Hvernig getur fólk í sorg komist í gegnum jólin?

Fólk sem hefur upplifað mikla sorg á oft og tíðum …
Fólk sem hefur upplifað mikla sorg á oft og tíðum erfitt um jólin. Samsett mynd

Aðventan og jólahátíðin er dásamlegur, hlýlegur og erilsamur tími en getur reynst mörgum erfiður tími, ekki síst þeim sem hafa misst ástvin, en fráfall ástvina er það erfiðasta sem við upplifum. Það er ekki ólíklegt að aðdragandi jóla og sjálf jólahátíðin hafi áhrif á syrgjendur en á þessum árstíma hellast yfir minningar og margs er að sakna. 

Sorgarmiðstöð, sem sinnir fræðslu og ráðgjör til syrgjenda, hefur undanfarin ár gefið út bæklinginn, Jólin & Sorgin, sem inniheldur góð ráð og hjálpar fólki að undirbúa sig fyrir hátíðarnar. Eitt það mikilvægasta er að vera góður við sjálfan sig og keyra sig ekki út. 

Sorgarmiðstöð stendur við bakið á fólki sem glímir við sorg.
Sorgarmiðstöð stendur við bakið á fólki sem glímir við sorg. Fellipe Ditadi/Unsplash
  • Verið góð við ykkur sjálf og búist ekki við of miklu. Þegar sorg er í hjarta er eðlilegt að vera sorgmæddur, einnig á jólunum. Gráturinn líknar og hreinsar. Það er óhætt að sýna tilfinningar. 
  • Mikill erill fylgir jólahátíðinni og þess vegna er mikilvægt fyrir ykkur að hvílast vel. Þið þurfið á allri ykkar orku að halda.
  • Þegar jólin nálgast getur verið gott að ræða við einhvern sem þið treystið fyrir tilfinningum ykkar, áhyggjum og þakklæti. Talið líka um það sem reynist ykkur erfitt.
  • Einbeitið ykkur að því sem þið treystið ykkur til að framkvæma. Ekki hugsað um hvað þið „ættuð að gera.“ Ef þannig stendur á hjá ykkur er líka í lagi að gera ekki neitt.
  • Látið það eftir ykkur að framkvæma á aðventunni aðeins það sem ykkur finnst skemmtilegt. Leitið leiða til þess að komast hjá því að gera það sem ykkur vex í augum. Hafið í huga að það er hægt að kaupa bakkelsið. Biðjið um aðstoð við það sem ykkur þykir erfitt að framkvæma, eins og t.d. að kaupa jólagjafir, hengja upp jólaseríur eða skreyta jólatréð. Ekki hika við að biðja aðra um aðstoð.
    Jólin eru erfiður tími fyrir marga.
    Jólin eru erfiður tími fyrir marga. Al Emes/Unsplash

Í bæklingnum er einnig að finna góð ráð um það hvernig aðstandendur geta veitt syrgjendum umhyggju og stuðning um jólin, en það er mikilvægt að sýna fólki skilning.

  • Hvort sem syrgjandinn ákveður að vera erlendis yfir jólin, horfa á sjónvarpið alla jólahátíðina eða halda í fyrri hefðir þá skalt þú sýna ákvörðuninni skilning. Sama þó hún valdi þér vonbrigðum eða áhyggjum. Hafðu í huga að þó jólin verði öðruvísi í ár þá þurfa þau ekki að vera þannig það sem eftir er. 
  • Það er dagamunur á fólki í sorg, hún er svo óútreiknanleg og erfitt er að skipuleggja fram í tímann. Syrgjandi gæti afboðað sig á síðustu stundu í jólaboð eða dottið í hug að mæta í boð sem hann var áður búinn að afþakka. Sýndu þessu skilning. Láttu vin í sorg vita að þú styðjir hann þrátt fyrir að plön breytast.
  • Ef þig langar að aðstoða er heppilegra að bjóðast til að gera eitthvað ákveðið en að segja „láttu mig vita ef ég get eitthvað gert.“ Þú gætir boðist til að aðstoða við innkaup, bakstur, þrif, pakka inn gjöfum, hengja upp jólaseríur eða sjá um matseld. Önnur hugmynd gæti verið að passa börnin eða bjóða þeim á viðburð á aðventunni. Þá fær syrgjandinn hvíld eða tækifæri til að sinna undirbúningi eins og hann treystir sér til.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál