Upplifði ekki að mamma elskaði mig

mbl.is/ThinkstockPhotos

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni, svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér er hann spurður út í tilfinningar eftir lát móður. 

Sæll Valdimar.

Ég missti móður mína fyrir rúmum 10 árum.  Sambandið á milli okkar var mjög sterkt á yngri árum en fór svo dalandi eftir því sem ég varð eldri, ég er rúmlega fimmtug í dag. Ég er að furða mig á að þegar ég sé myndir af henni birtast til dæmis á Facebook þegar systkini mín hafa verið að minnast hennar eins og á dánardegi þá er ég eitthvað svo tilfinningasljó, eiginlega hálfdofin, köld og hef meira segja hugsað, var þetta mamma mín? Ég skammast mín dálítið fyrir þessar tilfinningar og finnst ég vera vond, ég veit ekki til þess að ég eigi eitthvað sökótt við hana mömmu, hún var ágætiskona, barngóð og ég hef í raun ekkert út á hana að setja þannig nema ég hefði viljað finna meira fyrir því að hún elskaði mig. Ég veit hún gerði það en ég upplifði það samt ekkert sérlega sterkt. En hvað er málið með að vera svona dofinn, af hverju finn ég ekki sorg og söknuð þegar ég minnist hennar eða sé myndir af henni?

Kveðja, KA

Góðan daginn og takk fyrir þessa spurningu.

Það er mjög algengt að við eigum í erfiðleikum með að tengjast tilfinningum okkar eða að upplifa þær á þann hátt sem við höldum að væri eðlilegt. Ástæðurnar geta verið mismunandi en í mörgum tilvikum hafa einstaklingar þróað þann eiginleika í uppvextinum að loka á tilfinningar sínar eða verjast því að upplifa þær. Oftast er það í tengslum við sársauka sem kom til vegna áfalla í samskiptum. Það hefur með samskipti okkar að gera gagnvart þeim aðilum sem komu að uppvexti okkar. Það getur átt við foreldra, afa og ömmur, systkini, kennara og svo framvegis. Það er afar persónubundið hver ástæðan er hjá hverjum og einum en miðað við skrifin þín þá gæti það að einhverju leyti átt við um samband þitt við móður þína.

Þú þarft ekkert að skammast þín fyrir tilfinningar þínar, þær eru einmitt það... tilfinnningarnar þínar. Það getur verið gagnlegt að skoða það nánar hvaðan slíkur doði kemur og af hverju þú upplifir tilfinningar, eða upplifir ekki tilfinningar, sem þér þætti eðlilegt að upplifa. Ég mæli með faglegri aðstoð hvað þetta varðar og tel nauðsynlegt að vinna svona mál í gegnum samtalsmeðferð hjá fagaðila. Þú getur til dæmis leitað til ráðgjafa hjá Lausninni fjölskyldumiðstöð, eða hjá hinum ýmsu sálfræðiþjónustum sem í boði eru.

Með bestu kveðju,

Valdimar Þór Svavarsson ráðgjafi

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Valdimari spurningu HÉR. 

Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni.
Valdimar Þór Svavarsson, ráðgjafi hjá Lausninni. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál