Hans fyrrverandi er að gera mig brjálaða

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, svarar spurningum lesenda. 

Sæll Valdimar,

Fyrir 4 árum hófum við, ég og sambýlismaður minn, sambúð. Við eigum bæði börn úr fyrri samböndum og hefur gengið ágætlega að láta þetta allt ganga upp. En, hans fyrrverandi er að gera mig brjálaða, vægt til orða tekið. Áður en okkar sambúð hófst vissi ég ekki betur en það væri allt í lagi á milli þeirra, og það er raunin, ef hún fær það sem hún vill.

Sambýlismaður minn gerir það sem hún vill og aðstoðar hana með ýmislegt, sem hann heldur að ég viti ekki um. Þrátt fyrir það eru endalaus leiðindi og hún virðist algjörlega vera með hann í vasanum.

Mér er farið að líða eins og ég sé einhver aukapersóna í þessu sambandi og hún sé alltaf inni á gafli hjá okkur. Þetta skapar mikil leiðindi á heimilinu.

Hvað er til ráða?

Kveðja ein sem er svolítið döpur

Góðan daginn „ein döpur“ og takk fyrir spurninguna.

Þetta er eitt af þessum „klassísku“ viðfangsefnum þar sem mörk verða óljós eftir að fólk hefur slitið samvistum. Ráðið er í raun tvíþætt. Fyrst og fremst þarft þú að ákveða hvað þú sættir þig við í þessu samhengi? Þú ættir að skoða hvort þú getur sleppt tökunum gagnvart samskiptunum á milli maka þíns og hans fyrrverandi. Þetta er stórt verkefni sem snýst um að aðskilja þig frá samskiptunum þeirra, einbeita þér að því sem skiptir þig máli. Við gætum til dæmis ímyndað okkar að maðurinn þinn ætti erfitt með að setja yfirmanni sínum mörk. Það ætti í raun ekki að skipta þig svo miklu máli svo lengi sem það hefur ekki bein áhrif á þitt líf. Það væri þá bara verkefni mannsins þíns að vinna úr því. Þegar markaleysið snýr að fyrrverandi maka verður málið snúnara og þar koma ýmsar aðrar tilfinningar til sögunnar. Þú getur byrjað ferðalagið með því að skoða hvaða tilfinningar þú ert að upplifa í þessu samhengi. Ertu að einhverju leyti afbrýðisöm? Finnst þér þú vera minna virði þegar maðurinn þinn lætur að stjórn sinnar fyrrverandi? Upplifir þú að þú treystir ekki manninum þínum? Og svo framvegis. Með því að skoða þessar tilfinningar getur þú nálgast betur hvað það er sem raunverulega er að angra þig. Þetta eru allt atriði sem snúa að þér sjálfri.

Hafandi sagt þetta, þá er það auðvitað ekki svo létt að vera í sambandi þar sem maki manns á erfitt með að setja öðrum mörk. Það er hægt að leiða hjá sér upp að vissu marki en verður augljóslega erfiðara þegar það er farið að bitna á sambúð ykkar, skipulagi og ákvörðunum. Þar kemur að þáttum sem þú getur ekki stjórnað og maðurinn þinn þarf að axla ábyrgð á. Ef hann vill æfa sig í að setja skýrari mörk, þá er það hægt, ef hann aftur á móti vill engu breyta, þá komum við aftur að fyrstu spurningunni: Hvað ert þú tilbúin að sætta þig við í þessu samhengi?

Með bestu kveðju, 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimar póst HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál