síðustu viku skrifaði ég pistil um siðblindu eða það sem á ensku kallast psychopathy. Mig langar í þetta sinn að skrifa um annað og skylt efni, einelti á vinnustað. Raunin er sú að gerendur eineltis sýna oft einkenni siðblindu. Þó er það ekki þannig að allir gerendur eineltis séu siðblindir. Í grein sem ég rakst á um daginn á antibullying.blogspot.com er talað um nokkra hópa raðfanta (serial bullies), segir Brynja Bragadóttir doktor í vinnustaðasálfræði í sínum nýjasta pistli:

Fólk almennt getur átt erfitt með að átta sig á þessum einstaklingum. Þess vegna tel ég mikilvægt að tala um þætti sem einkenna þá. Með því að þekkja einkenni raðfanta geta starfsmenn og stjórnendur brugðist fyrr við og þar með lágmarkað skaðann af hegðun þeirra.

Í áðurnefndri grein er talað um fjóra flokka raðgerenda (fjórar manngerðir).

Siðblinda manngerðin – The sociopath, aka psychopath

Það sem einkennir siðblindu manngerðina að hún sækist eftir völdum og því að fá sínum þörfum fullnægt (oft á kostnað annarra). Þessir manngerð er oft mjög klár og á auðvelt með að „manipulera“ aðra. Hún á t.d. auðvelt með að manipulera tilfinningar annarra (t.d. vekja reiði eða sektarkennd hjá öðrum).

Annað sem einkennir siðblindu manngerðina:

  • Er óútreiknanleg
  • Er sjarmerandi – býður af sér góðan þokka. Er sérstaklega almennileg við þá sem geta varið hana og/eða hjálpað henni að komast áfram, t.d. í æðri stöðu.
  • Er góð í að blekkja
  • Tekur ekki ábyrgð
  • Er orðheppin og góð í rökræðum
  • Kemur sér oft í góða stöðu í fyrirtæki

Athyglissjúka manngerðin – The attention-seeker

Þessi manngerð er þekkt fyrir að vera óþroskuð og sjálfhverf. Hvatinn er frekar augljós – að vera miðpunktur athyglinnar. Það er óhætt að segja að flestir þekkja að minnsta kosti eina svona manngerð. Dæmi um þætti sem einkenna þessa manngerð eru:

  • Fer í manngreinarálit. Er mjög vinsamleg við suma, tillitslaus og hrokafull við aðra og hunsar enn aðra
  • Er köld og aggressíf við þá sem sjá í gegnum hann
  • Er ofurvinsamleg við „nýja fórnarlambið“. Líka ofurhjálpsöm og ofurgjafmild við hann/hana
  • Reynir að stýra upplifunum og líðan annarra
  • Reynir að græða sem mest á öðrum
  • Smjaðrar fyrir yfirmönnum
  • Gerir mikið úr hlutunum – dettur auðveldlega í sjálfsvorkunn

„Stjarnan“ – The wannabe

Þessi manngerð er kannski sú saklausasta. Henni svipar til athyglissjúku manngerðarinnar en er ekki eins skaðleg. Stjarnan hefur mikla þörf fyrir virðingu, en hún fer oft rangar leiðir til að öðlast hana. Þessi manngerð er líklegri til að axla ábyrgð en fyrrnefndu manngerðirnar. Hún á þó til að skýra hluti (t.d. slæma hegðun) út frá aðstæðum frekar en innri þáttum. Annað sem einkennir þessa manngerð:

  • Er óskilvirk – stendur sjaldnast undir væntingum
  • Hefur mikla þörf fyrir athygli og virðingu – leggur mikið á sig til að fá þetta tvennt
  • Er ekki sérfræðingur, en gefur sig út fyrir að vera það
  • Vill að aðrir sjái hana sem faglega, en hefur hvorki færni né vilja til að gera vel
  • Er afbrýðisöm og/eða öfundsjúk út í annað fagfólk
  • Er líkleg til að gagnrýna, dæma eða eyðileggja fyrir öðrum (t.d. vinnu annarra)
  • Leitar í valdastöður – til að fá útrás fyrir eigin þarfir (t.d. að gagnrýna aðra)

Sérfræðingurinn – The guru

Þessi manngerð er líka nokkuð saklaus, en þó er gott að þekkja hana. Þessi manngerð gæti stundum sýnt einkenni siðblindu. Hún hefur takmarkaða samskiptahæfni – á erfitt með að lesa aðstæður og það hvernig öðrum líður. Hún axlar ekki ábyrgð á eigin hegðun og sér ekki galla hjá sjálfri sér. Hegðun hennar stýrist oft af því að koma hlutum í framkvæmd. Annað sem einkennir þessa manngerð er:

  • Mjög hæf á þröngu sviði
  • Er sérfræðingur í augum annarra
  • Nýtur virðingar hjá vinnuveitanda
  • Er ofurmetnaðarfull
  • Einblínir á verkefni
  • Stjórnsöm
  • Getur mismunað fólki

Hér að framan hef ég lýst fjórum tegundum raðfanta. Ég vona að þessar lýsingar hjálpi einhverjum og hvetji einhverja (sem í þeim lenda) að leita sér hjálpar. Það virkar reyndar sjaldan að leita til yfirmanna þessara einstaklinga, en aðstoð frá fagfólki getur margborgað sig.

Höfundur er vinnusálfræðingur (PhD) og ráðgjafi hjá Officium ehf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál