Verst að sofa yfir sig og muna ekki hvar bílnum var lagt

Tónlistarmaðurinn og hlaðvarpsstjórnandinn Flosi Þorgeirsson segir hápunkt ársins vera að hann hafi loksins látið verða af því að gefa út sólóplötu. Flosi er kannski hvað þekktastur fyrir að vera einn liðsmanna hljómsveitarinnar HAM og hefur gefið út fjölda platna með öðrum tónlistarmönnum. Nú hefur hann hins vegar gefið út sína eigin plötu sem ber titilinn Flosi.

Flosi stýrir einnig hlaðvarpsþættinum Draugar fortíðar sem framleiddir eru af Hljóðkirkjunni og hafa notið góðs gengis á árinu.

Hver var hápunktur ársins?

„Ég lét loksins verða af því að gera sólóplötu.“

En lágpunktur ársins?

„Man ekki eftir neinu sérstöku en það var mikið um þetta venjulega: Sofa yfir sig, gleyma hvar ég lagði bílnum, borða of mikið nammi og of lítið af heisusamlegu.“

Skrítnasta augnablikið árið 2021?

„Það var þegar ég leit á hvernig söfnun fyrir útgáfu sólóplötunnar gengi á Karolinafund, daginn eftir að hún hófst. Ég hélt ég myndi líklega ná markinu en það tæki nokkrar vikur. Daginn eftir sá ég að þetta var löngu komið og hélt bara áfram. Flestir hefðu glaðst, sem ég og gerði, en þar sem ég er nú eins og ég er, fékk ég einnig heiftarlegt kvíðakast.“

Hvernig ætlar þú að fagna nýju ári?

„Ég er orðinn svo mannfælinn með aldrinum og rokkið hefur skemmt heyrnina svo að ég get ekki verið á einhverjum skemmtistað og heyrt ekkert sem neinn segir. Ég tek því rólega í góðra vina hópi.“

Ert þú búinn að strengja áramótaheit?

„Ég ætla að klára hluti sem ég byrja á.“

Ætlar þú að vera duglegri að gera eitthvað árið 2022 en þú varst 2021?

„Já, ég ætla að vera duglegri að hreyfa mig og borða reglulega. Eftir því sem aldurinn færist yfir er þetta mikilvægara, sérstaklega hreyfingin.“

Hver var réttur ársins í eldhúsinu þínu?

„Það var eflaust dýrindis kjúklingaréttur sem ég gerði í febrúar og líklega eina skiptið á öllu árinu sem ég eldaði eitthvað heima hjá mér. Þarf að gera meira af því á þessu ári.“

Besta bók ársins?

„Út að drepa túrista, e. Þórarin Leifsson, How Iceland Changed the World, e. Egil Bjarnason og svo hafði ég gaman af ævisögunni Rauði Baróninn e. fótboltadómarann Garðar Örn Hinriksson.“

Besta kvikmynd ársins?

„Ég hleyp yfirleitt ekkert strax í bíó til að sjá eitthvað. Stóru kvikmyndaverin þora ekki lengur að taka neina sénsa og halda sig að mestu við endurútgáfur og heilalausar ofurhetjumyndir. Besta efnið er í sjónvarpinu.“

Bestu þættir ársins?

„Mér fannst Fear Street þríleikurinn á Netflix alveg svakalega skemmtilegur.“

Besta lag ársins?

„No Coffee at the Funeral með Vök.“

Flosi Þorgeirsson ætlar að hreyfa sig meira á nýju ári …
Flosi Þorgeirsson ætlar að hreyfa sig meira á nýju ári og borða reglulega.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál