Kaupir jólagjafirnar á síðustu stundu

Ásdís Rán byrjaði að skreyta heima hjá sér í nóvember.
Ásdís Rán byrjaði að skreyta heima hjá sér í nóvember.
Ásdís Rán Gunnarsdóttir hefur búið víða um heim en hefur þrátt fyrir það alltaf sótt í að vera sem oftast á Íslandi á jólunum. Ég spurði hana spjörunum úr. 
Ert þú mikið jólabarn? „Já, ég er algjört jólabarn! Elska jólin, jólalögin, skrautið, matinn og jólastemninguna ...“

Hvenær byrjar þú að skreyta heima hjá þér? „Ég byrjaði í byrjun nóvember en er nú ekki alveg búin.“

Áttu þér uppáhaldsjólalag? „Nei, það eru svo mörg falleg í boði.“

Besta jólagjöf sem þú hefur fengið? „Ætli það hafi ekki verið ein jólin þegar ég og Victoría vorum einar í Búlgaríu og það var of dýrt að koma til Íslands þau jól en ég var svo lánsöm að nokkrir fjölskyldumeðlimir ákvaðu að taka sig saman og ferja okkur yfir, það var æði!“

En sú versta? „Held það sé ekki til nein versta, gerir maður ekki gott úr öllu á þessum tíma?“

Hvernig og hvenær kaupir þú jólagjafirnar? „Ég geri það yfirleitt á síðustu stundu, nokkrum dögum fyrir jól, og síðustu gjafirnar jafnvel á Þorláksmessu. Ég er voða löt í þessu jólagjafastressi, mér finnst það oft fara út í öfgar hér á Íslandi. Ég er buin að búa í fimm löndum síðustu tíu ár og Ísland er eina landið þar sem fólk eyðir svona miklum peningum og stressi í jólagjafir, oftast er það bara maki og börn sem fá litlar sætar gjafir.“

Gerirðu eitthvað sérstakt í desember? „Það er svo margt, ég baka nú ekki oft en geri það í desember með krökkunum, svo eru það jólatónleikar og þorláksmessutónleikar sem eru alveg í uppáhaldi og alveg einstök stemning.“

Hvað borðar þú á jólunum? „Lambahrygg að hætti mömmu, það er gömul hefð, og náttúrlega langbesta kjötið að mínu mati.“

Eftirminnilegustu jólin? „Heyrðu það voru jólin í Skotlandi, fluttum þangað rétt fyrir jól og fyrsta árið okkar Garðars í burtu frá Íslandi og mamma, bróðir minn og systir komu til okkar. Þetta var eins og í enskri gamanmynd! Það gekk allt á afturfótunum. Jólatrénu reddað á síðustu stundu eftir langa leit, vantaði sjónvarp, ofninn í eldhúsinu virkaði varla, hræðilega kalt í húsinu og það hálftómt, bróðir minn lenti upp á spitala og alls konar vitleysa en þetta tókst allt á endanum.“

Hvað er það besta við jólin að þínu mati? „Það er svo margt, ljósin öll sem lýsa upp myrkrið, spennan hjá krökkunum, fjölskyldan saman í alls konar stússi og þessi einstaka jólastemning í loftinu, svo má ekki gleyma jólamatnum. Ég hef líka lagt það í vana minn að koma til Íslands um jólin og það er stór ástæða fyrir því að ég er svona mikið jólabarn, það er svo yndislegt að hitta familíuna og vini eftir langa fjarveru.“
Ásdís Rán er mikil jólastelpa.
Ásdís Rán er mikil jólastelpa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál