Gengur í peysuvestum og fílar Oxford efni

Gylfi Ólafsson.
Gylfi Ólafsson.

Gylfi Ólafsson, heilsuhagfræðingur, í fyrsta sæti Viðreisnar í Norðvesturkjördæmi. Gylfi er mikill gönguskíðakappi og hefur ákaflega klassískan fatastíl. Hann gengur mikið í peysuvestum og fötum úr Oxford efnum. 

Ertu byrjaður að skipu­leggja haustverkin?

Allar fjórar krukkurnar af rifsberjahlaupi eru búnar og rabbarbaragarðurinn upptekinn líka. Kartöflurnar verða teknar upp í kringum fyrsta frost og vetrarfötin fram um svipað leyti.

Er geymsl­an full af drasli?

Áttu þetta ekki að vera léttar og skemmtilegar spurningar?

Áttu erfitt með að losa þig við gam­alt dót?

Takk, Marta María, fyrir þessar spurningar.

Hef­urðu hent ein­hverju sem þú sérð rosa­lega eft­ir?

Mér áskotnaðist einu sinni bragðhristir, Flavour shaker frá Jamie Oliver, sennilega í jólagjöf frá einhverjum vinnuveitanda. Þessi græja leit út eins og glær barbapabbi með kúlu úr gamaldags tölvumús innaní, var mjög skrýtin á alla kanta og við höfðum ekki hugmynd um hvernig þetta átti að notast. Ég henti þessu eftir að þetta var búið að sitja óhreyft í skápnum um hríð, en nokkrum misserum seinna fóru uppskriftir að dúkka upp hjá konunni þar sem bragðhristar voru notaðir. Þá var það rifjað upp að ég hefði hent áhaldinu. Eftir á að hyggja hefði verið klókara að senda græjuna á eilífðarengið í frægu eldhúsáhaldasafni Þórarins Eldjárns.

Hvað lang­ar þig mest í fyr­ir veturinn (föt/​fylgi­hlut­ir)?

Mig vantar ný gönguskíði með rifflum.

Hvað gerðir þú í sumarfríinu?

Samkvæmt hefð varði ég stórum hluta sumarsins á ferð innanlands með eiginkonunni Tinnu, dótturinni Elínu og þriðja hjólinu Greipi vini mínum Gíslasyni. Við vorum mikið á heimaslóðunum á Ísafirði og höfðum undirbúið mikla frægðarför á Ögurballið í Ísafjarðardjúpi þangað sem við förum á hverju sumri. Við hjónin þurftum frá að hverfa á síðustu stundu vegna veikinda en Greipur hélt heiðri okkar uppi. Síðar fórum við austur í Mývatnssveit í heimsókn til tengdapabba og þaðan í ættaróðal Greips í Berufirði. Sumarfríið var annars töluvert lengra en venjulega því ég tók fæðingarorlofið mitt út í maí, júní og júlí.

Ertu dug­legur að láta drauma þína ræt­ast?

Ég held að ég hafi almennt mjög óljósa drauma og skrifa þá sjaldan niður, svo ég á erfitt með að átta mig á því.

Ertu a-mann­eskja eða b?

Það er mjög mismunandi, svo ætli ég verði ekki bara að segja að ég sé C-manneskja. Ég er allavega í framboði fyrir X-C. Sem pólitískur brandari fær þessi sennilega F.

Borðarðu morg­un­mat?

Já, einkum á virkum dögum, en ekki af misskildum heilsufarsástæðum heldur af því að mér finnst þægilegra að vera saddur en svangur.

Ertu dug­legur að elda?

Ég hef lítinn áhuga á matseld, svo við Tinna höfum skipt verkum með okkur þannig að hún sjái um það og ég sé um frágang og þrif eftir matinn.

Áttu lík­ams­rækt­ar­kort?  

Skíðaganga er íþróttin mín. Fyrir utan að fara á skíði druslast ég stundum út að hlaupa eða kaupa mér staka miða í skíðagönguýtingavélina í CFR Faxafeni.

Hvernig mynd­irðu lýsa fata­stíln­um?

Haustlitir árið um kring. Ég geng mikið í peysuvestum og skyrtum úr Oxford-efni.

Tek­urðu áhætt­ur þegar út­litið er ann­ars veg­ar?

Ég hef haft þá þumalputtareglu að ganga hvorki í svörtum fötum hversdags. Það veldur því oft að litasamsetningar og mynstur geta orðið æði skrautlegar.

Ertu með eða á móti fegr­un­araðgerðum?

Ég er ekki í stöðu til að dæma þá sem af einhverjum ástæðum eru ekki ánægðir með útlit sitt eða til hvaða bragða fólk tekur til að bæta úr því. Fólk á almennt að ráða slíku sjálft, bæði án lagalegra hindrana og dóma almenningsálitsins.

Finnst þér út­lits­dýrk­un ganga út í öfg­ar?

Það finnst mér ekki. Útlit er mikilvægt í margvíslegum formum sínum. Það er mikilvægt að fólk fái að lifa lífinu eftir eigin höfði og verja tíma sínum og peningum í það sem það vill.

Upp­á­halds­hlut­ur?

Það er freistandi að nefna raftækin sem maður beitir allan liðlangan daginn, en ætli ég verði ekki að segja uppþvottaburstinn, því það er þrátt fyrir allt yndisleg stund að setja góðan hlaðvarpsþátt í gang, loka inn í eldhús, finna hlýtt vatnið leika um fingurna og vaska ærlega upp.

Besta bók­in?

Skáldskap innbyrði ég mest í sjónvarpsefni en staðreyndir í bókum, en bækur almenns eðlis fjalla jafnan um afmörkuð mál og eiga því sjaldan möguleika á að fá titilinn besta bókin.Ég hef síðustu misseri haft mikið dálæti á grínskotnum staðreyndabókum Mary Roach, meðal annars þeirri um vísindin á bak við geimferðir. Þá get ég nefnt Meistara allra meina eftir Mukherjee um sögu baráttunnar við krabbamein, Draug Leópolds konungs eftir Hochschild um grimmdarverk Belga í Kongó og Banana eftir Koeppel um sögu þessa gómsæta ávaxtar.

Eft­ir­minni­leg­asta mynd­in?

Stella í Orlofi er sannarlega eftirminnilegasta myndin, enda gæti ég rakið hana frá upphafi til enda, senu fyrir senu með öllum sínum óborganlegu setningum. Uppáhaldsviðkvæðið mitt er „Leira?!“ sem hægt er að nota alltaf þegar manni er sagt að gera eitthvað gegn vilja sínum. Hin sænska Fucking Åmål er sennilega besta myndin sem ég hef séð, því henni tekst öllum myndum betur að fanga tilfinningar táninga. Allir áttundubekkingar ættu að horfa á myndina.

Helsta fyr­ir­mynd þín í líf­inu?

Mamma.

Hverju mynd­irðu breyta í lífi þínu ef þú gæt­ir?

Það hefur verið ólag á ofnunum heima. Það væri fínt að fá því kippt í liðinn.

Hef­urðu gert eitt­hvað sem þú sérð eft­ir?

Já. Reglulega rifjar heilinn minn upp margt af því fyrir mér, einkum þegar ég er rétt ósofnaður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál