Ætlar aldrei að eignast börn

Sirrý Klemensdóttir fór í ófrjósemisaðgerð 28 ára gömul.
Sirrý Klemensdóttir fór í ófrjósemisaðgerð 28 ára gömul.

„Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að vilja ekki fara þá leiðina í lífinu að verða móðir. Frá því ég man eftir mér lék ég mér í „mömmó“ með bangsa í stað dúkka sem börn og er í raun enn í svoleiðis leik. Nema nú eru bangsarnir lifandi hundar. Ég hef rekið mig á það að það virðist haldast í hendur að vera dýravinur og vilja ekki börn. Það er eins og við konur verðum að fá einhverja útrás fyrir móðureðlið í okkur og hana fáum við á gæludýrum. En ég lít á þau sem börnin mín og hef mikla umönnunarþörf. Elska þau, annast og hlúi að eins og ég myndi gera við börn. Ég nýt þess að hugsa um fjölskylduna mína sem samanstendur af manninum mínum og tveim hundum (í augnablikinu),“ segir Sirrý Klemenzdóttir þegar hún er spurð að því hvers vegna hún kýr barnleysi. Sirrý er 35 ára gamall ljósmyndari sem rekur sitt eigið ljósmyndastúdíó í Hafnarfirði.

Hverjar eru ástæðurnar fyrir þessari stóru ákvörðun?

„Ástæðurnar fyrir þessari stóru ákvörðun eru margar og ber kannski hæst að nefna þá ábyrgð sem fylgir því að ala upp mennska einstaklinga. Heimur versnandi fer og ég get ekki hugsað mér að skilja eftir mig afkomendur í þessu ástandi í heiminum. Svo er margt sem getur farið úrskeðis á meðgöngu, fæðingu og uppeldi og þegar vel tekst til þá má segja að það sé einskonar kraftaverk sem er kannski tekið sem sjálfsögðum hlut. Ég myndi vilja börnunum mínum heilbrigt líf eins og allir foreldrar en nú er ég með sjúkdóm sem fylgir mér og er ættgengur. Maðurinn minn líka. Ég vill heldur ekki taka sénsinn á að börnin mín fái þá ekki.“

Þegar Sirrý er spurð að því hvort hún haldi að hún muni einhvern tímann skipta um skoðun varðandi eigin barneignir segir hún svo ekki vera.

„Ég hef aldrei skipt um skoðun og mun ekki gera það. Ég er í langtímasambandi en á 17. júní áttum við maðurinn minn 11 ára sambandsafmæli. Hann á tvö uppkomin börn og er allskostar sáttur við ákvörðun mína. Börnin hans sem eru í dag orðin fullorðin eru yndislegir einstaklingar sem ég, sem stjúpmamma er afar heppin með. Verst þykir mér þó afstaða mömmu minnar til þessa því hún er mikil mamma og amma og fær því miður engin barnabörn frá mér nema dýrin,“ segir hún.

Það er margt sem brennur á Sirrý og hún segir að það fari í taugarnar á sér hvernig ákveðið viðhorf er.

„Þess ber að geta að það fer í taugarnar á mér viðhorf samfélags til mæðra (og feðra) sem kjósa sér þá leið í lífinu að vera heimavinnandi eða myndu vilja það. Það er vanmetið starf að vera móðir og að vera heimavinnandi með börnin eru forréttindi og aðdáunarvert starf. Sjálf ólst ég upp við heimavinnandi móður og hefði ekki getað hugsað mér betra uppeldi. Það er veigamikið starf að ala upp börn sem eru framtíðin í landinu. Foreldrar bera ábyrgð á því hvernig börnin þeirra fullorðnast. Því miður fær fólk varla tækifæri til þess að sinna börnunum sínum á þann háttinn því einhvernveginn verðum við að ná endum saman. Laun eru lág og húsaleiga og lán allt of há og almennur heimiliskostnaður. Flestir hafa ekki tök a því að lifa á innkomu annars foreldris. Þær verða líka fyrir þrýstingi frá samfélaginu að drífa sig út á vinnumarkað. Við lifum í alltof hröðum heimi þar sem er ætlast til ansi margra hluta af okkur. Stress og streita kraumir undir en við ættum öll að vita hversu heilsuspillandi það er en það er önnur saga.“

Faðir Sirrýar var sjómaður og móðir hennar var heimavinnandi. Hún segir að hún hafi fengið gott uppeldi.

„Ég myndi segja að uppeldið einkendist af umburðarlyndi, ástúð, aðhaldi, rólegheitum og samheldni sem mér finnst vera beinar afleiðingar þess að mamma hafði nógan tíma til að sinna okkur systkinum. Þegar pabbi kom í land þá var hann alveg í fríi í margar vikur. Mér finnst ég njóta forréttinda að eiga þessa æsku að baki. Þannig að á unglingsárum þegar ég var ekki búin að móta skoðanir (vegna samfélagslegs þrýstings, en undir niðri vissi ég alveg hvað ég vildi) enda ekki komin með aldur til, þá sagði ég að ég myndi vilja vera heimavinnandi svo börnin mín hlytu því svipað uppeldi og ég hlaut .Þar að auki vildi ég miklu frekar ættleiða. Börn eru börn og foreldraþurfi hvort sem þau koma frá mér eða öðrum og nóg er af börnum í heiminum sem þarfnast fjölskyldu.“

Þrátt fyrir að hafa tekið ákvörðun um að eignast ekki börn segist hún ekki hafa neitt á móti börnum annarra. Henni þyki börn yndisleg.

„En það má ekki rugla saman því að þola ekki börn og vilja ekki börn. Mér finnst börn nefninlega alveg dásamleg og vinn í nánu samstarfi með þeim í vinnunni þar sem ég fæ fullt af skemmtilegum krúttum í myndatöku til mín. Ég var líka að vinna á leikskóla á yngri árum og sem unglingur stundaði ég barnapössun.“

Sirrý segist ekki vera ein um þá lífsskoðun að vilja vera barnlaus.

„Ég hef talað við margar konur og stelpur í gegnum tíðina sem eru sömu skoðunar og hana ber að virða. Margar skipta um skoðun. Það má líka alveg. Það er ekki það sama að vilja ekki eiga börn og geta ekki átt börn. Það á ekki að vorkenna fólki sem velur sér þessa leið í lífinu því við erum jú öll með mismunandi skoðanir í lífinu. Rauði þráðurinn hjá okkur sem erum þessarar skoðunar er að mestu leyti sá sami.“

Aðspurð að því hvort hún hafi orðið fyrir miklum samfélagslegum þrýstingi vegna barnleysisins segir hún svo ekki vera.

„Ég er ekki ein af þeim sem hefur orðið fyrir miklum samfélagslegum þrýstingi út af þessu. En hann hefur þó verið til staðar, einkum á yngri árum. Fólkið mitt í kringum mig þekkir mig og gafst fljótt upp á að spyrja og reyna að breyta mínum skoðunum. Svo finn ég að hugarfar fólk er að breytast. Þegar þetta berst í tal þá virðast allir hafa sömu sögu að segja af fólki sem er sama sinnis. Þó er eldri kynslóðin enn pínulítið gapandi yfir þessum lífstíl sem ég kýs. En margar konur segjast verða fyrir miklum þrýsting. Það á ekki að þykja tiltökumál að fara þessa leið í lífinu og ég tel það alveg jafneðlilegt og að vilja börn. Þó er eðlilegast að meirihlutinn vilji eignast börn að sjálfsögðu. Við erum bara undantekningin sem sannar regluna. Náttúran hefur margar leiðir til þess að sporna gegn offjölgun og þetta er ein af þeim. Ég hef jafnvel gaman að því að rökræða og útskýra fyrir fólki sem skilur mig ekki og opna augu þeirra. Ég skammast mín alls ekki fyrir þessar skoðanir og mér líður alls ekki illa. Það er mér mjög mikilvægt að fólk skilji það. Ég er ekki einmana og á fjölda ástvina sem ég á góðar stundir með. Líf mitt með fjölskyldunni, vinum og dýrunum mínum er alveg jafn þýðingamikið, fullnægjandi og fjölbreytt og ef ég ætti börn og það ber að virða. Ég gæti sagst ekki skilja fólk sem vill ekki gæludýr en ég næ að setja mig í spor þeirra og virði þeirra leið í lífinu. Svona erum við mannfólkið skemmtilega ólík og það gefur lífinu lit.“

Þegar Sirrý var 28 ára fór hún í ófrjósemisaðgerð því hún var alveg viss um að hún myndi ekki vilja eignast börn.

„Það kom til vegna þess að ég kærði mig einfaldlega ekki um að dæla í mig einhverjum hormónalyfjum það sem eftir er af mínum frjósemisárum en ég hafði verið á sprautunni í 3 ár og þar áður á pillunni. Ég bara get ekki ímyndað mér að það sé hreinlega gott fyrir líkamann svo ég ákvað að að fara í ófrjósemisaðgerð í samráði við manninn minn. Það var mikið grín gert að því á sínum tíma því tíkin okkar eldri, fór í ófrjósemisaðgerð á sama tíma. Ég talaði um að við hefðum fengið 2fyrir1 upp á dýraspítala, en það verður að slá bara á létta strengi. Margir sem taka þetta alvarlega og finnst þetta hafa verið hreinlega dauðadómur að hafa farið í slíka aðgerð 28 ára gömul og barnlaus.“

Ertu ekkert hrædd um að verða einmana í ellinni?

„Einna bestu rökin sem ég heyri fyrir því að eignast börn eru svo maður verði ekki einmana í ellinni. Fæ þessa spurningu af og til hvort ég sé ekki hrædd um að vera ein í ellinni. Það er nefninlega alls ekki gefið að börnin þín verði til staðar í ellinni ef þú eignast slík. Ég er mjög félagslynd og verð vonandi umkringd vinum á mínum aldri bara þegar þar að kemur. Svo vona ég nú að fólk vilji eignast börn af öðrum ástæðum en að vilja ekki vera einmana í ellinni.

Svo má nefna eina sígilda línu sem við höfum mörg heyrt. Að líf manns sé tilgangslaust ef maður eignast ekki börn. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, því það eru margir sem þrá börn en geta ekki átt börn. Við viljum ekki heyra að tilvera okkar sé tilgangslaus. Þó tilgangur lífsins lífræðilega séð, sé að fjölga sér að þá mætti segja að æðri tilgangur lífsins okkar sé að njóta þess lifandi og hafa gaman af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál