Hver er hin dularfulla María Hólm

Bókarkápan lítur svona út.
Bókarkápan lítur svona út.

Rithöfundurinn Steinunn Sigurðardóttir var að senda frá sér bókina Gæðakonur en hún fjallar um eldfjallasérfræðinginn Maríu Hólm sem er á leið í flugvél til Parísar. Í vélinni hittir hún konu sem gefur henni auga.

Daginn eftir sér hún sömu konu á kaffihúsi þar sem hún fær sér morgunverð. Hver er hún þessi Donna með rödd sem er í senn suðandi þýð og raspandi gróf? Og hvað vill hún Maríu – konunni sem jökullinn skilaði? Í skáldsögunni Gæðakonur kemur Steinunn Sigurðardóttir að lesandanum úr óvæntri átt. Hún sýnir hér allar sínar bestu hliðar: ískrandi kaldhæðni, flugbeittur stíll, leiftrandi húmor og einstök innsýn í heim alls kyns ásta og erótíkur.

Hér fyrir neðan er kafli úr bókinni:

María á heitum steini

Ég hefði viljað vera með Rögnu vinkonu í ofur-fatalausa kvennafansinum, nú get ég ekki orðið hluti af iðandi kös holdsins í dansandi gufunni, heldur er ég alein íslensk kona í framandi baðhúsi. Ef ég væri með stallsystur að heiman, þá mundi hún ná í vatn í balann með mér og fyrir mig, og skvetta yfir mig, og lauga á mér bakið, og ég mundi skvetta á hana og lauga á henni bakið, og við mundum skrafla saman á enn einu tungumálinu, móðurmálinu okkar, leynimálinu sem svo fáar manneskjur í heiminum hafa veður af.

En hér verð ég að pluma mig ein míns liðs í heitum raka, án þess að kunna á kerfið, ein í flísalagðri þúsund og einni nótt, í ilmi af möndluolíu, myntu ... láta mig berast með kvenkroppastraumnum, hlusta á margradda skvaldrið, þegjandi konan einsömul.

Fyrst í sturtu, bera á sig svörtu sápuna hátt og lágt, fara í gufuna, fimmtán mínútur minnst, skola svo ... rétt skal það vera í réttri röð. Eins gott að ramba á forskriftina, því baðkonan er að skamma norrænan klaufa sem hefur ruglast í röðinni, baðgestur fær bágt fyrir, með harðsoðnum bendingum. Svona pínlegheitum vill spéhrædda Marían ekki lenda í, svo ég vanda mig stórlega við athöfnina, og þakka mínum sæla að það var ekki ég.

Og spéhrædda Marían þarf að taka á honum stóra sínum til þess að láta sjálfa sig lönd og leið, blómstrandi æðahnútinn á kálfanum og aukakílóin. Makalaust hvað þau fara mér illa, þessi sjö eða tíu, eftir því hvernig talið er. Þau hafa lag á því að setjast þar sem allra síst skyldi; á kinnarnar, sem er svo bagalegt móti litla uppbretta nefinu. Þar að auki raðar umframþunginn sér þannig að það er komin á mig aðkenning að yfirmaga, en yfirmagi er það vaxtarlýti sem ég hef mestan ímugust á. Smá- undirmagi er meinleysisbumba, en yfirmagi er ístrukennt og karlmannlegt kvikindi. Ofan í kaupið er ég veðurbarin og æðaslitin af dansinum við íslenska kuldabolann. Með sveru úlnliðina mína og strítt hárið er ég orðin eins og ný útgáfa af lukkutrölli og ég er ansi hrædd um að svoleiðis skepna skeri sig úr í kvennabúrinu.

Alveg óverðskuldað eignast ég nú samt hammam- systur, tyrkneska dís, hún skvettir á mig og ég á hana, og við skríkjum af því balavatnið er kalt eftir hitann í gufunni, skvetta, skríkja, eins og hinar konurnar í búrinu, á mörgum tungumálum, ómur af slavnesku, skandinavísku, ofan á frönsku, tyrknesku, arabísku ... skærar raddir, dimmar, lágmæltar konur, háværar, rómþýðar... í sturtum og skvettum milli sturtu og gufu ...

Konurnar sem eiga raddirnar í gufunni eru háar, lágar, ofangrannar og niðurþybbnar, eða öfugt, allt þar á milli, ljóshærðar, dökkhærðar mest, tvítugar, sextugar ... sunnankonur í meirihluta, konur með unaðshúð — hammamgyðjur og húðdýrkendur. Snurfusaðir kroppar, ekki eitt aukahár neins staðar, ekki á fótlegg, augabrún, lærkrika, undir höndum. Skapahár snyrt og klippt í lítinn, snögghærðan þríhyrning eins og eftir reglustriku. Get ekki að því gert, mér finnst ó-náttúra í því.

Og María er lögst á marmarann í fyrsta sinn, hún liggur á bakinu með handklæðið yfir sér, konan við hliðina er handklæðislaus. MARÍA Á HEITUM STEINI, manneskjan sem rannsakar innri hita jarðarinnar, mesti sérfræðingur um Bárðarbungu og heimsins heitasta undir- liggjandi möttulstrók, reynir að gegnumlýsa jörðina eftir hræringum hennar, kortleggja innstreymi og útstreymi úr kvikuhólfunum, og skreppur í heitar laugar úti í íslenskri náttúru hvenær sem færi gefst, um hávetur, vor, haust og sumar, hún er komin á steintegundina, sem hitar inn í kjarna. Efniviður í dauðsmannshýsi og dauðramannastein, líka til þess fallinn að leiða hita í lifandi kropp, og María sem hefur það að ævistarfi að drasla í eldfjallagrjóti og hvíla sig sem snöggvast vindbarin á íslenskum steini, hún liggur nú eins og hún er löng til á upphituðum sunnansteini og dormar.

Blýþung og sjóðheit snýr hún sér á grúfu þegar hún rumskar. Þá sér hún sýnina á næsta marmarabekk, þangað er bara snertispölur.

Miðjarðarhafshúð gullinbrún á kroppi sem er meistara- verk í einstökum atriðum, og heildaráhrifin eins og skynvilla, þrívíddarmálverk af myndastyttu: háu brjóstin sem slúta örlítið á nákvæmlega rétta þyngdarpunktinum, yfir ívið stórum ljósbrúnum geirvörtum. Stutt í mittið með grannar sveigjumjaðmir, lærin löng, og fótleggurinn endar í grönnum ökkla og hárri rist. Tær velskapaðar og táneglur með fullkomnu naglstæði líta út eins og gómsætur biti eftir stjörnukokk, og ég fer að hugsa um fegurðarlýsingu úr gamalli írskri bók, þar sem hælfegurð elskaðrar konu er tíunduð, og nú snýr hún sér á magann og María er orðin svo forvitin að hún stendur upp gagngert til að skoða hælana á konunni, það stendur heima, þeir eru nýbakaðir úr keramíkofninum, og konan með hanskann á enn eftir að bæta í gljáann á vel bakaðri húðinni utan um fullkomnu formin.

Það er mikil annexía að vera vel hirtur kvenmaður, og nú er hún María mín komin á grúfu á húðslípunarbekkinn með æðahnútinn á kálfanum opinberaðan og já, konurnar gefa mér auga, ekki allar sem ein, en þær gefa mér auga, sumar, þær gefa öðrum konum auga, þær vantar konu, vanhagar um atlot, þess vegna eru einhverjar þeirra hér, ekki um að villast, og því ekki það, og ég loka augunum, konan mín með hanskann er harðhent, hún segir að það sé langt síðan ég fór síðast, og ég segi: Já, það er orðið langt síðan, þegar sannleikurinn er sá að ég hef aldrei farið í hammam, aldrei látið konuna með hanskann slípa af mér dauðar húðfrumur, hún er áfram harðhent á rassi og aftanverðum lærum, ég loka augunum, þetta er ekki vont, ekki vont, en ekki heldur gott, og ég hálfkvíði fyrir því að leggjast í móðurætt á bekkinn og bíða eftir því að hanskinn fari að nálgast brjóstin á mér og nárann, nú ef mér finnst hún of nærgöngul, nú þá segi ég bara: Augnablik, ég er með dálítið viðkvæma húð hér í náranum, og það stendur heima, þegar ég er búin að snúa mér þá stendur yfir mér baðgestur og er að skoða gripinn Maríu með þráleitan glampa í augum, meðan hanskinn fer sínar fyrirfram ákveðnu brautir harðhentur yfir framhliðina á Maríu, og hún lætur undan ferðalaginu á hanskanum, mótmælir ekki, engin viðkvæm húð neins staðar, og bíður eftir að komast í nuddið, þær eiga að vera svo ógurlega góðar þessar hammamnuddkonur, allt í réttri röð, þær koma til skjalanna þegar búið er að skafa af manni dauðu húðfrumurnar og svo nudda þær og nudda slípað yfirborðið og lifandi frumurnar glansa í gegn þegar búið er að ryðja þeim dauðu úr vegi.

Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur.
Steinunn Sigurðardóttir rithöfundur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál