Með hnút í maganum yfir svona körlum

Jón Gnarr og Helga Braga Jónsdóttir í hlutverkum sínum í …
Jón Gnarr og Helga Braga Jónsdóttir í hlutverkum sínum í Borgarstjóranum.

Jón Gnarr, höfundur þáttanna Borgarstjórinn, sem sýndir eru á Stöð 2, segist hafa unun af vandræðalegum aðstæðum og á sama tíma finnst honum mjög áhugavert að fylgjast með fólki. Hann segir að karlar komist upp með ótrúlegustu hluti og að samfélagið sé fullt af ósnertanlegum körlum sem geta ekki neitt. 

Borgarstjórinn fór hægt af stað en í síðustu viku fóru leikar að hressast. Þegar Jón er spurður út í þetta segist hann hafa hugsað þættina sem rússíbanareið. 

„Borgarstjórinn fer rólega í byrjun, rólega upp og svo pompar hann niður og fer aðeins á hvolf,“ segir Jón og hlær. 

Þegar hann er spurður að því hvort áhorfandinn eigi eftir að sitja stjarfur játar hann að það gæti mögulega gerst.

Borgarstjórinn er stjórnlaus mannleysa.
Borgarstjórinn er stjórnlaus mannleysa.

„Mér finnst vandræðagangur og leiðindi svo spaugileg. Flestum finnst svona aðstæður óþægilegar og þvingaðar en mér finnst þær fyndnar. Það er þessi yfirvegaði og skipulagði raunveruleiki borgarstjórans sem gengur allur úr skorðum. Borgarstjórinn er náttúrlega svona stjórnlaus persóna sem er algerlega haldið utan um af Dúdda aðstoðarmanninum (sem leikinn er af Pétri Jóhanni Sigfússyni innsk.blm). Dúddi er svona umsjónarmaðurinn hans, hann sér um hann. Mér finnst Pétur Jóhann stórkostlegur í þessu hlutverki. Mér finnst svo gaman að hafa hann með mér í þessu verkefni,“ segir Jón. 

Talið berst af körlum og játar Jón að hann sé nú ekki svo óvanur því að leika ljóta og leiðinlega karla. Hann segir jafnframt að Pétur Jóhann sýni á sér nýja hlið sem leikari og það gleðji hann mjög. 

„Pétur Jóhann er mjög sannfærandi sem spindoktorinn Dúddi. Það á eftir að koma betur í ljós í þáttunum. Þegar þarf að redda hlutunum þá er Dúddi til taks,“ segir hann. 

Borgarstjórinn í þáttunum þráir bara tvennt í lífinu; að fá stóran jeppa og eignast góða konu. Þegar ég spyr Jón að því hvort þetta sé uppskrift flestra að góðu lífi segist hann þekkja marga sem þrá þetta tvennt. 

Steindi í hlutverki sínu í Borgarstjóranum.
Steindi í hlutverki sínu í Borgarstjóranum.

„Margir menn fara nú ekki fram á neitt mikið meira,“ segir hann og hlær og bætir við: „Það eru því miður allt of margir sem fara á mis við það. Borgarstjórinn er maður sem hefur ekki tekist að festa sig í sambandi við eina konu og eins og ég hugsa hann, ímynda mér, þá er hann að berjast við fíkn. Ég held að þetta sé ástæðan fyrir því að honum líður ekki nógu vel. Þetta er ákveðin fíkni hugsun að vanlíðan þín sé ytri aðstæðum að kenna. Betri bíll myndi fylla þig öryggiskennd. Þetta er svolítið heimspeki vestræns samfélags. Svona er neysluhyggjan,“ segir hann. 

Í Borgarstjóranum fá áhorfendur innsýn í heim embættismannakerfisins. Þegar ég spyr Jón hvort hinn venjulegi borgari muni tengja við þetta segist hann ekki hafa neinar áhyggjur af því. 

„Venjulegt fólk mun alveg ná djókinu. Ég hef borið gæfu til að fá fólk til að ná djókinu. Það tekur stundum smá tíma - fólk nær djókinu stundum ekki alveg í fyrsta. Ég hafði áhyggjur af þessu þegar við gerðum Næturvaktina. En svo er það þannig að þegar maður er að gera grín að erkitýpum sem við könnumst öll við úr okkar eigin líf þá finnst fólki það fyndið. Þessar persónur eru ekkert fjarri raunveruleikanum. Svona karlar eru víða. Það sem mig langaði til að gera er að nýta mína reynslu af því hvernig stjórnsýslan virkar því ég hef innsýn. Þessi tegund af sjónvarpsþáttum gæti flokkast sem skemmtun en líka sem innsýn og upplýsingar.“

Jón segir að hugmyndin að þáttunum um Borgarstjórann hafi kviknað þegar hann var borgarstjóri í Reykjavík. 

„Þá fórum við Dagur B. Eggertsson og áttum fund með nemandafélögum framhaldsskólanna og vorum að reyna að átta okkur á því hvernig við gætum fengið ungt fólk til að sýna stjórnmálum meiri áhuga. Það er staðreynd að útlenskir þættir sem gerast í stjórnmálaheimum hafa notið mikilla vinsælda eins og House of Cards og þetta var ákveðin leið til að gera slíka tegund af íslenskum þáttum.“ 

Jón Gnarr og Jóga eiginkona hans með eldri borgurum sem …
Jón Gnarr og Jóga eiginkona hans með eldri borgurum sem fóru með hlutverk í Borgarstjóranum.

Hvaða kikk færðu út úr því að vera borgarstjórinn eins og hann er í þáttunum?

„Æji, ég veit það ekki. Ég hef svo oft horft á þessa menn og með hnút í maganum því ég verð svo vandræðalegur. Þetta er mjög sérstakt. Þegar ég skrifaði þættina þá fór ég í gegnum ákveðnar upplifanir en þegar kom að því að leika karlinn og gera þetta sem hann gerir þá fór ég í gegnum annan tilfinningaskala. Sumt af því fannst mér verulega óþægilegt eins og til dæmis sjálfhverfan hans. Ég átti mjög erfitt með það. Þegar ég var að vinna í fjórða þættinum (sem syndur verður í kvöld innsk.blm) átti ég erfitt með að horfa á það. Mér varð virkilega flökurt. Ég fæ líkamleg vanlíðunareinkenni hvernig hann kemur fram við konur. Mér fannst það mjög óþægilegt. Síðan er annað í þessu sem er persónuleg áskorun fyrir mig og það er að leika útgáfu af einhverju sem ég var. Það er mjög sérstakt. Ég var í þessu. Þetta er ákveðið starf sem fáir upplifa að vinna og ég fékk að kynnast því og leik útgáfu af manni sem er að gera nákvæmlega það sama. Sem leikari er ég method leikari. Ég reyni að vera það sem ég er að leika. Þetta var samt ekki eins erfitt og að vera Georg Bjarnfreðarson því hann var svo neikvætt innstilltur. Ég hef talað um það að þegar ég var heima hjá mér og æfa og ég var farinn að tala við alla fjölskylduna eins og Georgo Bjarnfreðarson. Þegar ég var spurður  einhver vildi fara í bíó þá þurfti fjölskyldan mín  að stoppa mig því ég talaði eins og Georg. Þau spurðu hvort þau gætu losnað við Georg Bjarnfreðarson út af heimilinu. Það er erfitt að leika illmenni sem er alltaf vondur og leiðinlegur við alla,“ segir Jón. 

Jón segir að Borgarstjórinn sé ekki illmenni heldur mannleysa. 

„Hann er svona mannleysa sem lafir uppi og ég hef oft velt fyrir mér með svona karla sem lenda á ákveðnum stað í tilverunni, það er alveg sama hvað þeir eru vanhæfir og disfunktional. Það fer alltaf vel fyrir þeim,“ segir Jón.

Þegar við ræðum þetta betur segir hann að þetta hafi heilmikið með okkur sjálf að gera. 

„Það er eitthvað við svona karla sem okkur finnst sjarmerandi. Við þekkjum þetta í okkar eigin körlum. Körlunum okkar. Við þekkjum öll karlinn sem kann ekki að sjóða kartöflur og þurfti að fá annað fólk til að gera það fyrir sig. Á einhvern hátt skiljum við þá og þykir vænt um þá. Ég hef verið að takast á við þetta í mínum verkum. Því þetta þema er mér hugleikið. Þegar ég var krakki horfði ég á pabba minn og hugsaði „verð ég svona karl einn daginn?“,“ segir hann og brosir. 

Jón er að skrifa Skaupið í ár ásamt Þorsteini Guðmundssyni, Kötlu Margréti Þorgeirsdóttur, Helgu Brögu Jónsdóttur og Sigurjóni Kjartanssyni. 

„Það gengur mjög vel. Samfélagið hefur séð okkur fyrir efni til að vinna úr. Það er óhætt að segja það. Svo er ég skrifa og vinna að nokkrum verkefnum sem eru misjafnlega langt komin. Svo erum við fjölskyldan á leið til Texas þar sem ég mun kenna handritsskrif og svo er ég hluti af stærra verkefni úti í Houston sem mér finnst persónulega mjög spennandi. Það er verkefni sem varðar loftslagsbreytingar. Nördahliðin í mér fær þar smá útrás.“

Það var mikið á sig lagt í tökunum. Hér er …
Það var mikið á sig lagt í tökunum. Hér er María Reyndal leikstjóri í skottinu á borgarstjórabílnum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál