Ekki fóðra „ég-ið“ of mikið

Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri Unicef.
Bergsteinn Jónsson framkvæmdastjóri Unicef.

Bergsteinn Jónsson, nýráðinn framkvæmdastjóri Unicef, ætlar að strengja nokkur áramótaheit. Fyrst og fremst mun hann heita því að bera ávallt virðingu fyrir sjálfum sér og lífinu. Ég spurði hann spjörunum úr.

Hvernig var árið 2014? „Árið sem er að líða er helst merkilegt í mínu lífi fyrir þær sakir að það gerðist bara svo svakalega mikið. Bæði í mínu lífi og minna nánustu, en ekki síst á heimsvísu. Ég held að okkur jarðarbúum liggi einhver ósköp á að taka út þroska þessi misserin, slíkur er hraðinn á dramatíkinni og fjöldinn af stórviðburðum til að takast á við.“

Hvað stendur upp úr? „Klára stelpan mín varð stúdent, pabbi minn tókst á við veikindi með hetjulundina að vopni, góð viðbrögð við neyðarsöfnunum UNICEF fyrir börn í Suður-Súdan og fyrir baráttunni gegn ebólu, stuðningur heimsforeldra UNICEF á degi rauða nefsins… svo sótti ég um stórkostlega spennandi starf og fékk.“

Hver var hápunktur ársins? „Ég verð nú að svara þessu sem fagidíót en það eru tveir viðburðir sem keppa um titilinn. Annars vegar 25 ára afmæli Barnasáttmálans 20. nóvember og hins vegar að Malala Yousafzai og Kailash Satyarthi skyldu hljóta friðarverðlaun Nóbels. Hvor viðburður um sig minnir okkur með afgerandi hætti á gríðarlegt mikilvægi réttinda barna og hverju það getur áorkað að berjast fyrir þeim.“

Hver var lágpunktur ársins? „Ég vinn nú við það að vekja athygli á lágpunktum í lífi barna og safna stuðningi til að berjast fyrir réttindum þeirra. Atburðir ársins 2014 voru því miður margir afar harðneskjulegir í garð barna – Lágpunktar ársins eru því margir: innanlandsátök í Mið-Afríkulýðveldinu, Sýrlandi, Írak, Súdan, Suður-Súdan, ófriðurinn í Úkraínu og Gaza og síðast en ekki síst ebólufaraldurinn, sem hefur skaðað mikilvægt uppbyggingarstarf þriggja af fátækustu samfélögum heims, Gíneu, Líberíu og Síerra Leóne.“

Strengdir þú áramótaheit og stóðstu við það? Já mig minnir það en ekki hefur það verið merkilegt því ég man ekki hvað það var. Ég vil samt taka fram að ég er mikill fylgjandi svona einka-stefnumótunar. Mér finnst mjög mikilvægt að setja mér markmið og tengja mig við ásetning minn. Maður verður bara að passa upp á að byggja markmið sín á auðmýkt og virðingu fyrir öllu lífi til að fóðra ekki „ég-ið“ of mikið - „við-ið“ er málið!“

Hvað kenndi 2014 þér? „Að hlusta á innsæið og hjartað og klára mikilvægu - og stundum erfiðu - verkefnin sem lífið bíður eftir að þú skilir inn áður en það fleytir þér áfram.“

Ætlar þú að strengja áramótaheit fyrir 2015? „Já, fyrst og fremst mun ég heita því að bera ávallt virðingu fyrir sjálfum mér og lífinu og iðka kærleika til sjálfs mín og heimsins alls, því öll erum við eitt og hið sama… svo bæti ég örugglega einhverju við um sykurneyslu, snjallsímanotkun, bekkpressu og tíðni fjallganga.“

Hverjar eru vonir þínar og væntingar fyrir 2015? „Ég vonast eftir auknum þroska og eldmóði mannkyns til að tengjast ljósinu í sér og byggja sífellt hamingjusamari, heilbrigðari og öruggari heim fyrir alla: menn, dýr og plöntur – Hó! Ég hef talað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál