Hvernig á að skipuleggja eftirminnilegan dag fyrir gæs

Margrét Erla Maack er mjög snjöll í því að skipuleggja …
Margrét Erla Maack er mjög snjöll í því að skipuleggja gæsapartí. mbl.is/GettyImages

Gæsa- og steggjapartí eru gjarnan stór hluti af undirbúningi brúðkaups. Dagur sem snýst um að gæs eða steggur eigi eftirminnilegan dag með vinum sínum krefst mikils skipulags. Hér koma nokkrir punktar og hugmyndir frá Margréti Erlu Maack, konu sem hefur bæði tekið þátt í að skipuleggja mörg slík partí og sömuleiðis verið ráðin til að skemmta í þeim. 

Margrét mælir með að notast við Facebook-hópa þegar dagurinn er undirbúinn. „Þetta er frábær vettvangur til að skipuleggja slíkan dag og er betri en spjall eða tölvupóstur. Best er að þrír til fjórir einstaklingar sjái um skipulagið eftir að hugmyndum hefur verið kastað fram,“ útskýrir Margrét. Hún varar fólk þá við að búa til of stíft prógramm. „Best heppnaða dæmið sem ég hef verið með í var „tjill“ í sumarbústað. Fyrir upptekið fólk sem er í óðaönn að skipuleggja brúðkaup er dagur sem er fullur af hasar ekki eins spennandi og slökun í sólarhring í góðra vina hóp.“

Margrét Erla Maack og stöllur úr Bollywood dansflokknum.
Margrét Erla Maack og stöllur úr Bollywood dansflokknum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Eitt stórt partí eða mörg lítil?

Það er svo þess virði að skoða hvort hægt sé að brjóta gæsunar- eða steggjunargleðina upp, þar sem sumir eiga nokkra vinahópa að sögn Margrétar. „Það hefur stundum gengið illa að samþætta hvað mismunandi vinahópum finnst sniðugt og svo þekkja vinahóparnir mismunandi hliðar á viðkomandi. Það er ekkert að því að hafa tvo eða þrjá minni daga þar sem mismunandi vinahópar gera eitthvað skemmtilegt. Og munið, gæsa- og steggjapartí þurfa ekki að vera einkynja. Ef aðalmanneskjan á vini af gagnstæðu kyni er fáránlegt að skilja út undan. Hins vegar ef hugmyndin er að margir hópar sameinist er gott að huga að því að hafa einhvers konar hópefli snemma í prógramminu. Ég hef sjálf séð um að hrista svona hópa saman (bókstaflega) í Kramhúsinu, hvort sem það er með Beyoncé-dansi, magadansi, Eurovision-dansi, Sorry-dansinum með Justin Bieber eða einhverju öðru. Improv Ísland býður líka upp á skemmtilega leikspunatíma sem henta mjög vel. Í einum „brönsinum“ létum við gæsina standa upp og segja hvernig hver og ein tengdist henni. Það var mjög skemmtilegt. Og ef hópurinn er mjög stór eru nafnspjöld ekki slæm hugmynd.“

Margrét mælir með dansi til að hrista upp í hópnum en hún varar þó við því að dagurinn verði eintóm líkamleg áreynsla. „Einu sinni kenndi ég í gæsapartíi og Kramhúsið var fjórða stopp. Þá var búið að fara í klukkutíma í karate, út að spila fótbolta og í klukkutíma eróbikk. Allir voru búnir á því og ég veit ekki hversu lengi þær entust á tjúttinu eftir þennan dag.“

Steggur í g-streng er bara fyndið í 10 sekúndur

Það hefur þótt vinsælt að sýna myndband sem tekið er á gæsunar- eða steggjunardaginn í brúðkaupinu. Margrét segir slík myndbönd þurfa að vera hnitmiðuð og skemmtileg fyrir brúðkaupsgestina, ekki bara þá sem voru viðstaddir daginn. „Lengra en 10 mínútur er dauði fyrir alla þá brúðkaupsgesti sem voru ekki í partíinu. Þrjár til fjórar mínútur er alveg nóg. Steggur í g-streng er bara fyndið í 10 sekúndur og í enn styttri tíma ef maður er að borða. Takið svo myndbandið upp í „landscape“ – ekki lóðrétt. Ef þið takið upp lóðrétt eruð þið ekki að nota allt tjaldið sem þessu verður varpað upp á,“ segir Margrét, sem mælir með að myndatökunni sé skipt jafnt á milli þeirra sem taka þátt í deginum. „Prógramm þar sem helmingur er að taka myndbönd og ljósmyndir og helmingurinn að njóta er skrýtið prógramm. Svo er líka hægt að fá einhvern sem þið þekkið og kann til verka til að gera slíkt fyrir greiðslu.“

Að lokum vill Margrét minna á að gæta hófs þegar kemur að áfengisdrykkju. „Jú, ég er mikil talskona dagdrykkju. En ef fiðurfé dagsins er dautt í sófanum meðan vinirnir skemmta sér í danskennslu, þá kárnar gamanið. Næra sig oft, og drekka vatn, sérstaklega ef þið eruð að fara að svitna eitthvað.“

Hér er verðlaunasagan: Sameinuð eftir 44 ár

Mynd úr gæsapartíi þar sem dansað var í Kramhúsinu.
Mynd úr gæsapartíi þar sem dansað var í Kramhúsinu.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál