„Allt skrautið endaði úti á dansgólfinu“

Einar Geirsson og Anna Margrét Gunnarsdóttir á brúðkaupsdaginn.
Einar Geirsson og Anna Margrét Gunnarsdóttir á brúðkaupsdaginn. Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir

Einar Geirsson verkfræðingur og Anna Margrét Gunnarsdóttir meistaranemi í markaðsfræði gengu í hjónaband 15. ágúst 2015. Þau segjast hafa valið þessa dagsetningu af praktískum ástæðum því salurinn var laus og engir stórviðburðir á dagskrá í miðborginni þennan dag. Svo er laugardagur til lukku þannig að þetta passaði fínt. 

Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir
„Athöfnin var haldin um hádegisbil í stofunni heima hjá tengdaforeldrum mínum, með útsýni yfir Tjörnina. Tryggvi Gunnarsson hjá Siðmennt gaf okkur saman og við vorum í skýjunum með athöfnina sem stóðst allar væntingar. Eftir á var boðið upp á fallega brúðartertu sem Eva Laufey vinkona mín bakaði og gaf okkur hjónum og svo var skálað í kampavíni með gestunum. Seinna um kvöldið héldum við svo stóra veislu í Oddfellow-húsinu við Vonarstræti,“ segir Anna Margrét.

Í aðdraganda brúðkaupsins stóð Anna Margrét í ströngu því þá starfaði hún sem blaðamaður á Nýju Lífi og fékk það verkefni að velja hundrað mismunandi brúðarkjóla til að gefa lesendum góðar hugmyndir. „Auðvitað endaði ég sjálf í kvíðakasti yfir kjólavalinu því ég var búin að sjá allt of marga möguleika og orðin rangeygð yfir blúndum og slöri. Fyrir rælni rambaði ég inn í vintage verslunina Nostalgíu og fann þar tvo brúðarkjóla á slikk, einn fyrir athöfnina og hinn fyrir partíið. Aðalkjóllinn var glæsilegur 60's brúðarkjóll, alsettur perlum og blúndum með þéttum perlukraga við hálsinn. Partýkjóllinn var hinsvegar aðsniðinn pallíettukjóll sem var engan vegin brúðarlegur sem mér fannst fullkomið því við vildum hafa sjálfa veisluna afslappaða og skemmtilega – minna af hátíðlega brúðarstílnum og meira va-va-voom!“

Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir

Þegar Anna Margrét er spurð út í brúðkaupsundirbúninginn segir hún að hann hafi ekki tekið sérlega langan tíma.

„Við hlustuðum þó á góð ráð og bókuðum salinn mörgum mánuðum áður og mæli ég eindregið með því. Við notuðum svo vorið og sumarið til að plana veisluna og dúlluðum okkur við að panta skreytingar og þess háttar.“

Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir

Anna Margrét segir að veislan hafi verið ótrúlega skemmtileg, laus við allt stress og formlegheit, einmitt það sem þau höfðu óskað sér.

„Edda Sif frænka mín var stórkostleg í hlutverki veislustjóra og hélt uppi stuðinu með aðstoð frá pug-hundinum Púka. Borðhaldið var standandi og því var mikið flæði á gestunum um salinn, skemmtilegar ræður, opinn bar með krapvél og myndahorn með selfie-stöngum og allskonar skrauti og grímum.

Seinna myndaðist svo heljarinnar partí með plötusnúð og tilheyrandi balli. Fjölskyldur okkar og vinir sameinuðust í trylltum dansi, allt skrautið úr selfie horninu endaði úti á dansgólfinu og allir í banastuði með grímur og hatta. Nokkrar myndarlegar vinkonur mínar tóku sig svo til upp úr miðnætti og útbjuggu hátt í hundrað grillaðar samlokur. Var herlegheitunum svo rúllað út á dansgólfið ásamt appelsíni í gleri við mikinn fögnuð gestanna. Við hjónin læddumst út þegar ballið náði hámarki, röltum saman í gegnum bæinn og niður á Hótel Marina þar sem við gistum brúðkaupsnóttina. Magnaður dagur í alla staði.“

Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir

Þegar ég spyr Önnu Margréti hvort það muni einhverju að vera í hjónabandi segir hún svo vera.

„Það er mjög gaman að vera giftur, þó það sé lítill munur á sjálfu sambandinu fyrir og eftir hjónavígsluna. Við vorum búin að vera saman í 8 ár þegar við giftum okkur svo eina breytingin er eflaust sú að núna eigum við allskonar fína hluti í búið okkar sem við fengum í brúðargjöf; agalega lekkert kaffistell, alla heimsins aukahluti í Kitchenaid vörulínunni, kristalskampavínsglös og svona mætti lengi telja. Við erum ótrúlega glöð með brúðkaupið í heildina og þakklát vinum og ættingjum fyrir að hafa fagnað með okkur og gert daginn ógleymanlegan. Nú getum við þeytt marengstoppa í matreiðsluvélinni og lifað hamingjusöm til æviloka.“

Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir
Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir
Ljósmynd/Berglind Rögnvaldsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál