Skerðast tekjur hjá eldri borgurum við sölu á sumarhúsi?

Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda.
Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda. Samsett mynd

Vala Valtýsdóttir lögmaður á Lögfræðistofu Reykjavíkur svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá manni sem veltir því fyrir sér hvort hann þurfi að borga skatt af sölu á frístundahúsi og hvort salan skerði tekjur hjá eftirlaunaþegum. 

Blessuð Vala. 

Mig langar að vita ef ég sel frístundarhús og kaupi síðan annað frístundarhús, hvort ég þarf að borga skatt af sölunni. Eða hvort ég verð fyrir skerðingu hjá Tryggingarstofnun en ég er 69 ára. 

Kveðja, 

JN

Einar H. Reynis/Unsplash

Sæll JN. 

Samkvæmt ákvæðum tekjuskattslaga þá er söluhagnaður frístundahúsnæðis undanþeginn skattlagningu, að því gefnu að rúmmetrar þess ásamt öðrum fasteignum í þinni eigu séu ekki umfram 600 eða 1200 ef þú ert í hjúskap. Við útreikning rúmmetra er almennt miðað við 2,4m í lofthæð sem þýðir að t.d. 200 fermetra húsnæði er 480 rúmmetrar. Skilyrði fyrir þessu skattleysi er einnig að frístundahúsnæðið hafi verið nýtt af eigendum og ekki verið til útleigu gegn endurgjaldi og að eignarhald varað að lágmarki 7 ár.

Ef hins vegar heildarrúmmetrar íbúðarhúsnæðis í þinni eigu (ykkar ef þú ert í hjúskap) fer umfram þessi mörk gilda ákvæði 15. gr. tekjuskattslaga, þ.e. að þá geturðu talið fram helming söluverðs til skattskyldra tekna í stað raunverulegs söluhagnaðar og af því greiðir þú 22% fjármagnstekjuskatt.

Dæmi:

Þú átt 180 fermetra íbúðarhús og 100 fermetra frístundahúsnæðis (sem uppfyllir það sem að framan greinir) þá eru rúmmetrarnir 672 miðað við 2,4 metra lofthæð. Þá er sem nemur 72 rúmmetrum skattskylt hjá þér eða 30% af söluhagnaðinum. Ef þú ert í hjúskap þá er enginn skattur enda frímarkið þar 1200 rúmmetrar.

Hvað varðar skerðingu ellilífeyris þá mega fjármagnstekjur (ásamt lífeyristekjum) vera samanlagt 300.000 kr. á ári án þess að hafa áhrif á lífeyri og 45 % tekna umfram frítekjumörk dragast frá greiðslum ellilífeyris. Þannig að það skiptir máli hvort sala frístundahúsnæðisins leiðir til skattskylds söluhagnaðar eða ekki hvað varðar skerðingu ellilífeyris.

Kveðja, 

Vala Valtýsdóttir lögmaður

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Völu og öðrum lögmönnum á Lögfræðistofu Reykjavíkur spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál